Í dag, á Degi umhverfisins og sumardeginum fyrsta fagnar Náttúran.is sex ára afmæli sínu en vefurinn var opnaður af þáverandi umhverfisráðherra Jónínu Bjartmars við athöfn Dags umhverfisins að Kjarvalsstöðum þ. 25. apríl á því herrans ári 2007. Síðan þá hafa þrjár konur sest í stól umhverfisráðherra, þær Þórunn Sveinbjarnardóttir, Kolbrún Halldórsdóttir og nú síðast Svandís Svavarsdóttir. Hver sest í sætið eftir Alþingiskosningarnar nú á laugardaginn á eftir að koma í ljós en eitt er víst að Náttúran.is mun standa vaktina og ekki gefa neitt eftir þegar kemur að baráttunni um verndun náttúrunnar og ástundun umhverfisuppfræðslu til Íslendinga jafnt sem erlendra ferðamanna.

Náttúran.is vinnur stöðugt að þróun nýrra lausna. Margt af því sem við erum að vinna að um þessar mundir hefur ekki enn litið dagsins ljós. Þar má m.a. nefna nýtt Grænt Íslandskort í prentútgáfu og Grænt Íslandskorts-app, sérstaklega hannað með vistvæna ferðamennsku að leiðarljósi. Vistvænt innkaupa-app er einnig langt komið í þróun og verður sett í dreifingu þegar á líður sumarið. Fyrr á árinu kláruðum við Endurvinnslukorts-app fyrir iPad og iPhone, ókeypis og öllum aðgengilegt.

En til að fjármagna alla þessa vinnu leitum við ýmissa leiða því ekkert af því sem við framleiðum er selt til almennings heldur gefið. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur sýnt þróunarstarfi okkar mikinn skilning og bæði verðlaunað okkur með Kuðungnum á síðasta ári og veitt okkur góðan styrk til þróunar Græna Íslandskorts-appsins í ár. Fyrir það erum við þakklát.

Ekki má heldur gleyma að þakka öllum þeim stofnunum og fyrirtækjum sem hafa stutt okkur í gegnum tíðina. Án þeirra gætum við ekki starfað.

Grafík: Sex ára afmælisboð Náttúrunnar, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is

Birt:
25. apríl 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Náttúran á 6 ára afmæli í dag“, Náttúran.is: 25. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/23/natturan-6-ara-afmaeli-i-dag/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 23. apríl 2013
breytt: 25. apríl 2013

Skilaboð: