Urta Islandica í stöðugri sókn
Á dögunum hittum við þær Þóru Þórisdóttur og Guðbjörgu Láru Sigurðardóttur sem reka Urta Islandica í Gömlu matarbúðinni að Austurgötu 47 í Hafnarfirði. Í búðinni var mikið um að vera og öll fjölskyldan að störfum við afgreiðslu, pökkun og útkeyrslu á vörum en vörurnar frá Urta Islandica eru nú til sölu út um allt land. Pakkningarnar eru einfaldar og hentar ferðamönnum vel að stinga á sig poka og poka en stór hluti framleiðslunnar er keyptur af erlendum ferðamönnum.
Úrvalið í Gömlu matarbúðinni kom sérstaklega á óvart en á undanförnum tveimur árum hafa þær mæðgur þróað yfir fimmtíu vörutegundir. Vörurnar eru af ýmsum toga s.s.; jurtate, jurtablöndur, jurtasýróp, sultur og hlaup og gríðarlegt úrval af bragðbættum söltum. Mest af innihaldinu í vörum Urta Islandica er úr lífrænt ræktuðum afurðum og stefnt er að því að fá lífræna vottun á framleiðsluna með tíð og tíma. Nokkur ljón eru þar í veginum og má þar helst nefna að verð á lífrænt vottuðum sykri með nýja sykurskattinum er hátt og myndi gera vörurnar svo dýrar að framleiðslan myndi vart vera samkeppnishæf. Hægt væri að kaupa lífrænt vottaðan sykur á viðráðanlegu verði í miklu magni en til þess þarf fjármagn og geymsluhúsnæði.
Á meðan er unnið að frekari vöruþróun og munum við fylgjast spennt með framhaldinu.
Við hvetjum þær Þóru og Guðbjörgu áfram til dáða og hvetjum þá sem enn hafa ekki ratað til þeirra að kíkja við í næstu ferð í fjörðinn.
Sjá Urta Islandica hér á Grænum síðum.
Ljósmynd: Þóra og Guðbjörg fyrir framan Gömlu matarbúðina, ljósm. Chiara Ferrari Melillo.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Urta Islandica í stöðugri sókn“, Náttúran.is: 16. júlí 2013 URL: http://nature.is/d/2013/07/16/urta-islandica-i-stodugri-sokn/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 28. janúar 2016