Eftirfarandi grein birtist í Akureyrivikurblad.is þ. 14. maí sl.:

„Við erum nú ekkert örvæntingarfull í atvinnumálum hér í Mývatnssveitinni og þeir sem tóku til máls á fundinum sögðust ekki vera tilbúnir til að taka áhættuna á að virkjanaframkvæmdir hefðu áhrif á lífríki Mývatns,“ segir Ólafur Þröstur Stefánsson, íbúi í Mývatnssveit, sem sat fund sem Landsvirkjun hélt í gær til kynningar á fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum við Bjarnarflag í Mývatnssveit. Einnig settust íbúar saman á fundi í gærkvöldi þar sem þeir ræddu málin.

„Þetta voru mjög góðir fundir og mikið af upplýsingum sem kom fram bæði frá Árna Einarssyni frá Náttúrurannsóknarstöðinni við Mývatn og Landsvirkjun. Það var mikið spurt og þeir sem tóku til máls hafa eðlilega áhyggjur af lífríkinu og framtíðinni og því hvernig staðið verði að þessari uppbyggingu allri. Þetta voru stutt erindi og mikið vísað í gögn sem menn þurfa að kynna sér og melta til að umræðan sé málefnaleg og byggð á rökum,“ segir Ólafur.

Vilja ekki leggja náttúruna að veði til að skapa störf á Húsavík
„Við erum á fullu við að vinna að atvinnuuppbyggingu í sveitinni og mikið hefur gerst í þeim málum. Það hafa orðið til mörg störf í ferðaþjónustunni og auk þess eru ýmis verkefni í vinnslu og mikil gerjun í gangi. Mikið af ungu fólki hefur verið að flytja aftur í sveitina með fullt af góðum hugmyndum og ég held að við þurfum ekki að leggja náttúruna að veði með því að virkja í Bjarnarflagi,“ segir Ólafur og bætir því við að erfitt hafi verið að fá Landsvirkjun til að svara spurningum um hversu mörg störf skapist í sveitinni vegna virkjunarinnar. „Það kom mjög á óvart að þeir hjá Landsvirkjun gátu ekki svarað því en voru búnir að reikna út hversu mörg störf sköpuðust á Húsavík sem og afleidd störf. Með fullri virðingu fyrir Húsvíkingum þá er ég ekki tilbúinn til þess að leggja náttúruna hér að veði fyrir störf utan svæðisins. Ég held að Húsvíkingar yrðu nú ekki hrifnir ef við færum að veiða hvali í Skjálfandaflóa til að byggja upp atvinnu hér, svo ég taki nú dæmið og snúi því við“.

Stórkostlegir hagsmunir fyrir heimamenn
„Menn hér hafa miklar áhyggjur af því hverjar afleiðingarnar yrðu og þykir mikilvægt að gæta ýtrustu varúðar. Þeir hjá Landsvirkjun lögðu fram skýrslur og fleira þar sem kom fram að áhættan sé engin en þeir eru auðvitað að selja okkur þessa viðskiptaáætlun og og eru tilbúnir til að taka áhættuna en þetta eru stórkostlegir hagsmunir fyrir heimamenn, það er ekki bara vatnið sjálft og lífríkið í því heldur allt Laxársvæðið, af því skapast nú gríðarlegar tekjur. Þrátt fyrir allt þá getum við ekki séð algjörlega fyrir hvað gerist ef við erum að fikta í náttúrunni og skaðinn væri gríðarlegur ef þetta hryndi allt saman, segir Ólafur. Á fundinum var spurt hvers vegna ekki væri vilji til að setja virkjunina í nýtt umhverfismat og voru svör Landsvirkjunar á þá leið að samkvæmt lögum þá þyrfti það ekki og auk þess hefði stofnunin aukið alla umhverfisvöktun.

„Það sem brennur mest á Mývetningum er hvernig við náum tökum á ferðamannaflæðinu og stýrum því svo það verði ekki til tjóns. Það er mun stærra mál og brýnna heldur en að fara að drífa þessa virkjun af stað,“ segir Ólafur að lokum.

Ljósmynd: Frá fundinum af Akureyrivikublad.is.

Birt:
May 16, 2013
Tilvitnun:
Akureyrivikurblad.is „Mývetningar vilja ekki leggja náttúruna að veði“, Náttúran.is: May 16, 2013 URL: http://nature.is/d/2013/05/16/myvetningar-vilja-ekki-leggja-natturuna-ad-vedi/ [Skoðað:June 14, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: