Vistplast er plasttegund sem framleidd er úr endurnýttum jurtaafgöngum. Vistplastið sem nú er á markaði er aðallega framleitt úr maíssterkju. Ein af jákvæðu hliðum þessarar framleiðslu, er að sumar vörurnar, en þó ekki allar, eru hannaðar sérstaklega til að brotna niður.

Niðurbrjótanlegir vistplastspokar geta bæði brotnað niður í lofttómi og þar sem súrefni getur leikið um þá. Venjulegir plasthlutir brotna ekki niður í náttúrunni fyrr en í fyrsta lagi eftir hundrað ár (plastflöskur eftir 400 ár) en þeir jarðgerast þó aldrei. Að auki verður að taka inn í dæmið þau skaðlegu umhverfisáhrif sem hljótast af framleiðslu plasts, en það er framleitt úr olíu. Einnig áhrif þess á lífríkið á landi, í lofti og í sjó á niðurbrotsárunum (öldunum). Rannsóknir sýna að a.m.k. 100.000 sjávardýr og 2 milljónir fugla deyja á ári hverju vegna plastsorps og svokallaðra hafmeyjartára sem eru örsmáar plastagnir sem kæfa eða safnast fyrir í líkömum dýranna, sem að lokum dregur þau til dauða.

Niðurbrotstími vistplasts verður aftur á móti á nokkrum mánuðum eða nokkrum árum, allt eftir aðstæðum en vistplast skilur ekki eftir sig nein mengandi efni. Sumar algengar vörutegundir úr vistplasti eru pokar, borðbúnaður, matarpakkar og einangrun en mjög áhugavert er að byrjað er að nota það í heyrúllubaggaplast en rúllubaggaplast er ákveðið vandamál í dag þar sem mikið magn þarf til að pakka inn einum bagga, það getur fokið út í veður og vind og erfitt og kostnaðarsamt er að endurnýta plastið. Rúllubagga-vistplast þyrfti aftur á móti varla að hirða af túnum því það getur brotnað þar niður og virkað sem næringarríkur áburður.

Hreinleiki fæðu sem pakkað er í vistplast er einnig mun meiri en fæðu sem pökkuð er í venjulegar umbúðir, sérstaklega dósir og plastflöskur sem geta hitnað, en við það verða til óheilsusamleg og jafnvel eitruð efnasambönd.

Þó verðum við að horfast í augu við þá staðreynd að framleiðsla vistplasts er háð jarðefnaeldsneyti sem orkugjafa á ýmsum stigum. Þá er átt við olíuna sem þarf til að knýja landbúnaðartækin til sáningar, umhirðu, uppskeru, flutnings uppskerunnar á framleiðslustað, framleiðsluna sjálfa og síðan flutning á markað. Síðan þarf einnig olíu til að framleiða áburð og skordýraeitur (sé það notað).

Þrátt fyrir þetta býður vistplast upp á stórkostleg tækifæri á sviði umhverfisvænrar vöruþróunar. Eitt af áhugaverðustu fyrirtækjunum á þessu sviði er ítalska fyrirtækið Novamont sem er leiðandi fyrirtæki í framleiðslu á vörum úr bioplasti, en fyrirtækið hefur einkaleyfi á vistplastinu Mater-bi.

Grafík: Vöruúrval Novamont.

Nokkrar vörur á Náttúrumarkaði eru framleiddar úr vistplasti.
Sjá BioBag hundaskítspoka og maíspoka fyrir matarleifar.

Birt:
28. júní 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Chiara Ferrari Melillio „Vistplast - vænlegri og sjálfbærari leið til plastframleiðslu“, Náttúran.is: 28. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2013/06/28/vistplast-vaenlegri-og-sjalfbaerari-leid-til-plast/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: