Blámi og tærleiki Þingvallavatns í hættu!

Nauðsyn nýrrar sýnar við Þingvallavatn!
Þessi var fyrirsögn bréfs míns til aðalfundar Náttúruverndarsamtaka Suðurlands í apríl 2008. Þar varaði ég við þeirri stefnu að gera Þingvallavatnssvæðið að þjóðbraut milli uppsveita Árnessýslu og Reykjavíkur. Meginefnið var þó nauðsyn þess að skoða Þingvallavatn allt, verndun þess og gildi fyrir almenning. Akstursleiðin frá Úlfljótsvatni til Heiðarbæjar er mjög fögur en hluta þeirrar leiðar á eftir að leggja bundnu slitlagi. Við góða útsýnisstaði á þessari leið þurfa að vera bílastæði og hámarkshraði aðeins 50-60 km/klst. Einnig þarf að auðvelda fólki aðkomu að bökkum Þingvallavatns. Ef horft er til framtíðar, um aðgengi almennings og ferðafólks að Þingvallavatni, væri góður göngu- og reiðhjólastígur umhverfis vatnið líklegur til vinsælda. Það verkefni kallar á samvinnu ríkis við sveitarfélög og landeigendur á svæðinu. Öllum má nú vera ljós nauðsyn þess að dreifa hinum vaxandi fjölda erlendra ferðamanna sem víðast. Þá verður jafnframt að búa þannig um hnúta að sem minnstu tjóni valdi á umhverfinu.

Náttúrurannsóknarstöð Þingvallavatns?
Við lok Laxárdeilunnar um 1976 varð til Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn sem er ríkisstofnun á fjárlögum. Það hýtur að teljast eðlilegt að hliðstæð stofnun stjórni rannsóknum á Þingvallavatni og umhverfi þess. Tæplega sýnist eðlilegt að jafn hagsmunatengdar stofnanir eins og Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun séu frumkvöðlar rannsóknarverkefna þar. Jafnvel þótt þær vinni samkvæmt góðum verklagsreglum eru minnstu grunsemdir um óeðlileg hagsmunatengsl skaðleg.

Árnesingar góðir og íbúar í nágrannabyggðum!
Er Þingvallavatn ef til vill Mývatni svo miklu ómerkilegra að ekki sé ástæða til að kosta þessu til? Kveðja, Björn Pálsson.

Ljósmyndir: Teknar 30. apríl 2013. a) Horft í suður til Svínaness frá Heiðarbæ. Þar á milli og einnig inn með Hestvíkinni, sunnar, er bílvegurinn felldur snyrtilega að brattri hlíðinni. b) Steingrímsstöð er fyrir miðju og Efra-Fall féll til Úlfljótsvatns lengst t.h. á miðri mynd. Árin 1957-1960 voru náttúruleg tengsl Úlfljóts- og Þingallavatns rofin og uppeldistöðvar bitmýs í Efra-Falli eyðilagðar með eitrun þess og þurrkun. Náttúruleg fæðukeðja lífríkis Þingvallavatns og Sogs varð þá veikari. Björn Pálsson.

Birt:
13. maí 2013
Höfundur:
Björn Pálsson
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Björn Pálsson „VII. Þingvellir – vatn og þjóðgarður “, Náttúran.is: 13. maí 2013 URL: http://nature.is/d/2013/05/12/vii-thingvellir-vatn-og-thjodgardur/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. maí 2013
breytt: 17. maí 2013

Skilaboð: