Hjólbarðar
Sennilega eru hjólbarðarnir einn mikilvægasti hluti ökutækja, og sá hluti sem verður fyrir fjölbreyttasta álaginu. Hjólbarðar eru mikilvægir varðandi allt öryggi, góðir hjólbarðar geta forðað slysi á sama hátt og lélegir hjólbarðar geta orsakað slys. Hjólbarðar þurfa að uppfylla ýmsar kröfur sem oft eru mótsagnakenndar. Kröfurnar snúa að viðnámi, styrk og endingu en einnig að eldsneytiseyðslu og hávaða.
Almennt má segja að mjúk gúmmíblanda hefur gott grip en lítinn styrk og stutta endingu. Harðara gúmmí hefur meiri styrk, endist betur en hefur minna grip, sérstaklega í kulda. Munstrið hefur líka mikið að segja varðandi eiginleika dekksins og eftir því sem dekkið slitnar missir það eiginleika sína. Ekki bara að gripið minnkar með auknu sliti heldur eykst eldsneytiseyðsla bílsins líka.
Val á dekkjum
Dekk skiptast í sumardekk, vetrardekk og heilsársdekk. Sumardekk eru úr harðri og endingargóðri gúmmíblöndu og í þeim eru sterkbyggð strigalög sem þola hraðakstur, 200 til 250 km/klst. Vetrardekk eru grófmynstruð og eru úr gúmmíblöndu sem heldur mýkt sinni í kulda og frosti. Strigalögin eru veikbyggðari til að halda mýktinni og eru oftast ekki miðuð við meiri hraða en 160 km/klst. Heilsársdekkin fara milliveginn í uppbyggingu varðandi strigalögin, munstur og gúmmíblöndu og eru ætluð til notkunar allt árið. Það er ekki gott að keyra á vetrardekkjum að sumarlagi né heldur sumardekkjum að vetri til. Sumardekkin hafa ekkert grip í snjó og kulda og á sama hátt hafa vetradekk lítið grip á sólbökuðu sjóðandi heitu malbiki. Sumardekk eru byggð fyrir malbik en eru ekki góð á malarvegum. Þau eru allt of hörð og skripla á mölinni. Þar eru heilsársdekk og vetrardekk betri.
Það vita það allir sem ekið hafa á slitnum dekkjum í snjó hvað þau hafa lítið grip. En slitin dekk geta líka verið hættuleg í rigningu. Dekkin verða að ryðja regnvatninu í burtu til þess að ná gripi í malbikið. Eftir því sem dekkin eru slitnari minnkar getan til þess að ryðja vatninu frá og það getur endað með því að dekkin fara að plana stjórnlaust ofan á vatninu. Rásir í malbiki magna upp hættuna þar sem regnvatnið leitar ofan í þær svo vatnsdýptin verður staðbundið meiri. Við aukna vatnsdýpt eykst hættan á plönun.
Val á réttu vetrardekki er vissulega erfitt. Það þarf að spá í væntanlegt veðurlag (sem er útilokað) og við hvers konar aðstæður, svo sem innanbæjarakstur, utanbæjar eða fjallvegir. Nagladekk voru mikið notuð hér áður fyrr, sérstaklega þegar flestir fólksbílar voru afturhjóladrifnir. En naglarnir eru litnir hornauga í dag, þeir vinna á malbikinu og mynda heilsuspillandi svifrik. Vissulega virka naglar við ákveðnar aðstæður svo sem á héluðu malbiki eða glæru svelli. En naglarnir koma ekki að gagni við aðrar aðstæður svo sem í snjó og slabbi og á auðu malbiki. Með tímanum geta þeir orðið varasamir eftir því sem dekkið slitnar og stuðningur gúmmísins við naglana minnkar. Þörfin fyrir að keyra á nagladekkjum hefur minnkað mjög mikið frá því sem áður var. Veturinn hefur mildast með árunum og á mörgum stöðum er orðið mun snjóléttara en áður. Vegirnir eru betur hannaðir og betur þjónustaðir, ruddir, saltaðir og sandaðir. Bílarnir hafa líka mikið breyst, flestir eru framhjóladrifnir sem skiptir miklu máli í snjó og margir með fjórhjóladrifi. Þar að auki er ýmis tækni í nýjum bílum svo sem spólvörn, stöðugleikakerfi og ABS bremsur sem hjálpa ökumanninum að taka af stað, halda bílnum á veginum og stoppa í hvaða færð sem er. En einnig hafa miklar framfarir orðið á vetrardekkjum almennt. Betri munstur og gúmmíblöndur og ýmsar útgáfur af loftbólu, harðskelja og örkornadekkjum. Allt þetta leiðir til þess að ökumenn geta keyrt með góðu öryggi á ónegldum vetrardekkjum. Og í fljúgandi hálku gildir bara gamla góða reglan, að fara bara nógu hægt, helst að fara hvergi.
Viðhald
Dekk þurfa sitt eftirlit og viðhald. Öll dekk missa loftþrýstinginn hægt og rólega, jafnvel þótt enginn alvarlegur leki sé til staðar. Loftið smýgur út milli dekks og felgu eða meðfram ventli. Það ætti að vera regla að mæla þrýstinginn mánaðarlega og sem betur fer er það auðvelt með nútíma þrýstilofti á bensínstöðum. Bara stilla inn réttan þrýsting á loftdæluna og pumpa svo í öll dekk. Réttur loftþrýstingur er gefin upp í vinstra hurðarfalsi bílsins og þjónustubók og miðast við upprunaleg dekk og svo er ávallt gefinn hámarksþrýstingur á dekkinu sjálfu. Rangur þrýstingur leiðir af sér misslitin dekk og lélegt grip. Of mikill þrýstingur veldur því að dekkið slitnar í miðjunni en of lítill þrýstingur veldur sliti á köntunum, (hér er miðað við að hjólastilling bílsins sé í lagi). Lágur loftþrýstingur í dekkjum leiðir einnig til þess að bíllinn eyðir meira eldsneyti. Ef keyrt er með verulega lítinn þrýsting fer dekkið að hitna vegna þess hve það aflagast mikið við hvern snúning. Við aukinn hraða hitnar dekkið mjög hratt, hitinn eyðileggur gúmmíið meir og meir og á endanum hvellspringur dekkið og tætist í sundur.
Öll dekk þarf að jafnvægisstilla. Jafnvægisstillingin er gerð með þyngingarklossum úr blýi og er til þess að eyða út titringi frá dekkinu sem myndi annars leiða upp í stýrið og í hjólafestinguna með slítandi hætti. Þyngingarnar eru klemmdar upp á felgubrúnina eða límdar á felguna. Full ástæða er að að vara við sumum léttmálmsfelgum sem eru orðnar svo mikið fyrir augað að erfitt getur verið að finna sæti fyrir blýið og því ekki hægt að jafnvægisstilla. Í hvert skipti sem dekk er umfelgað, t.d. þegar skipt er yfir á sumar eða vetrardekk þarf að jafnvægisstilla aftur. Í sjálfu sér er það ágætt fyrirkomulag því þá er tryggt að dekkin eru ávalt vel jafnvægisstillt.
Sumir eru svo sniðugir að eiga aukafelgur eða keyra á heilsársdekkjum. Hugsunin er sú að spara sér að hreyfa við dekkinu á felgunni, kannski allan líftíma dekksins. Engu að síður er hættan sú að jafnvægisklossar tapist af felgunum með tímanum og einnig að jafnvægið breytist eftir því sem dekkið slitnar. Í slíkum tilfellum er nauðsynlegt að láta skoða jafnvægisstillinguna árlega, jafnvel þótt ekki sé umfelgað.
Það er annað sem gerist ef ekki er hreyft við dekkinu á felgunni. Dekk kantslitna á utanverðum köntunum, sérstaklega framdekkin. Í núgildandi reglugerð um ökutæki stendur að dýpt mynsturs skuli vera minnst 1,6 mm. Í aðalskoðun ökutækja er horft á að minnst 75% af fletinum nái lágmarksdýptinni. Með því að umfelga og víxla dekkum þannig að utanverð hlið dekks verður næst að innanverðu og að framdekk verði afturdekk, er hægt að ná fram jafnara sliti og þar af leiðandi betri endingu dekkjanna.
Dekk sem ekki eru í notkun þarf að geyma og þá er mikilvægt að velja góðan stað fyrir þau. Best er að geyma dekk á köldum, þurrum og dimmum stað þar sem hitasveiflur eru í lágmarki. Ekki er gott að geyma dekk úti við þar sem sólin skín á þau né heldur láta þau standa á grasi eða mold. Ekki er heldur gott að dekkin standi á kaldri steypu, þá er betra að setja viðarfjalir undir þannig að það lofti um þau.
Framleiðsla dekkja
Við framleiðslu á dekkjum eru oft notaðar svokallaðar HA-olíur sem er aukaafurð í olíuhreinsunarstöðvum (High Aromatic extracts). Við framleiðslu á einu fólksbíladekki þarf um það bil einn líter af slíkri olíu. Olían er ekki bundin gúmmíinu efnafræðilega heldur liggur í gúmmímassanum og losnar eftir því sem dekkið slitnar með tíð og tíma. HA olíur eru flokkaðar sem eiturefni en það fer eftir magninu af PAH í olíunni (PolyAromatic Hydrocarbons). PAH eru þrávirk eiturefni sem safnast upp í lífkeðjunni. Það er hægt að nota aðrar hreinni olíur en sú þróun gengur hægt fyrir sig. Neytendur gætu haft mikil áhrif með því að velja dekk sem eru laus við PAH. Því miður liggja þessar upplýsingar oft ekki á lausu og því þarf að spyrja söluaðila sérstaklega eftir þessu atriði. Norræna Svansmerkið tryggir að dekk er án PAH olía og að það sé umhverfisvænt að öðru leiti. Auðveldara er að skilja mikilvægi hreinleika framleiðslunnar þegar sölutölur á nýjum dekkjum eru skoðaðar. Á hverju ári þarf 200 þúsund ný dekk á Íslandi eða 300 milljón ný dekk í Evrópu.
Endurvinnsla
Ónýtum dekkjum ber að koma til réttra förgunaraðila* til endurvinnslu. Skárri dekkin eru valin úr og sóluð, þá eru þau endurnýjuð með nýju slitlagi. Þetta er sérstaklega gert fyrir stærri dekk svo sem undir vörubíla. Að öðrum kosti lenda þau í hakkavélinni og síðan eru búnir til ýmsir hlutir úr kurlinu. Til dæmis er kurlið notað sem undirlag á hlaupabrautum eða dreift ofan á gerfigrasvelli. Einnig eru steyptar gúmmíhellur sem gjarnan hafa verið notaðar á leikvelli fyrir börn.
Þá vaknar spurningin, hvað verður um öll hættulegu efnin og efnasamböndin þegar dekk eru endurunnin. Miðað við eiturefnin í dekkjunum ætti einmitt ekki að nota endurunnið dekkjagúmmí í umhverfi barna. Læknafélag Íslands ályktaði um þessa hluti árið 2010: „Í dekkjakurli eru krabbameinsvaldandi efni og önnur eiturefni ... Þetta eru efni eins og Benzapyren sem er krabbameinsvaldandi, dietyxhexylftalat og butylbenzylftalatsem valda ófrjósemi, fenol sem safnast fyrir í náttúrunni og hefur langtímaáhrif þar, zink sem í of hárri þéttni er eitrað fyrir lífverur og blý sem veldur ófrjósemi og skemmdum á taugakerfi en börn eru sérstaklega næm fyrir áhrifum blýs. Sexgilt króm finnst einnig í hjólbörðum en vitað er að það efni veldur bæði ófrjósemi og krabbameini.“
Ónýt dekk eru einfaldlega vandamál. Endurvinnsla á þeim kostar það mikla orku að það borgar sig yfirleitt ekki. Ýmislegt er prófað, sem dæmi má nefna að Bandaríkjunum og Noregi er unnið að rannsóknum á því að nota dekkjagúmmíið sem bindiefni fyrir malbik, kallað gúmmíasfalt. Gúmmíasfaltið er þynnra en venjulegt asfalt, teygjanlegra og springur ekki í kuldum. Þetta er hugsanlega einn möguleiki en það mikilvæga er að finna góðar lausnir fyrir endurvinnslu því magnið er svo mikið, einn milljarður dekkja fellur til árlega á heimsvísu.
Úrvinnslugjald er á hjólbörðum en það er notað til að greiða fyrir meðhöndlun hjólbarðanna og endurnýtingu eftir að þeir hafa þjónað upphaflegum tilgangi sínum.
Endurvinnslustöðvarnar taka á móti dekkjum og sjá um að farga þeim á viðeigandi hátt. Á Endurvinnslukortinu og app-útgáfu Endurvinnslukortsins eru allar upplýsingar um endurvinnslu og þá staði sem taka á móti dekkjum/hjólbörðum.
Birt:
Tilvitnun:
Einar Einarsson, Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hjólbarðar“, Náttúran.is: 3. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2007/06/21/hjlbarar/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. júní 2007
breytt: 12. júní 2014