Samkvæmt Almanaki Þjóðvinafélagsins eru sumarsólstöður nákvæmlega kl.05 :04 morguninn 21. júni. Þá er bara að gera sig tilbúin/nn til að fara út í guðsgræna náttúruna og baða sig í dögginni en hún á að vera svo heilnæm, að menn læknist af kláða og 18 öðrum óhreinindum í holdi við að velta sér í henni allsber. Og um leið má óska sér.

Tímasetning sumarsólstaða hnikast örlítið milli ára, eftir því hvernig stendur á hlaupári. Á sólstöðum stefnir ofanvarp snúningsáss jarðar á braut jarðar beint á miðju sólar. Þessi atburður er því á tilteknu augnabliki innan dagsins.

Við sumarsólstöður sest sólin ekki á stöðum norðan við norðurheimskautsbaug. Norðurheimskautsbaugur er á 66°34'N og sker norðurhluta Grímseyjar og er miðaður við rétta stefnu í miðju sólar og er þá ekki tekið tillit til ljósbrots í andrúmsloftinu. Þegar tekið er tillit til ljósbrotsins og þess að sólarupprás og sólarlag eru miðuð við síðustu geisla sólar, þ.e. efri rönd sólarkringlunnar, þá sest sólin ekki um sumarsólstöður við nær alla norðurströnd Íslands, eða á stöðum norðan við 65°50'N.

Halli snúningsáss jarðar er nokkuð stöðugur um 23,44° frá því að vera hornréttur á braut jarðar um sólina. Þessi halli breytist þó með reglulegri sveiflu um 2° á 40.000 ára fresti. Þessi langtímasveifla kemur fram í veðurfarsbreytingum á jörðinni. Nú um stundir veldur þessi sveifla því að norðurheimskautsbaugurinn færist norður á bóginn um 15 m á ári og mun fara norður fyrir Grímsey eftir nokkra áratugi.

Skoða má sólargang á Íslandi á vef Veðurstofunnar.

Sjá nánar um sólstöður og tímasetningar á Wikipedíu.

Ljósmynd: Brönugras á Snæfellsnesi, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
20. júní 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sumarsólstöður verða í nótt kl. 05:04“, Náttúran.is: 20. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2013/06/19/sumarsolstodur-verda-i-nott-kl-0504/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. júní 2013

Skilaboð: