V. Þingvellir – vatn og þjóðgarður
Blámi og tærleiki Þingvallavatns í hættu!
Gróður í þjóðgarði – erlend yfirtaka: Frá bernsku minni í Suður-Þingeyjarsýslu man ég birkivaxin hraunin í Aðaldal, Mývatnssveit og Laxárdal og hið fjölbreytta gróðurfar. Ímynd glæsilegra sígrænna barrtrjáa var þá nærð af jólakortum með fagurvöxnum trjám við hlið fjallakofa í snævi þöktu umhverfi. Þessi æskumynd varð fyrir nokkru áfalli þegar ég, þá á þrítugsaldri, gekk um hávaxinn barrskóg í Svíþjóð. Dökkur gróðurvana skógarbotninn vakti litla aðdáun. Um hátt sýrustig þessa jarðvegar fræddist ég síðar.
Í þjóðgarðinum höfum við lent á villigötum hinna sígrænu skóga. Þar hefur barrtrjám verið plantað og undirstaðan jafnvel sléttuð. Af Hakinu sjást þessir reitir víða og brjóta gróflega hið náttúrulega umhverfi líkt og skeggbrúskar á vöngum fagurrar konu. Ekki sést litríkur blómgróður í skógarbotninum eins og þar sem birkið vex. Sá munur sést greinilega á meðfylgjandi myndum. Nú hefur plöntun barrviðar verið bönnuð í rúm 40 ár og svæðin eru grisjuð. Sjálfsáning barrviðar er hins vegar mikil og við þeim vanda verður að bregðast.
Augljóslega þarf að fjarlæga þessa trjáreiti og flytja burt þannig að leifarnar valdi sem minnstri niturmengun. Við það verk þarf að nota góða verkunnáttu og tækni sem sjálfsagt mun kosta mikið fé. Smá tré og græðlinga má taka með handverkfærum og oft hef ég hugleitt hvor sumarbundin unglingavinna sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu gæti ekki komið þar til sögu. Vel skipulagt verk og hæfir leiðbeinendur með þremur til fimm unglingum í hverjum hópi gæti skilað góðu verki. Á sama hátt mætti laga stígakerfi þjóðgarðsins. Þá myndast jafnframt sterk tengsl unglinga við þjóðgarðinn og þekking þeirra á náttúru Íslands eykst þeim og þjóðinni til farsældar í nútíð og framtíð.
Í næstu grein verða vatns- og hitaorkuver við Þingvallavatn skoðuð. Björn P. 29.04. 2013.
Ljósmyndir: Úr bókinni Þingvallavatn, útg. 2002 bls. 262-263. Báðar teknar á sama tíma, sú t.v. sýnir birkikjarr með blómgróðri en hin undirstöðu barrskógar skammt frá.
Birt:
Tilvitnun:
Björn Pálsson „V. Þingvellir – vatn og þjóðgarður “, Náttúran.is: 5. maí 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/29/v-thingvellir-vatn-og-thjodgardur/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 29. apríl 2013
breytt: 12. maí 2013