Hvað eru GRI sjálfbærnisvísar?
Í fjórtándu grein í skýrslu um eflingu græna hagkerfisins sem Alþingi samþykkti samhljóma á síðasta löggjafarþingi kveður á um að „allar stofnanir ráðuneyta og öll fyrirtæki í eigu ríkisins birti ársskýrslur í samræmi við leiðbeiningar Global Reporting Initiative (GRI)“. En hvað er GRI?
Global Reporting Initiative (GRI) er sjálfseignarstofnun og samstarfsvettvangur fyrirtækja og félagasamtaka sem hafa staðlað hvað samfélagsskýrslur fyrirtækja eigi að innihalda. Þetta er í raun ekki eiginlegur staðall heldur eru þetta leiðbeiningar sem eru orðnar almennt viðurkenndar sem bestu viðmið í gerð samfélagsskýrslna. Fyrirtæki eiga annars vegar að gera grein fyrir aðferðafræðinni hvernig unnið er að samfélagsmálum/ sjálfbærni (Efnahags-, umhverfis- og félagslegum málefnum) og hins vegar eru skilgreindir rúmlega 90 frammistöðuvísar sem eru viðeigandi fyrir flest fyrirtæki. Þessum vísum er skipt upp á eftirfarandi máta
- Fjárhagslegir vísar
- Umhverfisvísar
- Vinnumál og mannsæmandi starfsskilyrði
- Mannréttindi
- Félagsmál
- Ábyrg vöruþróun
Þessum vísum er síðan skipt í marga undirkafla.
Til viðbótar eru gerðir viðaukar fyrir ákveðnar atvinnugreinar sem kallast Sector Supplements. Fyrir fjármálastofnanir er til dæmis til eitthvað sem heitir Financial Service Sector Supplement (FSSS).
Það skal skýrt tekið fram að „ekki eru um vottun sem slíka að ræða“ heldur eiga fyrirtæki sjálf að tilgreina hvernig þau uppfylla staðalinn. Það skiptist í A, B eða C. Til að teljast C skýrsla þarf að gera að minnsta kosti grein fyrir 10 frammistöðuvísum, B skýrsla fyrir 20 frammistöðuvísum og A skýrsla fyrir öllum viðeigandi frammistöðuvísum. GRI leggur mikla áherslu á að ekki er um einkunnarkerfi að ræða, A er ekki betra en C (það er hugsanlegt að þetta kerfi verði fellt niður og fyrirtæki tilgreini bara hve marga vísa þau geri grein fyrir). Það er fyrirtækjanna sjálfra að tilgreina hvort um er að ræða A, B eða C skýrslu.
Til viðbótar geta fyrirtækin bætt við plús við bókstafinn, t.d. C+. Það þýðir að fyrirtækið hafi fengið utanaðkomandi aðila, verkfræðistofu, endurskoðendur eða annan til að yfirfara innihald skýrslunnar og sannreyna tölur og innihald.
Þetta kerfi með A,B og C með eða án (+) er mjög umdeilt því að það hefur verið túlkað sem einkunnarkerfi sem það er alls ekki. Þess má geta að skýrsla Landsbankans var t.d. með yfir 40 vísum en Landsbankinn fékk til sín ráðgjafa sem hefur unnið hjá GRI til að yfirfara innihaldið. Landsbankinn hefði getað skrifað B+ en ákváð að halda sig við C því hann vildi ekki gefa meira í skyn en hægt væri að standa við. Það er einnig hugsanlegt að í næstu útgáfu leiðbeininganna verði búið að fella niður þetta A,B, C kerfi.
GRI skýrslur er helsta upplýsingaveita sem fyrirtæki nota til að meta árangur annarra fyrirtækja í samfélagsmálum og það eitt að fyrirtæki gefi þær út er talið jákvætt, því það er merki um að fyrirtækin séu alla vega að vinna að samfélagsmálum og viti hvað samfélagsábyrgð fjalli um.
Sjá nánar um Global Reporting Initiative (GRI).
Sjá samfélagslegar skýrslur Landsbankans fyrir árin 2011 og 2012.
Sjá samfélagslega skýrslu í ársskýrslu ÁTVR 2012.
Grafík: Efst; merki GRI. Neðri; úr ársskýrslu ÁTVR
Birt:
Tilvitnun:
Finnur Sveinsson, Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hvað eru GRI sjálfbærnisvísar?“, Náttúran.is: 30. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2013/06/24/hvad-eru-gri-sjalfbaernisvisar/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 24. júní 2013
breytt: 14. júní 2014