Sáð fyrir kamillu
Fyrir nokkrum árum sá ég svo fallega kamillujurt við gróðurhús í Skaftholti að ég fór að trúa því að kamilla gæti vel vaxið hér á landi. Í mörg ár hef ég þó verið að bíða eftir því að sá kamillu úr bréfi sem ég keypti í Skotlandi fyrir nokkrum árum. Hélt jafnvel að fræin væru orðin óvirk. En svo er nú þó aldeilis ekki. Ég hef verið að fylgja sáðalmanaki Maríu Thun sem að Guðfinnur í Skaftholti hefur hjálpað okkur að gera hér á vefnum en þ. 26. apríl sl. frá kl. 10 um kvöldið, var skv. sáðalmanakinu hagstætt að sá til blómjurta. Ég notaði tækifærið og sáði bæði til kamillu og morgunfrúa.
Í leiðbeiningum á kamillufræjabréfinu stendur að sá eigi fræjunum, sem eru agnarsmá, ofan á fína mold og að fræin vakni við ljós (Lichtkeimer). Nú þremur dögum eftir að ég sáði, á réttum tíma skv. himintunglunum, og beint ofan á sáðmoldina, eru pínuponsulítlir stilkar og kímblöð komin í ljós. Mér finnst þetta bara alveg stórmerkilegt og man ekki eftir að hafa upplifað spírun og fyrstu daga sáningar svona flotta og spennandi. Nú er bara að sjá hvernig smáplönturnar braggast en það má væntanlega ekki víkja langt frá húsi eða gleyma að hugsa um þær á þessu viðkvæma stigi. Markmiðið er að fá jafn hressar of fallegar kamilluplöntur í garðinn eins og raunin er í Skaftholti.
Ljósmyndir: Efst; Kamillan í Skaftholti. Myndirnar þrjár hér að ofan eru af sáðbökkunum; efsta myndin af þremur, morgunfrúar og kamillufræbakkar, önnur myndin er af sáðbökkunum með kamillunni og sú neðsta er nærmynd af einum af tveim sáðbökkum með kamillujurtunum smáu. Ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.
Gulu fræbakkana, sem eru mátulega djúpir og þægilegri en stórir djúpir pottar, fann ég fljúgandi úti á víðavangi, en þeir eru lok af hitaveiturörum sem lágu eins og hráviði eftir nýjar hitaveitulagnir í nágrenni við húsið.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sáð fyrir kamillu“, Náttúran.is: 28. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2011/04/29/sad-fyrir-kamillu/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 29. apríl 2011
breytt: 20. mars 2014