Ég, eins og aðrir umhverfissinnar á Íslandi, velta nú vöngum yfir því hvernig næstu fjögur ár eigi eftir að líta út hjá okkur. Verðum við að efna til stórra meðmælagangna fyrir náttúruna með reglulegu millibili og jafnvel krefjast nýrrar ríkisstjórnar, eða verður náttúrunni kannski hlíft og allt verður gúddí. Þetta er alls ekki ljóst af því sem komið er fram í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Íslands en hér skal leitast við að draga fram það helsta sem að komið hefur fram um málið og dragi þá hver sína ályktun af því.

Orðrétt segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins:

Olía og gas
Ríkisstjórnin mun eins og kostur er stuðla að því að nýting hugsanlegra olíu- og gasauðlinda geti hafist sem fyrst, finnist þær í vinnanlegu magni. Í því skyni mun hún ráðast í undirbúningsvinnu vegna samgöngumála, slysavarna og björgunarstarfa, umhverfisverndar, innviða, samstarfs við nágrannalönd og regluverks, ásamt því að stofna sérstakt ríkisolíufélag.

Tilgangur félagsins verður að halda utan um leyfi til olíu- og gasvinnslu og leggja grunn að því að hugsanlegur ávinningur af vinnslunni nýtist samfélaginu öllu og til langs tíma. Með þessum ráðstöfunum má stuðla að aukinni þekkingu á sviði leitar og vinnslu á olíu og gasi hjá íslenskum fyrirtækjum og stjórnkerfinu. Slík þekking er verðmæt, hvort sem verður af vinnslu í íslenskri lögsögu eða ekki.

Umhverfismál
Ríkisstjórnin leggur áherslu á að náttúruvernd og náttúrunýting fari saman. Hrein endurnýjanleg orka, landbúnaður í ómengaðri náttúru og sjálfbær sjávarútvegur fela í sér mikil markaðstækifæri sem geta lagt grunn að auknum útflutningi og sterkri ímynd landsins.

Mikilvægt er að beita hvetjandi aðgerðum í efnahagslífinu til að ýta undir græna starfsemi. Nýta ber vistvæna orkugjafa enn frekar við samgöngur. Hvatt verði til þess að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis. Brýnt er að dregið verði úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda, bæði með því að draga úr beinni losun af mannavöldum og með því að stórauka landgræðslu, skógrækt og aðra eflingu gróðurlenda. Náttúra landsins er ein helsta auðlind þess. Verndargildi á hverjum stað þarf að meta á faglegan hátt með víðtæku samstarfi þar sem stefnan er sett fram í náttúruverndaráætlun og með lögum um náttúruvernd. Almannaréttur til umgengni um landið, annað en ræktarland, þarf að vera ríkur.

Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða verður endurskoðuð á grundvelli niðurstaðna faghópa sérfræðinga sem verkefnisstjórn skipaði.

Fyrstu fréttir hermdu að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti rynnu saman við umhverfisáðuneytið, eða öfugt. Svo sagði einnig í fjölda tilkynninga. Það virðist þó eitthvað óljóst ef marka má eftirfarandi sem fram kom í grein í Fréttablaðinu í dag þar sem m.a. er vitnað í Sigmund Davíð:

Sigmundur undirstrikar að umhverfismál muni ekki fara undir hið nýja ráðuneyti, (þar á hann við atvinnuvegaráðuneyti) þótt sami ráðherra sinni þeim málaflokkum samhliða sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.

"Ástæðan fyrir því að sami ráðherrann fer með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið er að við erum að fara að endurskoða þessa verkaskiptingu og það er ekki ný hugsun," segir hann. "Menn hafa séð möguleika í samþættingu umhverfis- og landbúnaðarmála. Þá leggja menn áherslu á umhverfisvænan landbúnað, ræktun lands, skógrækt og fleira. Hitt sem þarf að skoða sérstaklega eru auðlindamálin, sem voru færð yfir í umhverfisráðuneytið þannig að það þarf að skoða hvernig á að vista þann málaflokk."

Hvað sem verður má nýrri ríkisstjórn vera ljóst að umhverfissinnar á Íslandi munu aldrei samþykkja yfirgang og offors gegn náttúru Íslands og setji ráðuneyti umhverfismála niður við nýja tilhögun er víst að uppreisn verði gerð af þeim tugþúsunda á tugþúsunda Íslendinga ofan sem láta sér náttúruna og umhverfið svo mikið varða sem raun síðustu ára ber vitni. Við munum halda áfram að vera á verðinum og gefum ekkert eftir.

Grafík: Úttekt úr Fréttablaðinu í dag.

Birt:
23. maí 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Umhverfismál í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar“, Náttúran.is: 23. maí 2013 URL: http://nature.is/d/2013/05/23/umhverfismal-i-stjornarsattmala-nyrrar-rikisstjorn/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: