Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna.
Sá er elskar gullið mun ekki réttlættur og sá er eltist við gróða mun villast. Mörgum hefur gullið í ógæfu hrundið, þeir hafa gengið glötun á vit.
Gull er hrösunarhella þeim sem það heillar,
sérhver heimskingi hrasar um hana.

Síraksbók 32.

Græðgi (latína Avarice) er stjórnlaus ást á auði. Illska þessarar syndar er fólgin í því að hún gerir söfnun auðs að markmiði lífsins í sjálfu sér. Hún sér þannig ekki peninga sem leið að öðru (og æðra) markmiði eins og hamingju eða félagslegu jafnvægi. Græðgi er einnig ein af höfuðsyndunum sjö. Græðgin kemur oft fram undir yfirskini verðleika og telur sig vera að undirbúa sig undir framtíðina með fyrirhyggju að leiðarljósi. Þegar menn verða tilbúnir til þess að gera nánast hvað sem er fyrir söfnun auðs er græðgin orðin að dauðasynd.

Kapítalisminn hefur nánast gert græðgina að lífsstíl nútímamannsins. Okkur er sagt að vera neytendur, kaupendur, notendur og þar fram eftir götunum. Okkur er sagt að okkur muni líða betur ef við eignumst meira hér á Jörð. En það sem við tökum til okkar út úr vistkerfum Jarðar með námavinnslu, orkuvinnslu og með öðrum hætti og umbreytum yfir í hagsæld og auð, verður alltaf á kostnað einhvers annars í náttúrunni eða í samfélaginu. Af því að öll veröldin er byggð á hugmynd um jafnvægið, jin og yang, þ.e. orkan varðveitist en breytir einungis um form. Ef við tökum orku frá náttúrunni, hlýtur náttúran að glata einhverju í staðinn. Allt kostar sitt.

Núna virðast gráðugir menn vera komnir aftur til valda á Íslandi. Þeir líta á sjálfa sig sem athafnamenn, fjármálasnillinga og spekúlanta. Með í liði með sér hafa þeir heilan her af bankamönnum, kontóristum verkfræðingum og embættismönnum sem allir eru reiðubúnir til að leggja málefninu lið. Koma á hagkerfinu og hagvextinum af stað með því að auka erlenda fjárfestingu (taka erlend lán), og fara í framkvæmdir við það sem hlýtur að eiga að vera álverið í Helguvík. Engu máli skiptir að álverð á heimsmarkaði fer lækkandi, eyðilegging íslenskrar náttúru fer vaxandi, og orkuverðið skilar engum áþreifanlegum ávinningi til íslensks almennings. Nei á sama hátt og skapa verður peninga peninganna vegna, skal fara í framkvæmdir framkvæmdanna vegna. Dauðasyndin græðgi er risin úr kaldri gröf sinni og gengur aftur í stjórnarráðinu.

Öll náttúra Jarðarinnar er byggð á viðkvæmum efnajafnvægjum sem leitast við að ná fullkomnu jafnvægi, en ná því samt í raun aldrei, heldur eru á stöðugri hreyfingu. Magn súrefnis O2 í andrúmsloftinu er næstum nákvæmlega 21%. Ef það væri aðeins meira þá fengi mannkynið súrefniseitrun og ef það væri aðeins minna fengjum við ekki nægt súrefni við innöndun. Lífríki Jarðarinnar, það sem vistfræðingar kalla lífhvolfið er lifandi örþunn himna sem fínstillir hringrásir efna um Jörðina og gerir það að verkum að mannkynið getur existerað yfirhöfuð og yfirleitt. Án náttúrulegs umhverfis geta samfélög manna ekki lifað nema í mjög takmarkaðan tíma, og hrynja að lokum undan þrýstingi ytri umhverfisþátta, þurrka, vatnsskorts, eyðumerkurmyndunar og loftslagsbreytinga.

Komið hafa fram kenningar um að pýramídarnir í Egyptalandi hafi verið stórir vatnsgeymar og miðpunkturinn í stóru áveitukerfi Forn-Egypta. Ef þessi kenning er rétt, er ljóst að umhverfishamfarir og myndun eyðimerkur úr frjósömum löndum í norðanverðri Afríku hefur eyðilagt menningu Forn-Egypta. Þá verða pýramídarnir viðvörun til núlifandi manna, um að gæta að þeim náttúrulögmálum og takmörkunum sem náttúran og alheimurinn sjálfur setur, því annars muni á endanum fara illa. Lífið á Jörðinni getur hugsanlega lifað án mannkynsins, en mannkynið mun aldrei geta lifað til lengdar án Jarðarinnar.

En hvað kemur þetta Íslandi við? Jú Ísland er í mörgum skilningi land sem hefur þegar orðið mikilli umhverfiseyðileggingu að bráð. Uppblástur og jarðvegseyðing er hér viðvarandi vandamál og landið er viðkvæmt fyrir hvers konar umhverfisspjöllum. Samt hyggjast menn, að því er virðist, í nafni græðginnar og stundarhagsmuna, sem ekki taka nægt tillit til hagsmuna komandi kynslóða, fórna Urriðafossi, Þjórsá, Grændal, Hveragerði (með manni og mús), Gjástykki, Mývatni, Þingvallavatni og svo má lengi halda áfram. Listinn er því miður allt of langur. Ekkert virðist geta stöðvað hrundansinn í kringum gullkálfinn. Menn virðast jafnvel tilbúnir til að fórna Þingvallavatni, sem er þó varavatnsból allra Reykvíkinga og hefur því óneitanlega mjög áþreifanlega, fjárhagslega og efnahagslega þýðingu.

Það virðist vera sem skapa eigi nýja efnahagslega bólu sem kemur vel út á pappírunum, en sem á sér engan raunverulegan tilvistargrundvöll. Af hverju? Jú, af því að ákveðnir hagsmunahópar sem eru sterkir í íslensku samfélagi og ákveðnar fjölskyldur munu vissulega græða á þessu öllu saman. Niðurstaðan er samt sú, að íslenskur almenningur og við öll sem þjóð munum tapa að lokum. Því þeir sem ætla sér að græða peninga peninganna vegna, verða jú að fá gullið einhversstaðar frá, og þegar upp er staðið er það alltaf tekið úr vasa skattgreiðenda. Íslenskur almenningur skal greiða niður orkukostnað til stóriðju, alveg sama hvað. Peningar skulu myndast peninganna vegna, og farið skal í framkvæmdir framkvæmdanna vegna.

Mesta fyrirsjáanlega tap íslensku þjóðarinnar, verði farið í álver í Helguvík, er þó sú eyðilegging sem verða mun á náttúru Íslands. Sú eyðilegging verður ægileg og óafturkræf. Við endurheimtum aldrei það land sem fer undir drullug uppistöðulón, eða það vatn sem mengast og ofauðgast af næringarefnum. Engir vísindamenn eða fræðingar í heiminum geta lagað eða gert við ofauðgað stöðuvatn, svo eitthvað sé nefnt. Dauð vötn eru dauð vötn, þau horfa brostnum augum til stjarnanna, eins og börn sem hafa verið myrt í styrjöldum á milli vitskertra manna.

Við Íslendingar erum í mörgu tilliti saklaus börn þegar umhverfismál eru annars vegar. Fæstir Íslendingar hafa augum litið þá miklu eyðileggingu Jarðarinnar sem til dæmis er að finna í fyrrum lýðveldum Sovétríkjanna, eða á þeim svæðum þar sem regnskógi Amazonsvæðisins hefur verið eytt. Við sem búum hér á þessu fagra landi eigum ennþá möguleika á því að varðveita náttúru þess, lífríki og orkukosti komandi kynslóðum til handa. Við verðum að gera ráð fyrir því að börn okkar og barnabörn vilji einnig nota orku, og veiða fisk í Þingvallavatni. Við höfum engan rétt til að tortíma möguleikum kynslóða framtíðarinnar til að lifa og sjá sér farborða, bara af því að við viljum verða rík í nútímanum. Við skulum því öll nema staðar, líta í kringum okkur í andartak og hugsa: Hvað er markmiðið með þessu Jarðlífi? Dauðir hlutir eða Lifandi Jörð? Á endanum munum við e.t.v. nálgast svarið.

Mynd: Æting eftir P. Bruegel

Birt:
13. júní 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna“, Náttúran.is: 13. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2013/06/13/skurdgod-theirra-eru-silfur-og-gull-handaverk-mann/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. júní 2013

Skilaboð: