Í dag, á hátíðahöldum sumardagsins fyrsta í Garðyrkjuskólanum að Reykjum í Ölfusi (við Hveragerði) fékk Björn Pálsson fv. héraðsskjalavörður, umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar fyrir skelegga baráttu að umhverfis- og náttúruverndarmálum á síðastliðnum árum. Þakkarræða Björns var svohljóðandi:

Orður og titlar, úrelt þing,
eins og dæmin sanna,
notast oft sem uppfylling
í eyður verðleikanna.

Þessi gamla staka Steingríms Thorsteinssonar skálds kom mér fyrst í hug þegar mér var tilkynnt sú ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðis að heiðra mig nú. Hér í höfði mér eru margar eyður og því ágætt orðupláss. Þessi viðurkenning er mér þó kærkomin og hafi bæjarstjórn þökk fyrir. Einlægur stuðningur flestra Hvergerðinga hefur þó veitt mér mestan styrk og úthald undanfarin ár.

Í upphafi þeirrar baráttu sögðu margir: „Þetta er tilgangslaust því ekkert mark verður tekið á neinum mótmælum.“ Sem betur hefur sú ekki orðið raunin. Grænsdalur er óvirkjaður, Bitra komin í vernd og nú síðast hefur Orkuveita Reykjavíkur ákveðið að virkja ekki meira á Hellisheiðarsvæðinu næstu ár.

Því tel ég rétt að beina nú kröftunum að verndun Þingvallavatns. Enginn Íslendingur mun vilja sjá þá þjóðarperlu breyta um lit og líf á komandi árum.

Ágætu hátíðargestir! Undanfarin 15 ár hef ég borið gæfu til að vera í hópi merkisbera náttúruverndar á þessu svæði. Von mín er sú að fljótlega muni einhver mér yngri taka við merkinu og bera það fram af meiri myndugleika heldur en ég hef nokkru sinni haft burði til að gera.

Þökk fyrir.

Birt:
25. apríl 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Björn Pálsson fær umhverfisverðlaun Hveragerðis“, Náttúran.is: 25. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/25/bjorn-palsson-faer-umhverfisverdlaun-hveragerdis/ [Skoðað:16. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: