Túrbínutrixið í Helguvík
1970 var merkilegt ár í íslenskri virkjana- og náttúruverndarsögu, ár Laxárdeilunnar og greinar Nóbelskáldsins, "Hernaðurinn gegn landinu", sem er enn í fullu gildi.
Stjórn Laxárvirkjunar notaði aðferð sem átti að koma hrikalegri stórvirkjun í gegn; aðferð sem mætti nefna "túrbínutrixið". Hún fólst í því að kaupa svo stórar túrbínur í stækkaða Laxárvirkjun að menn stæðu frammi fyrir gerðum hlut og yrðu að samþykkja öll ósköpin, jafnvel þótt ekki væri búið að fá leyfi eða ganga frá málum við hlutaðeigandi aðila. Annars yrði túrbínufjárfestingin ónýt. Ef andófsmenn tregðuðust við átti að lýsa ábyrgð á hendur þeim af því tjóni sem af þvermóðsku þeirra hlytist.
Sigurður Gizurarson, verjandi andófsmanna, taldi hins vegar að eðlilegra væri að virkjunarmenn tækju sjálfir afleiðingunum af því að hafa tekið áhættu og anað af stað með siðlausum þvingunum án þess að málið væri frágengið. Þannig endaði málið.
Þrátt fyrir þetta hefur "túrbínutrixið" lifað góðu lífi í 43 ár.
Farin skárri leið
Árið 2000 hafði verið stefnt að 120 þúsund tonna álveri í Reyðarfirði og kostað til þess milljörðum króna. Þá var skyndilega sagt að álverið yrði of lítið og þyrfti að verða fjórum sinnum stærra til að bera sig. Í þetta skiptið komust menn upp með þetta stærsta túrbínutrix Íslandssögunnar.
Næst var trixinu beitt á Bakka, gerð viljayfirlýsing um álver þar, og eins og fyrir austan var talað um meðalstórt álver og lengi þrætt fyrir að það yrði að verða risaálver.
Þegar málið var komið nógu langt til að erfitt yrði að snúa til baka, var síðan játað að minnst 350 þúsund tonna álver þyrfti til að það væri arðbært. Orku heils landshluta var þar með haldið í gíslingu Alcoa og aðrir komust ekki að.
Bæði orkumálastjóri og forstjóri Landsvirkjunar lýstu því yfir að með þessu væru orkuseljendur í vonlausri aðstöðu til að semja um viðunandi orkuverð. Að lokum fór svo að hætt var við álverið og farin skárri leið.
Ekkert lært
Nú hefði maður haldið að menn hefðu lært af þessu.
Nei, aldeilis ekki! Í staðinn er í gangi ekki minna "túrbínutrix" vegna risaálvers í Helguvík. Þar ákváðu fjórir aðilar að fara af stað með framkvæmdir sem á endanum munu binda hendur minnst tólf sveitarfélaga vegna nets af virkjanamannvirkjum, sem ná munu frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslu og upp á hálendið.
Í fyrstu var þrætt fyrir að álverið yrði stórt en síðan játaði talsmaður Norðuráls að það yrði að verða minnst 360 þúsund tonna risaálver. Það mun þurfa 625 megavött. Við erum að tala um ígildi Kárahnjúkavirkjunar frá Reykjanesi langt austur eftir landinu.
Samt er látið í veðri vaka í fréttum að lítið þurfi til að álverið rísi, til dæmis talað um að Búðarhálsvirkjun reddi málinu. Hún gefur 95 megavött, 15% af orkuþörf álversins!
Líka er talað um að HS orka geti bjargað, en þar er einnig um að ræða brot af orkuþörfinni.
Bent er á 200 megavatta aukaorku en í sömu frétt kemur síðan auðvitað í ljós að sú orka sé í nauðsynlegt varaafl í kerfinu. Nú er til dæmis orkuskortur á Austurlandi og þegar er farið að endurnýja túrbínur í nýsmíðaðri Kárahnjúkavirkjun vegna slits af völdum aursins úr Hálslóni.
Talað er um Neðri-Þjórsá, sem myndi aðeins útvega helming orkunnar.
Óviss hluti orkunnar á að fást með gufuaflsvirkjunum, sem endast aðeins í nokkra áratugi. Það heitir rányrkja á íslensku.
Orkan er ekki fyrir hendi og þar af leiðandi eru orkuseljendurnir í jafnvel enn verri samningsaðstöðu en var fyrir norðan. Eins og þar á einn stór orkukaupandi að fá að halda virkjunum á suðurhelmingi landsins í gíslingu á meðan orkuseljendurnir eru í vonlausri samningsaðstöðu. Skaplegri orkukaupendur eins og kísilver komast ekki að.
Talað er um að störf í risaálverinu í Helguvík og tengd störf muni leysa atvinnuvandamálin. Þó eru þau aðeins 1% af vinnuafli þjóðarinnar.
Verr settur en ella
Flaggað er því að 4.000 störf skapist við virkjanaframkvæmdirnar og að 2,3% hagvöxtur verði á meðan. En því er sleppt að eftir að virkjanaframkvæmdunum lýkur verða þau sömu 4.000 atvinnulaus, margt þeirra fólk sem hefði betur notað þessi ár til að mennta sig og búa sig betur undir lífið. Og þegar framkvæmdir hætta mun hagvöxturinn væntanlega minnka um 2,3%, ekki satt?
Það var líka flaggað þúsundum starfa við Kárahnjúkavirkjun en 80% þeirra voru útlendingar sem komu og fóru. Það má kalla þessa stefnu "skómigustefnuna"; en hún helgast af því að aðilar vinnumarkaðarins horfa aðeins fram til næstu kjarasamninga og stjórnmálamenn aðeins fram til næstu kosninga.
Blönduvirkjun átti að "bjarga Norðvesturlandi". Eftir að framkvæmdum lauk kom í ljós að landshlutinn var enn verr settur en ella.
Álver við Eyjafjörð átti að "bjarga Eyjafirði og Akureyri". Ekkert álver reis þar, en á hrunárunum 2008-2012 fjölgaði fólki samt á Norðausturlandi á sama tíma og fólki fækkaði á Austurlandi sem álverið á Reyðarfirði átti að "bjarga".
Ætla menn aldrei að læra neitt? Fyrir 43 árum voru þeir sem ætluðu að nota "túrbínutrix" til að ná sínu fram látnir axla sjálfir ábyrgð af því að taka siðlausa áhættu.
Sama ætti að gilda um álver í Helguvík. Hvers vegna ætti frekar að rísa álver þar en á Bakka?
Grafík: af natvest.is, upphaflega frá Framtíðarlandinu.
Birt:
Tilvitnun:
Ómar Ragnarsson „Túrbínutrixið í Helguvík“, Náttúran.is: 23. maí 2013 URL: http://nature.is/d/2013/05/23/turbinutrixid-i-helguvik/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.