Bangladess, föt og siðferði
Nú hafa á annað þúsund manns fundist látnir í rústum fataverksmiðjunnar sem hrundi í Dakka í Bangladess síðasta vetrardag. Þessi atburður hefur vakið mikla umræðu um aðstæður í verksmiðjum í Suðaustur-Asíu, þar sem fjöldi verkafólks framleiðir föt og annan varning fyrir Vesturlandabúa við afar slæm skilyrði. Ýmsar spurningar hafa komið upp í þessari umræðu, svo sem:
Getur verið að fötin mín hafi verið framleidd þarna?
Skyldu vera til fleiri svona verksmiðjur sem gætu bara hrunið einn daginn?
Hvernig gat þetta gerst?
Getur þetta gerst aftur?
Fötin mín!?
Lítum á þessar spurningar hverja fyrir sig. Ég veit til dæmis, fyrir það fyrsta, ekkert um það hvort fötin mín hafi verið framleidd þarna, já nema náttúrulega ullarvettlingarnir sem mamma prjónaði. Á þessari fáfræði minni eru aðallega tvær skýringar. Annars vegar virðast vestrænar fataverslanakeðjur ekkert áfjáðar í að upplýsa viðskiptavini sína um ævi og uppruna vörunnar sem þau selja, að minnsta kosti ef marka má tregðu þeirra til að upplýsa um viðskipti sín við þessa tilteknu verksmiðju. Hin skýringin á fáfræði minni – og jafnframt líklega sú mikilvægari – er einfaldlega sú að ég hef ekki spurt. Ég og aðrir velklæddir neytendur á Vesturlöndum kaupa oftar en ekki ódýrustu vöruna án þess að skeyta neitt um uppruna hennar. Þess vegna getum við heldur ekki búist við að fataverslanakeðjurnar vilji óðar og uppvægar selja okkur eitthvað annað. Þegar allt kemur til alls erum það við sem ráðum! Ef við viljum ekki kaupa einhverja vöru, þá er einfaldlega ekki hægt að selja hana. Ekkert fyrirtæki er sterkara en viðskiptavinir þess!
Einstakt dæmi?
Þá er það næsta spurning – um það hvort hugsanlega séu til fleiri svona verksmiðjur sem gætu bara hrunið einn daginn. Ég veit svo sem ekkert um það heldur, því að ég hef ekki spurt. En ef ég reyni að beita rökhugsun í svolitla stund, þá hlýt ég að komast að þeirri niðurstöðu að það hafi verið tilviljun að það var einmitt þessi verksmiðja sem hrundi. Auðvitað hljóta að vera til margar svona verksmiðjur. Og málið snýst ekki bara um það hvort þær hrynji eða hrynji ekki. Á síðustu árum hafa margoft heyrst fréttir að slæmum aðbúnaði verkafólks, svo sem af ungum börnum sem eru tekin út af heimilum sínum og látin búa í einhvers konar gámum á verksmiðjulóðum og vinna erfiðisvinnu við bág skilyrði og smánarlaun frá morgni til kvölds, allt til þess að við getum keypt föt eða aðrar vörur á sem lægstu verði.
Hvernig gat þetta gerst?
Þriðja spurningin sem ég varpaði fram í upphafi var sú hvernig þetta gat gerst. Þessari spurningu væri hægt að svara í löngu máli – um lélegar byggingarreglugerðir, ónýtt byggingar- og heilbrigðiseftirlit, glæpsamlega stjórnendur fyrirtækja, spillingu í stjórnsýslu – og ég veit ekki hvað og hvað, eða eins og Megas segir: „Ég veit að við öllum þessum spurningum er til eitt og annað loðið svar“. Á bak við öll þessi loðnu svör er sá óþægilegi sannleikur að við leyfðum þessu að gerast, vegna þess að við spurðum ekki neins. Við sveifluðum bara VISA-kortinu og glöddumst yfir því að stuttermabolurinn, skórnir eða leikfangið skyldi ekki kosta meira en þetta, eins og þjóðfélagið er orðið, allt svo dýrt og maður skuldugur upp fyrir haus.
Getur þetta gerst aftur?
Fjórða spurningin var hvort þetta gæti endurtekið sig. Hér þarf engin loðin svör. Svarið er bara „… já“. Tölfræðilegar líkur á því að svona stórt hús hrynji á næstu dögum, vikum eða mánuðum með svona skelfilegum afleiðingum í mannslífum talið eru að vísu afskaplega litlar. En að óbreyttu heldur verkafólk í Asíu, eða hvar sem það er statt, áfram að þjást til að við getum fengið ódýran varning.
En fólkið þarf að hafa EINHVERJA vinnu!
Þegar þessi mál eru til umræðu kemur oftar en ekki upp ein spurning til viðbótar, nefnilega spurningin um það hvort það sé samt ekki samt skárra fyrir þetta fólk að hafa alla vega einhverja vinnu þótt launin séu lág, en að vera kannski bara atvinnulaust. Þessari spurningu er svo sem hægt að svara á ýmsa vegu, jafnvel með jái ef maður horfir nógu þröngt á málið og skoðar nógu stutt tímabil í einu. En valkostirnir eru ekki bara þessir tveir, þ.e.a.s. þrælabúðir eða atvinnuleysi. Þetta minnir mig á frétt frá árinu 2004 – um börn sem unnu frá morgni til kvölds í verksmiðju í Pakistan við að framleiða fótbolta fyrir Vesturlandabúa. Stór kaupandi í Svíþjóð ákvað að gera þá kröfu að umræddir fótboltar væru réttlætismerktir eða siðgæðisvottaðir, eða fengju með öðrum orðum það sem kallað er fairtradevottun á erlendum málum. Þetta kallaði á algjöra uppstokkun í virðiskeðjunni. Verð til vestrænna fótboltasparkara hækkaði örlítið, milliliðum fækkaði og verksmiðjan fékk meira í sinn hlut gegn því að bæta kjör og aðbúnað verkafólks og samþykkja að tiltekinn hluti af peningunum færi til samfélagslegra verkefna í heimabyggðinni. Þar með gátu foreldrarnir séð fyrir fjölskyldunum sínum og börnin gátu hætt að vinna í verksmiðjunni og farið í skóla af því að þau þurftu ekki lengur að taka þátt í daglegri tekjuöflun fyrir heimilið.
Niðurstaðan
Hver er þá niðurstaðan? Jú, hún er sú að við ráðum þessu. Og þegar ég tala um okkur á ég við neytendur á Vesturlöndum. Við eigum að spyrja spurninga og gera kröfur. Krafan um fairtradevottun er eitt af tækjunum sem við höfum til þess. Fataverslanakeðjur geta ekki selt eina einustu flík sem neytendur vilja ekki kaupa! Við eigum ekki að sætta okkur við að velferð okkar sé byggð á eymd annarra. Hættum að halda að við getum ekki haft áhrif. Verum minnug þess að mörg lítil verk sem margt lítið fólk vinnur á mörgum litlum stöðum, geta breytt heiminum!
(Þessi pistill Stefáns Gíslasonar er nær samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 miðvikudaginn 8. maí 2013).
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Bangladess, föt og siðferði“, Náttúran.is: 12. maí 2013 URL: http://nature.is/d/2013/05/12/bangladess-fot-og-sidferdi/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.