Aðalfundur Samtaka lífrænna neytenda var haldinn í Reykjavíkurakademíunni þ. 25. maí sl. en fyrir utan afgreiðslu hefðbundinna aðalfundarstarfa héldu nokkrir lykilaðilar tölu um lífræn málefni. Þeirra á meðal var Skúli Helgason fráfarandi alþingismaður og hvatamaður að Græna Hagkerfinu sem var samþykkt á þingi nú fyrr í ár. Greindi hann frá því að alls verða samtals fjórir milljarðar settir í verkefnið næstu þrjú árin, þar af einn miljarður nú í ár en 30 af 50 tillögum komast til framkvæmda í árið 2013. Meðal áhersluflokka er að auka stuðning við lífræna framleiðslu auk þess sem hvetja á bæði fyrirtæki og stjórnsýslu ríkissjóðs til vistvænni innkaupa og græna hagkvæmni. Nefndi hann Landsspítalann sem einn stærsta vinnustað landsins sem hefur sýnt græna hagkerfinu áhuga til að auka hagkvæmni.

Þá ræddi Guðfinnur Jakobsson, bóndi í Skaftholti, muninn á lífrænni mold með lifandi köfnunarefnum í jarðveginum og dauðum köfnunarefnum sem má finna í kemískum áburði. Ræddi hann reynslu sína af því að hafa náð að gera hróstuga jörð frjóa með því að virkja ysta lag jarðvegarins og varð hann frumkvöðull á sínum tíma og hefur verið með lífrænt vottaðan búskap síðan árið 1994 en hann hafði áður starfað við lífræna ræktun og nám í 8 ár og hefur nú stundað búskap samtals í 41 ár. Hann hlaut heiðursverðlaun sem Samtök lífrænna neytenda veittu í fyrsta sinn á aðalfundinum um síðustu helgi.

Á fundinum töluðu einnig Guðrún Hallgrímsdóttir, fulltrúi frá Vottunarstofunni Tún, og ræddi stöðu lífrænna mála á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum hefur lífræn framleiðsla í landbúnaði á Íslandi staðið í stað síðastliðin ár á meðan að vottun á snyrtivörum og öðrum vörum hefur aukist.

Þá ræddi Kristín Vala Ragnarsdóttir háskólaprófessor ferð sína til landsins Bútan í Himalayafjöllunum sem stefnir á að verða fyrsta 100% lífrænt vottaða þjóðin í heiminum. Hún segir Ísland búa yfir góðum möguleikum að auka lífrænt vottaða starfsemi vegna þeirra auðlinda sem þjóðin býr yfir.

Fundurinn var vel sóttur eða um 55 manns sóttu fundinn. Þá tók Ragnar Unnarsson* formlega við hlutverki fulltrúa samtakanna af Svölu Georgsdóttur.

Hægt er að skrá sig í Samtök lífrænna neytenda á heimasíðu samtakanna.
Hópur Samtaka lífrænna neytenda á Facebook.

Ljósmynd: Ragnar Unnarsson afhendir Guðfinni Jakobssyni, bónda í Skaftholti, fyrstu heiðurslverðlaun Samtaka lífrænna neytenda en skjalið hannaði Guðrún Tryggvadóttir. Einar Bergmundur tók myndina.

*Ragnar er rúmlega þrítugur og hefur verið virkur þátttakandi í samtökunum frá stofnun 2011.
Hann er útskrifaður frá Ferðamálaskólanum sem ferðamarkaðsráðgjafi og hefur í gegnum árin rekið nokkur fyrirtæki.
Hann vinnur nú að heimildarmyndagerð um heilsusamlegan lífstíl.  Myndin ber heitið; Lystin að Lifa, hún verður væntanleg í bíó haustið 2013.

Birt:
29. maí 2013
Tilvitnun:
Ragnar Unnarsson, Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Svala Georgsdóttir „Guðfinnur Jakobsson í Skaftholti fær heiðursverðlaun SLN“, Náttúran.is: 29. maí 2013 URL: http://nature.is/d/2013/05/29/gudfinnur-jakobsson-i-skaftholti-faer-heidursverdl/ [Skoðað:27. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 30. maí 2013

Skilaboð: