Samskip eru hætt að flytja hvalkjöt frá Íslandi til Evrópu. Farmur sem átti að fara til Asíu verður endursendur til Íslands.

Hvalveiðar fóru vel af stað í leiðindaveðri upp úr miðjum júní en það hefur gengið verr að flytja kjötið á áfangastað í Asíu. Félagar í Greenpeace mótmæltu komu flutningaskips með hvalaafurðir til Hamborgar fyrir helgi og tollurinn fyrirskipaði að sex gámar með hvalkjöti yrðu teknir frá borði. Þegar leyfi fékkst til að flytja þá áfram til Asíu var skipið farið. Finna þurfti annað skip og þá brá svo við að félagar í Greenpeace tjóðruðu sig við landfestar þess. Að auki bað umhverfisráðherra Þýskalands hafnaryfirvöld að banna flutning hvalaafurða um þýskar hafnir.

Þó leyfi hafi fengist til að flytja hvalkjötið frá Hamborg liggur leið þess ekki til Asíu, heldur til Rotterdam. Skipafélagið Evergreen Line hefur ákveðið að koma því aftur til Samskipa og telur sig hafa fullvissu fyrir að Samskip flytji gámana aftur til Íslands. Fréttastofa hefur svo fengið staðfest að Samskip eru hætt að flytja hvalkjöt til Evrópu. Þar telja menn að flutningunum sé í raun sjálfhætt. Bæði vegna banns sem hefur verið sett á flutning hvalkjöts um hafnir í Hollandi, og eins vegna þess að erfitt eða ómögulegt sé að fá önnur skipafélög til að flytja afurðirnar áfram til Asíu. Óvíst er þó um afdrif gámanna sex, meðal annars vegna þess að ekki er víst að þeir fái að fara um Rotterdam.

Grafík: Línurit um hvalkjötssölu í Japan.

Birt:
11. júlí 2013
Höfundur:
Rúv
Tilvitnun:
Rúv „Hvalkjötið verður sent aftur til Íslands“, Náttúran.is: 11. júlí 2013 URL: http://nature.is/d/2013/07/11/hvalkjotid-verdur-sent-aftur-til-islands/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 12. júlí 2013

Skilaboð: