Guðfinnur Jakobsson bóndi í Skafholti hélt erindi á aðlafundi Samtaka lífrænna neytenda þ. 25. maí sl. Erindið fer hér á eftir:

Mykja og mold

Lífræn ræktun er jafngömul ræktunarsögu mannkynsins, því þegar menn hófu að rækta jurtir sér til fæðu og eða fóðurs fyrir búfé, þá áttu menn einungis völ á lífrænum, náttúrulegum áburðarefnum og það er fyrst á nítjándu öldinni með rannsóknum og síðar kenningu þýska efnafræðingsins Justus von Liebig um að jurtir þurfi einungis þrjú efni þ.e.köfnunarefni, kalí og fosfór til vaxtar. Í framhaldi af því hófst verksmiðjuframleiðsla slíkra efna til áburðar.
Veruleg og almenn varð notkun tilbúinna áburðarefna þó ekki fyrr en eftir síðari heimsstyrjöldina. Því vil ég kalla lífræna ræktun hefðbundna, því hún á sér miklu lengri hefð heldur en notkun steindauðra verksmiðjuframleiddra áburðarefna.

Ég við einkum nefna hér tvo frumkvöðla lífrænna ræktunaraðferða.

Annar þeirra Sir Albert Howard var ræktunarráðunautur indlandsstjórnar um áratuga skeið og uppgötvaði þar í sínu starfi hinar ævafornu ræktunaraðferðir indverja sem byggir á safnhaugagerð og fjölbreyttri ræktun. Hann uppgövaði m.a. gagnkvæmt samspil nytjajurta og svepparóta og að með lífrænum ræktunaraðferðum styrkist þetta samspil, en dvínar eða deyr út við notkun kemiskra efna við ræktun.  Hann segir m.a.:  "the health of soil, plant, animal and man is one and indivisible." Hann bar síðan þessa hugmynd með sér til Bretlandseyja og varð það upphafið að lífrænni ræktun þar um slóðir.

Í byrjun 20. aldarinnar hófst notkun tilbúins áburðar fyrst að einhverju marki þótt hún yrði ekki mjög útbreidd og almenn fyrr en áratugun síðar og margir bændur upplifðu að gæðum uppskerunnar hrakaði og dró úr heilbrigði búfénaðarins. Þetta vakti einnig athygli Rudolfs Steiner og að beiðni bænda sem þekktu til hugmynda mannspekinnar hélt hann Landbúnaðarnámskeiðið 1924. Í þessum átta fyrirlestrum var grunnurinn að hinni lífefldu ræktun lagður. Hér benti Steiner meðal annars á hversu mikilvægt það er að styrkja alheimsöflin í jarðvegi og gróðri, þannig að fæðan geti fengið þá krafta sem nauðsynlegir eru til að við getum þroskað okkur sem frjálsar manneskjur – manneskjur sem færar væru um að tengja hugsun (hið andlega) og athöfn (hið líkamlega).

Áburðurinn á að örfa lífið í jarðveignum
Vegna gæða gróðurafurðanna verður jurtanæringin að fara leiðina gegnum lífið í jarðveginum – „lífveru“ gróðurmoldarinnar og ekki gefast rótum jurtanna sem bein næring. Það liggur í eðli jurtanna að ræturnar leita af krafti og taka upp þau steinefni sem þær þarfnast og að samspil rótanna og annarra jarðvegslífvera hjálpar til við að leysa bundna næringu. Gegnum slíka virkni verður jurtin sterk og full af lífsþrótti, á sama hátt og virkni styrkir okkar eigin vöðva og líffæri.

Við viljum hafa virkar nytjajurtir sem fæðugrunn sem á að gefa manninum lífskraft. Þessvegna á áburðurinn fyrst og fremst að styrkja lífsferlana í jarðveginum. Út frá þessu er skiljanlegt að ekki eru notuð auðleyst jurtanæringarefni í lífefldri ræktun.

Með því að afla okkur þekkingar á því sem einkennir frjósaman jarðveg og hvernig hann verður til í náttúrunni getum við smám saman öðlast skilning á því hvernig ýmsar aðgerðir geta stuðlað að því að auka frjósem jarðvegsins. Við mennirnir getum meðvitað notað innsæi okkar til að styrkja einstaka ferla og samspilið milli þeirra – í heilbrigðri jarðyrkju er hægt að lyfta náttúruferlunum upp á hærra svið.

Aðgengi jurtanna að næringu er háð lífinu í jarðveginum.

Kenningin um að maður verði að gefa jarðveginum jafn mikið af áburðarefnum eins og það sem flyst burtu með uppskeru og tapast við útskolun oþh., á einungis við þegar jarðvegurinn hefur orðið að hlutlausu óvirku vaxtarefni. Óháð því hverskonar jarðveg maður hefur, er líffræðileg virkni jarðvegsins og hæfileiki til að byggja upp gróðurmold mikilvægasti frjósemisþátturinn. Það er löng leið og mikil áskorun að umbreyta ófrjóum steinefnakenndum jarðvegi yfir í góða, lifandi ræktunarmold. Þegar við vitum að það tekur meira en eitthundrað ár að mynda eins sentimetra lag gróðurmoldar, en minna en tíu ár að brjóta það niður með „kemiskum“ landbúnaði, sjáum við glöggt hversu stórt og tímafrekt verk það er að breyta yfir í lífrænan rekstur ef jarðvegurinn hefur verið rúinn í áratugi með slíkum aðferðum.

Frjósöm gróðurmold einkennist af því að hið flókna samspil sem er milli eðlis- og efnafræðilegra eiginleika jarðvegsins, aragrúa jarðvegslífvera og mismunandi jurtaróta, veðurfarsskilyrða og áhrifa alheimsins, geti virkað á öflugan og ákjósanlegastan hátt. Það tekur tíma að byggja upp slíkan jarðveg og hann er árangur réttra aðgerða eins og jarðvinnslu, áburðar, góðra sáðskipta og notkun lífefldra hvata – aðgerðir sem allar verka hver á aðra og skapa sameiginlega góða hringrás.

Við góða ræktun í líffræðilega virkum jarðvegi, verður innihald uppskerunnar á ýmsum steinefnum oft meira en það magn steinefna sem við bætum í jarðveginn með áburðinum. Flestar tegundir jarðvegs hafa mikinn forða steinefna eins og kalíum, fosfór, kalsíum og magnesíum sem að hluta getur orðið aðgengilegt jurtarótunum. Þetta er háð því að jarðvegslífið og jurtaræturnar fái möguleika á að ná til þessa forða. Til að það geti orðið verða undirstöðuatriði lífs, nefnilega loft, vatn, varmi og næring að vera til staðar.

Hér gegnir ánamaðkurinn afar mikilvægu hlutverki. Hann sér um að breyta skilyrðunum niður á við þannig að loft og vatn geti komist lengra niður og hann ber einnig lífrænt efni með sér niður, blandar það steinefnum úr jarðveginum og skapar þarmeð bestu vaxtarskilyrði fyrir örverur jarðvegsins. Hann myndar einnig heilt net grófra ganga, sem jurtaræturnar geta vaxið í. Göng þessi geta haldist lengi þökk sé kísilkenndu efnsambandi sem ánamaðkurinn gefur frá sér og klæðir gangnaveggina með.

Jurtaræturnar gefa frá sér ýmis efnasambönd, meðal annars ýmsar lífrænar sýrur. Þetta hjálpar til við að leysa annars óaðgengilegar uppsprettur steinefna. Með því að rækta jurtir með mismunandi eiginleika eins og djúpar rætur og eiginleika til steinefnaupptöku, geta mismunandi steinefni úr dýpri jarðlögum borist upp í lag gróðurmoldarinnar og þarmeð inn í næringarhringrás býlisins. Notkun lífefldu hvatanna virðist þar að auki auka hæfileika jurtanna til að verða sér úti um það sem þær þarfnast.

Það eru samt ekki jurtaræturnar einar sem sjá um að leysa steinefnaforða jarðvegsins. Ræturnar eru háðar aðstoð örvera sem þær búa í nánu sambýli við. Í moldinni sem umlykur ræturnar (rhizosvæðið) eru fjöldi lífvera, oft mörghundruð sinnum fleiri en í jarðvegi utan rótasvæðisins. Ræturnar gefa frá sér ýmis efni sem þjóna sem næring fyrir örverurnar og þessar örverur stuðla í verulegum mæli að því að leysa jurtanæringu frá steinefnum jarðvegsins. Þar að auki skapar niðurbrot mismunandi jurtaleifa, ásamt hvatabættum búfjáráburði og safnhaugamold, kjörskilyrði fyrir ánamaðkinn sem getur haldið áfram sínu starfi niðurávið í jarðveginum.

Sérstaklega náin tengsl milli jurtaróta og örvera finnum við í sambýlinu milli sveppa og róta. Þetta er nefnt mycorrhiza, eða svepparót. Í slíku sambýli geta sveppaþræðirnir myndað kápu umhverfis ræturnar eða vaxið inn á milli rótarfrumanna (eru nefndir ecto- og endomycorrhiza). Jurtin sér sveppunum fyrir kolvetnum sem hún myndar við ljóstillífunina, meðan sveppurinn hjálpar til við upptöku jurtarinnar á vatni og næringu. Sveppaþræðirnir (mycel) teygja sig fleiri metra út eftir jarðveginum og auka þarmeð verulega bæði lengd og yfirborð rótarkerfisins. Sveppaþræðirnir eru þar að auki miklu grennri en ræturnar og það leiðir til þess að þeir geta smogið inn í miklu minni holur jarðvegsins. Nokkrar tegundir sveppa geta jafnvel étið sig inn sandkorn jarðvegsins með því að gefa frá sér sýrur sem leysa upp steinefnin. Sveppurinn tekur þau svo upp og smám saman verða þau aðgengileg jurtinni. Langflestar jurtir mynda einhverja tegund svepparóta, einnig flestar nytjajurtin svo fremi að ekki sé notaður of mikill áburður. Sveppaþræðirnir eru sérlega duglegir við að taka upp fosfór, en einnig eykst upptaka köfnunarefnis og brennisteins ásamt fleiri snefilefnum, eins og kopars og sinks, þar sem svepparæturnar eru til staðar.

Önnur jákvæð áhrif eru að vatnsupptakan eykst, minni ágangur þráðorma á ræturnar og sveppaþræðirnir stuðla að myndun stöðugra jarðvegskorna, nokkuð sem mikilvægt er fyrir góða jarðvegsbyggingu. Að meðhöndla jarðveginn þannig að stuðlað sé að myndun svepparóta hjá nytjajurtunum er þessvegna afar mikilvægt. Við notkun tilbúins áburðar og eitraðra úðunarefna myndast lítil eða engin svepparót.

Annað mikilvægt sambýli er til staðar milli niturbindandi baktería og róta sumra jurta.

Gróðurmoldin og húmusferlarnir
Frjósamur jarðvegur þarf að hafa góða byggingu sem tryggir gott aðgengi lofts niður í jarðveginn, einnig á tímum mikillar úrkomu og hann verður að geta haldið vel á vatninu á þurrkatímabilum. Þetta getur virkað sem mótsögn – að uppfylla annað myndi útiloka hitt. Enn og aftur leysir öflugt og virkt jarðvegslíf verkefnið með því að mynda gróðurmold (húmus).

Gróðurmold (húmus) samanstendur af flóknum lífrænum samböndum sem hafa mikla hæfileika til að binda steinefni og jarðvegsagnir saman í stöðug samkorn. Slík stöðug samkornabygging sér til þess að jarðvegurinn klessist ekki saman og tryggir gljúpan jarðveg sem hleypir lofti að. Auk þess hefur húmus mikla eiginleika til að binda vatn sem jafnframt er jurtunum aðgengilegt.

Gróðurmold (húmus) er árangur samvinnu aragrúa jarðvegslífvera við að umbreyta lífrænu efni úr einu formi í annað – leifar jurta, dýra og örvera eru brotin að hluta til niður af nokkrum lífveranna, meðan aðrar nota afganginn og niðurbrotna hráefnið til að byggja upp gróðurmold. Eftirtektarvert er hversu einsleit gróðurmoldin er í byggingu og efnasamsetningu, hvert svo sem lífræna hráefnið hefur í upphafi verið. Myndun gróðurmoldar er afar flókið og fínstillt samspil milli niðurbrjótandi og uppbyggjandi ferla og er hægt að líkja við meltingarferli æðri lífvera.

Slíkan hæfileika til að endurnýja sig, eða til að viðhalda eigin líkamsveru finnum við annars aðeins hjá lifandi verum. Það liggur því nærri að kalla lifandi, húmusmyndandi jarðveg húmuslífveru og alla ferla sem eiga sér þar stað húmusferla.

Í öllum lífverum er það samspil ferla sem ummyndar framandi efni yfir í eigið efni lífverunnar. Hinir fjölbreyttu efnaskiptaferlar eiga sér þó stað innan lífverunnar, í maga hennar, frumum og líffærum, en hjá húmuslífverunni fara slík ferli fram hjá fjölda mismunandi lífvera, jurtaróta, sveppa, baktería, þráðorma, skordýra, köngulóa og ánamaðka. Samt sem áður eru ferlar þessir – húmusferlarnir – jafn samstilltir eins og efnaskipti æðri lífvera. Þessvegna getum við litið á fjölbreytileika lífveranna í jarðveginum sem frumur og líffæri „húmusverunnar“.

Jarðarviskan og náttúrulögmálin

Hæfileikinn til að finna fyrir þörfum eins og þorsta, kulda og sársauka, og hæfileikinn til að geta að vissu marki valið rétta næringu er forsenda eðlilegs mannlífs. Í dýraríkinu sjáum við sömu skilyrðin ennþá skýrari: hæfileikinn til að viðhalda líkamanum er háður ákveðnum tilfinningum og eðlisávísun – innbyggð viska.

Getur verið að hæfileiki gróðurmoldarinnar til að viðhalda sjálfri sér sé háður svipaðri visku eða tilfinningum? Hvernig væri annars gerlegt að viðhalda sjálfum sér í árþúsundir gegnum svo margbreytilega og flókna starfsemi? Við nánari athugun á fyrirbærinu virðist augljóst að „húmuslífvera“ jarðvegsins hafi raunverulega slíka innbyggða tilfinningu fyrir því hvers þetta lifandi lag gróðurmoldarinnar þarfnast. Gegnum þetta virðist jarðvegurinn til dæmis veita belgjurtum (jurtum af ertublómaættinni) forgang í nitursnauðum jarðvegi, jurtum sem lifa í sambýli við niturbindandi bakteríur.

Athyglisverður eiginleiki þessara niturbindandi örvera er að þær eru virkastar þegar köfnunarefnisinnihald jarðvegsins er lágt. Með virkni sinni – að færa jarðveginum köfnunarefni – undirbúa þær skilyrðin fyrir fyrir aðrar lífverur, ásamt því að draga sig til baka þegar köfnunarefnisinnihaldið hefur hækkað. Þetta er eitt af mörgum dæmum um samvinnueðlið í náttúrunni. Önnur dæmi eru kalkrík eikartré sem gjarnan vaxa í sand- og kísilríkum jarðvegi, semsé kalksnauðum jarðvegi, eða kalíumauðugur vallhumall í kalíumsnauðum jarðvegi. Ýmsar illgresis jurtir, sem svo eru nefndar virðast einnig hafa slíka viskufyllta eiginleika – þær skjóta upp kollinum þar sem ójafnvægi er og geta kennt okkur mikið um það hvers jarðvegurinn þarfnast.

Slík tengsl og slík dæmi tala augljóslega um eitthvað sem stríðir gegn hinni venjulegu rökhugsun. Það virkar líkt og mótsögn að köfnunarefnisauðugar jurtir vaxi í köfnunarefnissnauðum jarðvegi og að kalkauðugar jurtir í kalksnauðum jarðvegi. Við nánari umhugsun sjáum við að þessir eiginleikar jurta og jarðar eru forsenda þess að lag gróðurmoldarinnar viðhaldist. Að jurtirnar – þegar þær fá tilefni til þess – þjóni einnig jarðveginum þar sem þær vaxa, er „opinber leyndardómur“ svo notuð séu þekkt orð Goethes.

Niturbinding – hinn náttúrulegi nituraðflutningur

Ræktunarmaðurinn er sérstaklega upptekinn af köfnunaraðgengi jurtanna. Ásamt fosfór og kalí, er skortur á þessu næringarefni það sem oftast leiðir til minni vaxtar jurta.
    Þótt andrúmsloftið innihaldi kringum 78% köfnunarefni, þá er það ekki aðgengilegt jurtunum. Köfnunarefni loftsins er efnafræðilega stöðugt og gengur ekki fyrirvaralaust inn í önnur efnasambönd, eða virkni. Iðnaðarframleiðsla á ammoníaki (tilbúnum áburði) krefst mikillar orku – einnig háþrýstings og 500°C hita – í framleiðslu þarfnast það orku sem svarar 1 lítra af olíu fyrir hvert kílógramm áburðar.

En hvernig berst köfnunarefnið inn í lífssviðið í náttúrunni? Svo ótrúlegt sem það er þá er þetta ferli sem ýmsar örverur og hvatar þeirra geta framkvæmt við algjörlega náttúruleg skilyrði. Margar þessara örvera búa frjálsar í jarðveginum, en þær sem þýðingarmestar eru fyrir jarðyrkjuna búa í sambýli við rætur jurtanna. Þekktast og mest rannsakaða sambýlið  er það sem við finnum í rótum belgjurtanna. Í heillandi samspili milli sérstakra niturbindandi gerla og róta myndast rótarhnýði sem gerlarnir búa í. Í skiptum fyrir kolefnissambönd frá jurtinni sjá gerlarnir um að ummynda köfnunarefni loftsins yfir í ammóníak sem jurtin og jarðvegslífverunar geta hagnýtt sér.

Í lífrænu ræktuninni er sambýli þetta mikilvægasta uppspretta köfnunarefnis í næringarhringrás býlisins. Þessvegna er mikilvægt að mismunandi belgjurtir taki á margvíslegan hátt þátt í skiptiræktun á lífrænu býli. Auk smára í túnum er hægt að rækta hann sem undirgróður í kornökrum, í samræktun með grænmeti eða þá sem aðalræktunarjurtina.

Við hagstæð skilyrði (varma, raka og loft í jarðvegi) getur auk þess komið viðbótarframlag köfnunarefnis frá frjálsum niturbindandi gerlum, ekki síst þegar sumir þeirra mynda náið samband við rætur jurtanna. Slíkir samverkandi niturbindandi gerlar hafa fundist bæði umhverfis og inni í rótum korns og grænmetis. Enn sem komið er þá vitum við lítið um hvað það er sem örvar tilveru og vöxt þessara gerla, en ástæða er til að ætla að virkni þeirra vaxi í lifandi jarðvegi með virkt gróðurmoldarlag.

Nokkrar belgjurtir gefa einnig okkur mönnunum fæðu og er gott að rækta í matjurtagarðinum. Ýmsar tegundir af ertum og baunum gefa góða uppskeru, bragðast vel og stuðla jafnframt að því að næra jarðveginn.

Í iðnaðarlandbúnaði, sem er andstæða heilbrigs menningarlandbúnaðar, hafa menn stöðugt fjarlægst meir og meir grundvallarlögmál náttúrunnar. Hér merkir áburður bara beinan næringarflutning til jurtanna. Út frá slíkum sjónarhóli er til dæmis enginn munur á „dauðu“ og „lifandi“ köfnunarefni og tilbúinn áburður er álitinn góður og áhrifamikill. Að setja jafnaðarmerki milli áburðartegunda út frá innihaldi þeirra á ýmsum næringarefnum, á rætur að rekja til heimsmyndar efnishyggjunnar og skilnings á náttúrunni sem á henni byggir. Steiner segir í fimmta fyrirlestri Landbúnaðarnámskeiðsins að við fjarlægjum ekki aðeins mismunandi efni með uppskerunni sem við tökum, heldur einnig lífskrafta. Eigi jarðvegurinn að viðhalda lífsorku sinni verða kraftar þessir einnig að berast aftur til jarðarinnar, ekki bara efnið sem burt er tekið. Ef við notum tilbúinn áburð þá er það einungis dauða efnið sem borið er á – hina innri og dýpri kosti sem lifandi köfnunarefni ber með sér skortir.

Samspilið milli jurta, búfénaðar og manna
Þar sem ræktun ýmissra belgjurta er mikilvægasta köfnunarefnisuppsprettan í lífrænum rekstri, þá þarf að rækta slíkar jurtir á verulegum hluta býlisins. Í fóðurframleiðslunni eiga þær sinn eðlilega stað, bæði í túni auðugu af smára og einnig í ýmsum einærum fóðurblöndum. Í lífefldri ræktun, þar sem búfénaðurinn gegnir afar mikilvægu hlutverki, hafa belgjurtirnar ávallt verið mikilvægur þáttur sáðskiptanna.

Þegar við ræktum gras og smára þá mælum við framleiðsluna í magni grænmassa sem uppskorinn er. Við gleymum oft að jurtirnar senda jafn mikið af lífrænu efni niður í ræturnar og jarðveginn eins og það sem við uppskerum til fóðurs. Smáraríkt tún hefur þessvegna tvöfalda áburðarvirkni; ræturnar sjá um beina tilfærslu lifandi næringar til jarðvegsins, meðan grænmassinn ummyndast yfir í búfjáráburð þegar búfénaðurinn er fóðraður með honum.

Ef búfjáráburðurinn er borinn beint á jörðina, þá getur hann samt gert „húmuslífverunni“ meiri skaða en gagn. Því sem gerist í „húmuslífverunni“ þegar henni er gefið mikið magn af hráum, óummynduðum búfjáráburði má líkja við það sem gerist með okkar eigin meltingu ef við borðum mikið magn af hráu kjöti – að melta eða ummynda slíka þunga máltíð dregur úr okkur kraft og veldur óþægindum. Með því að steikja og krydda kjöt þá gerum við það auðmeltara, og á sama hátt getum við mennirnir meðhöndlað búfjáráburðinn til að hann verði hæfari sem næring fyrir „húmuslífveruna“. Varmameðhöndlun í formi safnhaugagerðar og að „krydda“ með lífefldu hvötunum hefur sýnt sig að hafa jákvæð áhrif á myndun gróðurmoldarinnar.
Að búfjáráburður sem umsettur er í safnhaugi innihaldi nokkuð minna mælanlegt magn  köfnunarefnis þýðir semsé ekki að hann sé minna virði sem áburður. Þvert á móti lítur út fyrir að safnhaugameðferðin bæti við eiginleikum sem geri það sem eftir stendur af köfnunarefni virkara og aðgengilegra fyrir jurtir og jarðvegslífverur. Hið sama hefur einnig komið í ljós hvað varðar fosfórinn.

Auk þess hefur notkun á vel unninni (þroskaðri) safnhaugamold sýnt sig að draga úr illgresi, sjúkdómsvaldandi lífverum í jarðvegi og að auka almennt heilbrigði og mótstöðuafl jurta. Hvatabættan búfjáráburð og safnhaugamold úr jurtaleifum ber ekki að skoða eingöngu sem áburðargjöf, heldur að minnsta kosti í jafn miklum mæli sem lífsorkugefandi og húmusmyndandi efni. Með þekkingu sinni getur maðurinn meðhöndlað jarðveg, jurtir, dýr og áburð á þann veg að það rækti (bæti) jarðveginn. Góð lífræn ræktun snýst ekki einungis um að „láta náttúruna ráða“, heldur um að styrkja og koma jafnvægi á náttúruferlana.

Jarðvinnsla
Í lífefldri ræktun er höfuðmarkmiðið með jarðvinnslu að ferlar þeir sem eiga sér stað í gróðurmoldinni viðhaldist og styrkist. Eitt af því mikilvægasta er þá að lag gróðurmoldarinnar geti haldist laust, svo að loft geti leikið um það. Allir hinir uppbyggjandi ferlar, sem eiga sér stað í gróðurmoldinni eru háðir aðgengi að lofti. Stöðvist loftunin þá fáum við loftfirrða ferla með þeim óæskilegu afleiðingum sem það hefur í för með sér.

Annað mikilvægt atriði er að lag gróðurmoldarinnar þorni ekki upp, allt líf í jarðveginum er háð vatni. Þetta tvennt kann að virðast í mótsögn hvort við annað. Djúp jarðvinnsla getur þurrkað upp jarðveginn, meðan loftaðgengið stöðvast í þéttu/samanþjöppuðu jarðlagi. Góð jarðvegsbygging þýðir semsagt hámarkshæfileika til að varðveita vatn og einnig hæfileika til að hleypa að lofti.

Um niturbindingu Rhizboiumgerlanna í rótum belgjurtanna

Þróun samlífsins – eða hið gagnkvæmt auðgandi samspil milli niturbindandi gerla af ættinni Rhizobium og ýmissra belgjurta (jurta tilheyrandi ertublómaættinni, Fabaceae), er heillandi fyrirbæri. Fleiri tegundir Rhizobium gerla búa að jafnaði frjálsir í jarðvegi og bíða allir eftir því að hin rétta tegund ertublómaættarinnar skjóti upp kollinum. Nokkrar tegundir gerlanna eru sérlega vandfýsnir – þeir ganga einungis inn í samlíf með sérstakri tegund jurta. Aðrir eru ekki eins vandfýsnir og velja milli þriggja – fjögurra ólíkra ætta belgjurta. Slíkt sérhæft val á félaga hlýtur að þýða að jurtin sendi út sérstök merki frá rótum sínum sem laðar síðan hina réttu gerlategund að sér. Þegar gerillinn hefur fundið jurtarætur sínar þá sendir hann út efni sem fær rótarhárin til að breyta sér.

Gerlarnir umljúkast rótarhárum sem opna sig síðan og gerlarnir komast síðan alveg inn í sérstakar frumur jurtarótanna. Komnir á leiðarenda lokast gerlarnir síðan inni í smápokum sem jurtin myndar. Inni í þessum pokum hætta gerlarnir smám saman að skipta sér. Þeir vaxa og bæði jurtafruman og gerlarnir – sem nú nefnast bakteróíðar og hafa orðið líkt og smálíffæri inni í jurtafrumunni – hafa þannig áhrif hvort á annað að fjöldi smábygginga og efna geta myndast. Þetta sjáum við sem smáhnúða á rótunum.

Öll lífræn niturbinding (sem aðeins getur átt sér stað hjá ýmsum örverum) er háð efrnahvata sem kallast nitrogenase. Þessi efnahvati eyðileggst fljótt af súrefni, nokkuð sem þýðir að virk niturbinding getur einungis átt sér stað þar sem efnahvatinn er verndaður. Í hnúðum belgjurtanna á þetta sér stað með því að jurtin og gerillinn stuðla að myndun efnis sem kallað er leghemoglobin. Það líkist mjög okkar eigin hemaglóbíni og getur bundið súrefni í enn meiri mæli. Á þann hátt verður mjög lítið magn súrefnis inni í rótarhnúðunum svo að nitrogenasinn eyðileggst ekki. Það hefur líka uppgötvast að mikið leghemoglobin í hnúðunum – nokkuð sem við getum séð sem ljósrauðan lit ef við skerum þá sundur – gefur líka mestu niturbindinguna.

Í samlífinu sér jurtin gerlinum fyrir kolvetnum og öðrum næringarefnum og í staðinn fær hún köfnunarefni sem hún getur notað til eigin vaxtar og þroska. Þessi „sjálfsbjörg“ á köfnunarefni hefur áreiðanlega leitt til þess að ertublómaættin er ein stærsta og útbreiddasta jurtaættin sem til er. Í náttúrunni finnum við belgjurtir allt frá hitabeltinu til heimskautasvæðanna.

Eina tegund belgjurta þekkjum við flest vel og það er bláa Alaskalúpínan. Þar sem henni var fyrst sáð hér á landi á mela á Heiðmerkursvæðinu fyrir nokkrum áratugun síðan er hún alveg horfin í dag, en hefur myndað meira en 20 cm þykkt lag af frjósamri gróðurmold, sem hún skilur eftir fyrir annan gróður sem fylgir í kjölfar hennar.

Í Kína og í Andersfjöllunum í S. Ameríku má finna ræktunarlönd sem hafa verið í samfelldri lífrænni/sjálfbærri ræktun í a.m.k. 4000 ár, er það von mín og trú að okkar litlu ræktunarspildur komi til með að eiga sér að minnsta kosti jafn langa lífdaga.

Ljósmynd: Myndina var tekin við afhendingu heiðurslverðlauna SLN á aðalfundinum en Guðfinnur hlaut fyrstu heilðursverðlaun samtakanna fyrir störf sín. Einar Bergmundur tók myndina.

Birt:
June 26, 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðfinnur Jakobsson „Erindi Guðfinns Jakobssonar á aðalfundi Samtaka lífrænna neytenda 2013“, Náttúran.is: June 26, 2013 URL: http://nature.is/d/2013/06/26/erindi-gudfinns-jakobssonar-adalfundi-samtaka-lifr/ [Skoðað:July 15, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: