Á tíunda áratug síðustu aldar lagði ríkisstjórn Íslands áherslu á að laða til landsins mengandi stóriðju með boðum um ódýra raforku. Gefinn var út auglýsingabæklingur í þessum tilgangi og bar hann yfirskriftina „Lowest energy prices!! In Europe for new contracts.“ Þar var orka fallvatna sett á útsölu og umhverfisvernd gerð léttvæg sbr. setninguna „operating licence is usually granted with a minimum of environmental red tape.“ Uppbygging heilbrigðis- og tryggingakerfisins var kynnt sem kjarabót fyrir iðjuverin þar sem útgjöld þeirra yrðu óveruleg þó eitthvað brygði út af með heilsu starfsmanna. Þessi bæklingur sem finnst ekki lengur á pappírsformi, gengur manna á milli á vefnum. Hann mun hafa skilað nokkrum „árangri“ varðandi stóriðjuáformin en einkum þó ómældri skömm fyrir höfunda hans.

Mengandi stóriðja hefur nú búið um sig á Íslandi. Hún tekur til sín um 3⁄4 af raforku landsins og skilar langtum minni tekjum í þjóðarbúið en vænst var. Mengun af völdum hennar er veruleg og hættuleg efni á ferð. Þann fórnarkostnað sem Íslendingar hafa greitt í formi raskana og eyðileggingar á umhverfinu þekkja allir en Lagarfljót og Kárahnjúkar eru nærtæk dæmi.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir eru stjórnarflokkar tíunda áratugarins enn við sama heygarðshornið gagnvart náttúruauðlindum og umhverfi eins og heyra má af umræðum líðandi stundar í undirbúningi kosninga til Alþingis. Fólk sem ann landi sínu og skilur samhengi hlutanna sneiðir hjá frambjóðendum með slíkan málstað.

Veruleiki stóriðjudraumsins
Á Grundartanga við Hvalfjörð eru starfrækt afkastamikil mengandi iðjuver á landi í eigu sameignarfélagsins Faxaflóahafna en það er að stærstum hluta í eigu Reykjavíkurborgar. Stærstu iðjuverin eru Elkem Ísland í eigu kínverska fyrirtækisins Bluestar og Norðurál í eigu bandaríka fyrirtækisins Century Aluminium.

Fáir leikmenn skilja hvers vegna mengandi iðnaði var valinn staður í blómlegu landbúnaðarhéraði og fáa grunaði hvað leyndist í pokahorninu þegar fyrsta iðjuverið var reist á Grundartanga árið 1979. Margir hafa fengið störf í tengslum við stóriðjuna og því er gjarnan slegið fram til mótvægis gagnrýnisröddum vegna mengunar og umhverfisspjalla. Það er ekki rökréttur málflutningur.

Faxaflóahafnir sf. hafa lagt mikla áherslu á að nýta ríflega 600 hektara landsvæði sitt á Grundartanga til hafnsækinnar starfsemi af ýmsum toga enda er um verulega miklar auðlindir að ræða þar: Góða hafnaraðstöðu og hæfilega fjarlægð frá Reykjavík. Líta má á athafnir fyrirtækisins sem einskonar „nýlendustefnu“ Reykjavíkurborgar gagnvart nágrannasveitarfélögum sínum vegna verkaskiptingar hafnanna. En stefnan er nokkuð vel dulin og vafin inn í bros og kurteisishjal.

Ekki sér fyrir endann á athafnasemi Faxaflóahafna sem veifa hvítum fána við og við og benda á Katanestjörn sem dæmi um endurheimt votlendis á þeirra vegum. Þannig leitast sameignarfélagið við að draga athyglina frá neikvæðum afleiðingum mengandi starfsemi á

Grundartanga. Það er lítill og lélegur plástur á sárin. Hvers vegna er ekki frekar lögð áhersla á ítarlegar umhverfisrannsóknir utan þynningarsvæða iðjuveranna og eflingu grunnrannsókna til að fá marktæk viðmiðunargildi? Hvers vegna fást ekki svör við spurningum um tilurð þynningarsvæða fyrir flúor og brennistein og bætur til eigenda bújarða sem lentu innan markanna? Hvers vegna er ekki löngu komið upp viðvörunarkerfi fyrir íbúa svæðisins ef mengunarslys verða? Hvers vegna geta íbúar ekki lesið í tölvunni sinni hvernig loftgæðum er háttað hverju sinni? Hvers vegna er flúor, sem er eitur, ekki mælt á vöktunarstöðvum yfir vetrartímann? Mörgum fleiri spurningum er ósvarað og það er forsvarsmönnum Faxaflóahafna kunnugt um.

Á sama tíma og einstefnukennd uppbygging með áherslu á stóriðju hefur átt sér stað á Grundartanga hafa mjög fáir sveitarstjórnarmenn nefnt hugtakið byggðaþróun eða lýst áhyggjum yfir misvægi í þróun byggðar við Hvalfjörð. Grundartangi hefur orðið líkt og sjálfstætt ríki innan sveitarfélagsins, algjörlega á eigin forsendum. Fjármagnið ræður för og margir vilja fá sneið af kökunni. Ef til vil eru færri tilbúnir að axla ábyrgð á afleiðingum af þeim „kökubakstri“.
Að axla ábyrgð felst m.a. í að horfast í augu við þá staðreynd að iðjuverin sem eru leiguliðar Faxaflóahafna, geta haft aðrar atvinnugreinar í firðinum í hendi sér eins og nú er í pottinn búið. Íbúar og atvinnurekendur við Hvalfjörð mega eiga von á ómældu útsleppi mengandi efna og jafnvel mengunarslysum líkt og dæmi er um. Að axla ábyrgð er að þora að viðurkenna mengunina og þora að laga þessa stöðu.

Varðandi bein áhrif iðjuveranna á landbúnað má nefna að árið 2012 mældist flúor yfir viðmiðunarmörkum vegna tannskemmda í beinsýnum fullorðins sauðfjár frá átta bæjum af þrettán við fjörðinn. Há gildi flúors hafa mælst í beinsýnum hrossa. Í mjúkvefjum hrossa hafa einnig mælst há gildi flúors en einstakingar hafa þurft að bera kostnað af slíkum mælingum vegna tregðu eftirlitsstofnana að sinna þessum þætti vöktunar.

Íslenskir bændur eiga því ekki að venjast að þurfa að berjast frá degi til dags við að halda gæðum og verðgildi jarða sinna óskertum. Það getur vafist fyrir mönnum að leggja út á svo grýtta braut en hjá því verður varla komist lengur að horfast í augu við hina hættulega mengun frá iðjuverunum og ásækna krumlu höfuðborgarinnar.

Ferðaþjónustuaðilar í firðinum hafa þegar lent í vandræðum vegna ýmissa fylgikvilla frá Grundartanga. Efnamengunin hefur verið nefnd. Sjónmengun er af verksmiðjusvæðinu frá mörgum fallegum stöðum við fjörðinn. Ljósmengun truflar ferðamenn sem vilja horfa á aurora borealis, hin víðfrægu norðurljós, að kvöldlagi og hávaðamengun truflar þá friðsæld sveitarinnar sem heimamenn og ferðamenn sækjast eftir.

Svo er ekki hægt að líta framhjá áhrifum iðjuveranna á samfélögin við Hvalfjörð þar sem ótti við mengun og afleiðingar hennar er orðinn fastur liður í daglegu lífi margra íbúa og tortryggni í garð iðjuveranna, Faxaflóahafna og sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar hefur búið um sig. Það er réttnefnd samfélagsmengun.

Efnamengun og stjórnsýsla
Alvarlegasti fylgifiskur stóriðjunnar er efnamengunin. Hún hefur enn ekki verið rannsökuð til hlítar í umhverfi Grundartanga en gerðar eru mælingar samkvæmt fyrirmælum í starfsleyfum iðjuveranna og umhverfisvöktunaráætlun. Stóriðjufyrirtækin á Íslandi gera sjálf tillögur um umhverfisvöktun vegna eigin mengunar, sjá um framkvæmd hennar og hafa mikið um það að segja hvað er mælt, hvenær, hversu víða og hversu oft. Hvaða önnur fyrirtæki njóta slíkra „hlunninda“ á Íslandi?

Stóriðjufyrirtækin borga sjálf þeim stofnunum sem annast mælingar og athuganir og greiða einnig sjálf eftirlitsgjald til Umhverfisstofnunar. Spyrja má hvort hlutleysi eftirlitsstofnunarinnar sé tryggt þegar um slík bein fjárhagsleg tengsl er að ræða. Iðjuverin standa sjálf fyrir árlegum kynningarfundum vegna niðurstaðna úr umhverfisvöktun. Til að lýsa þessum fundum þarf annan vettvang, en undirritaðri þykir fyrirbærið „ímyndarsköpun“ fá nýjar víddir á þessum fundum.

Þegar starfsleyfi og umhverfisvöktunaráætlun iðjuveranna á Grundartanga eru skoðuð má auðveldlega sjá að losunarheimildir mengandi efna eru alltof rúmar og illa rökstuddar og að hægt er að gera mun betur í mengunarvörnum. Norðurál á Grundartanga má til dæmis sleppa mun meira af flúori út í andrúmsloftið heldur en álver Alcoa í Reyðarfirði. Samkvæmt ársfjórðungsskýrslum lokar Norðurál reykhreinsivirkjum við og við en það gengur í berhögg við starfsleyfið sem kveður á um að mengunarvarnabúnaður skuli ávallt vera í notkun. Bilun á hreinsibúnaði varð í Norðuráli í ágúst 2006 með þeim afleiðingum að flúor streymdi út í andrúmsloftið talsvert á annan sólarhring úr einu reykhreinsivirki, án þess að íbúum í nágrenninu væri gert viðvart um það. Hvorki verður séð í vöktunarskýrslu ársins 2006 né ársins 2007 að afleiðingar óhappsins hafi verið rannsakaðar sérstaklega. Til dæmis voru engin heysýni tekin til flúormælinga af nærliggjandi bújörðum sumarið 2007 og sumarið 2006 voru heysýni tekin af túnum fyrir mengunarslysið. Með slíku eftirliti rata réttar upplýsingar ekki á blað.

Norðuráli ber samkvæmt starfsleyfi að hafa umhverfisstjórnunarkerfi. Nú fyrst árið 2013, fimmtán árum eftir að iðjuverið hóf starfsemi stendur til að taka staðlað umhverfisstjórnunarkerfi í notkun. Á hvaða róli er eftirlitsstofnunin UST? Svarið er að hluta til að finna á vef stofnunarinnar þar sem farið er lofsamlegum og gagnrýnislausum orðum um álverin og búnað þeirra.

Söfnun upplýsinga um mikilvæga þætti í náttúru og lífríki umhverfis iðjuverin hefur ekki hlotið náð fyrir augum þeirra sjálfra og því er þeirri upplýsingasöfnun ekki sinnt. Það hefur t.d. ekki fengist samþykkt að flúor sé mælt skipulega í beinum langlífra grasbíta í grennd við iðjuverin en slíkar mælingar myndu gefa upplýsingar um langtíma uppsöfnun flúors í búfénaði og áhrif hennar.

Sérfræðingar í opinberri þjónustu hafa skautað á mjög hálum ís varðandi ákvarðanir um þolmörk íslenskra húsdýra fyrir mengandi efnum. Sem dæmi má taka að notuð er tuttugu ára gömul rannsókn á norskum dádýrum sem viðmið um þolmörk íslensks sauðfjár og hrossa fyrir flúori. Af einhverjum ástæðum eru húsdýrin, lífsbjörg þjóðarinnar um aldir, ekki látin njóta vafans.

Íslenskir stjórnmálamenn og opinber stjórnsýsla virðast því miður ekki hafa burði til að setja erlendum stórfyrirtækjum þær skorður sem nauðsynlegar eru til að vernda hagsmuni landsmanna, hvort sem litið er til skattlagningar arðs af fyrirtækjunum eða umgengni þeirra um íslenska náttúru og lífríki.

Að hugsa heildrænt og til enda
Nú þegar gætir ruðningsáhrifa frá iðjuverunum í Hvalfirði og verði ekki gripið til þess að setja þeim strangari mörk um losun mengandi efna munu íbúar bera skarðan hlut frá borði, fyrst bændur og ferðaþjónustuaðilar. Lögmál frumskógarins eða afdönkuð nýlenduhugsun eiga ekki að ráða framtíð fjarðarins og það á ekki að leyfa mengandi iðnaði að setja aðrar atvinnugreinar við Hvalfjörð í uppnám. „Í upphafi skyldi endinn skoða“ og staða Hvalfjarðar er dæmi um að það gleymdist.

Að gaspra um auðveldar lausnir í atvinnumálum í þeim tilgangi að næla sér í atkvæði líkt og stóriðjuflokkarnir frá tíunda áratugnum gera nú, er ábyrgðarlaust. Talsmenn þessara flokka þykjast vita hvernig eigi að liðka „hjól atvinnulífsins“ en sú stjórnmálastefna og framkvæmd hennar hefur reynst þjóðinni dýrkeypt. Stóriðjuáform fela alltaf í sér stórkostleg og óafturkræf inngrip í náttúruna og kalla á miklar fórnir. Þjóðin hefur þegar fengið að súpa seyðið af því.

Nú ættu nefndir „lukkuriddarar“ að sýna auðmýkt í kosningabaráttunni og líta til fyrri verka. Ef viljinn er fyrir hendi þá er einmitt núna tækifæri til þess að ræða málefnalega um leiðir til að efla eftirlitsstofnanir stjórnsýslunnar þannig að þær muni í framtíðinni geta axlað verkefni sín gagnvart skilgetnum afkvæmum stóriðjustefnunnar, hinum mengandi iðjuverum. Síðast en ekki síst ættu þessir frambjóðendur og aðrir að hvetja þjóðina til að nýta hugvitið til atvinnusköpunar vegna þess að þeir vita undir niðri að réttlát og sanngjörn umgengni um auðlindir þjóðarinnar er það sem helst getur haldið þjóðarskútunni á floti og gert okkur mögulegt að að vera stolt þjóð.

Hvalfirði, 23. apríl 2013, Ragnheiður Þorgrímsdóttir.

Ljósmynd: Séð yfir Hvalfjörð, Faxaflóahafnir.

Birt:
12. maí 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ragnheiður Þorgrímsdóttir „Stóriðjustefnan og Hvalfjörður“, Náttúran.is: 12. maí 2013 URL: http://nature.is/d/2013/05/12/storidjustefnan-og-hvalfjordur/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: