Hið 10.000 ára gamla Miðfells-/Eldborgarhraun myndar um 10m háan stall við austanvert Þingvallavatn syðst.

Blámi og tærleiki Þingvallavatns í hættu!

Frágangur sumarbústaða óviðunandi: Nú munu vera um 600 sumarbústaðir við Þingvallavatn og þar af eru um 94 innan marka þjóðgarðsins. Þegar litið er til einstakra jarða eru flestir í landi Miðfells eða um 250. Skólp og gróður þeim fylgjandi er þáttur sem nauðsynlegt er að skoða vel þegar horft er til framtíðar Þingvallavatns. Margir bústaðirnir standa mjög nærri vatnsbakkanum og allir á vatnasviði þess.

Í reglugerð 650/2006 um framkvæmd verndunar vatnasviðs og lífríkis Þingvallavatns eru í 15 gr. fyrirmæli um frágang frárennslis frá íbúðar- og frístundahúsum. Ákvæði til bráðabirgða í lok reglugerðarinnar gefur eigendum eldri húsa og húsa í byggingu frest til 1. janúar 2011 til þess að uppfylla skilyrði 15. greinar. Í reglugerð 449/2009 sem undirrituð var 24. apríl 2009 var þessi frestur lengdur til 1. janúar 2020. Rökin fyrir þessari breytingu eru mér ókunn en ég tel hæpið að Þingvallavatns vegna megi bíða svo lengi.

Innan marka þjóðgarðsins munu nú um 10% frístundabústaða uppfylla gefin skilyrði nú en utan hans fáir eða engir. Svo er um frístundabústaðina í Miðfellslandi og þar munu margar rotþrær gamlar og jafnvel ónýtar. Neysluvatn sitt fá bústaðaeigendur þar úr sameiginlegum borholum einni eða fleirum en víða munu þeir fá vatnið úr borholu á eigin lóð í næsta nágrenni við e.t.v. lélega eða ónýta rotþró. Þetta gefur vísbendingu um að stutt sé niður á grunnvatnsstrauma þar og skólp og seyra þurfi skammt að fara til þess að blandast gunnvatni á leið til Þingvallavatns. Víða mun það svo að þeir sem eiga sumarhús á bakka Þingvallavatns dæli köldu neysluvatni sínu úr vatninu eða grunnri borholu á vatnsbakkanum.

Ákvæði reglugerðar 650/2006 takmarkar mjög notkun köfnunarefnisáburðar s.s. við frístundabyggð. Þá er nú unnið að því innan þjóðgarðs að girðingar sem hindra aðgengi almennings að vatnsbakka verði teknar upp. Um gróður og ræktun innfluttra barrtrjáa o.fl. verður fjallað í næstu grein. Hveragerði 23.04. 2013. Björn Pálsson.

 

Mynd a)Þar á liðlega tveggja km löngu og 700m breiðu strandsvæði eru nú 250 sumarbústaðir. Óæskileg mengunarefni þaðan eiga sér stutta og greiða leið til vatnsins. Myndin er úr bókinni Thingvallavatn, útg. 2011.

Mynd b) Sumarbústaður í þjóðgarðinum undir Hallinum. Myndin er úr bók Sigrúnar Helgadóttur Þingvellir: Þjóðgarður og heimsminjar, útg. 2011. Þá mynd sýndi hún einnig á Þingvallamálstefnunni 3. apríl sl.

 

Birt:
26. apríl 2013
Höfundur:
Björn Pálsson
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Björn Pálsson „IV. Þingvellir – vatn og þjóðgarður“, Náttúran.is: 26. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/26/iv-thingvellir-vatn-og-thjodgardur/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 12. maí 2013

Skilaboð: