Fjölskyldan á göngu - góð ráð og hugmyndir
 Góðum degi á öllum árstímum er varla hægt að verja betur en með fjölskyldunni úti í náttúrunni.
Góðum degi á öllum árstímum er varla hægt að verja betur en með fjölskyldunni úti í náttúrunni.
Allt í kringum okkur eru óteljandi möguleikar til miserfiðra gönguferða sem allir ættu að ráða við.
Við  sem erum með börn teljum okkur oft vera bundin af þeim þegar kemur að  skemmtilegri útivist. Auðvitað eigum við ekki að nota þau sem afsökun  fyrir sporleti okkar, heldur hvetja þau til að koma með okkur  og kenna  þeim að fara út og njóta náttúrunnar á þeirra forsendum.
Við verðum því að velja gönguleiðir sem henta þeim og ef rétt er af stað farið, er líklegt að þau verði áhugasamari með að fara með okkur lengri ferðir síðar og þannig ræktum við áhuga þeirra fyrir heilnæmri útivist.
Munum  eftir því að hafa fyrstu ferðirnar með smáfólkinu ekki of erfiðar. Létt  ganga fyrir litla fætur í byrjun sem aðeins skilur eftir sig góðar  minningar er líklegt upphaf að vaxandi áhuga á gönguferðum og veru úti í  náttúrunni sem endast mun ævilangt. Með nánum og jákvæðum kynnum við  landið, ölum við upp fólk sem í framtíðinni mun bera virðingu fyrir  umhverfinu og gildi þess að vernda náttúruna. Síðan smá lengjum við  ferðirnar eða jafnvel förum styttri göngu en seinast og setjum upp  skemmtilega og helst nýja leiki þegar það á við. Við getum sett upp  leiki þar sem þarf að finna visst margar plöntutegundir og jafnvel geta  smádýrin heillað. Hver er fyrstur til að finna kónguló án ótta?  Möguleikarnir til leikja eru óendnalegir á meðan ímyndunaraflið og  gleðin eru fararstjórar okkar. Kennum þeim líka að ganga vel um og af  nærgætni við umhverfið. Blóm sem slitið er upp, verður ekki öðrum til  yndisauka. Allar ferðir eiga að vera skemmtun og ævintýri sem ræða má  saman um eftir að heim er komið.
Að ganga um og kenna börnunum að  þekkja umhverfið eru stund sem allir njóta og við fullorðna fólkið  lærum sjálf svo ótal margt í leiðinni. Gönguferðir á stöðum þar sem  umhverfið er fjölbreytilegt eru nefnilega endalaus uppspretta nýrrar  þekkingar.
Ljósmynd: Daníel Tryggvi finnur fjaðrir í gönguferð Stokkseyrarfjöru, Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Tryggvason „Fjölskyldan á göngu - góð ráð og hugmyndir“, Náttúran.is: 18. maí 2013 URL: http://nature.is/d/2013/05/18/fjolskyldan-gongu-god-rad-og-hugmyndir/ [Skoðað:31. október 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
 
		

 
							 
							 
							 
							 
							 
							