II. Þingvellir – vatn og þjóðgarður
Blámi og tærleiki Þingvallavatns í hættu!
Í erindi Ólafs Arnar Haraldssonar þjóðgarðsvarðar á málstefnunni um Þingvelli kom fram hversu mjög umferð bifreiða yfir þjóðgarðinn hefur aukist frá því að vegurinn frá Laugarvatnsvegi til Miðfells, Lyngdalsheiðarvegur, var tekinn í notkun árið 2010.
Þetta má sjá á línu- og stöplaritum Ólafs Arnar hér fyrir neðan. Birt með leyfi hans.
Bílaumferð hefur aukist fyrst og fremst vegna þess að íbúar þess hluta Bláskógabyggðar, sem áður hétu Laugarvatns- og Biskupstungnahreppar, velja þessa leið á ferðum til og frá höfuðborginni. Sama mun einnig gilda um sumarbústaðaeigendur á þeim sömu svæðum. Vegalengdin frá Laugarvatni til gatnamóta Vesturlands- og Suðurlandsvega í Reykjavík mun vera um 85 km ef farið er um Grímsnes og Hellisheiði en 69 km ef farið er um Þingvelli og Mosfellsheiði. Þar munar 16 km en tímamunur er óþekktur. Ýmislegt hefur verið gert til þess að draga úr umferðarhraða yfir þjóðgarðinn, vel merktur 50 km hámarkshraði og settir upp umferðarteljarar. Hins vegar mun sú hraðatakmörkun ekki vera virt af mörgum þeim sem nota þá leið án viðkomu á Þingvöllum og því þarf að setja upp hraðamyndavélar, beita sektargreiðslum og jafnvel að taka upp veggjald ef sektarkerfið dugir ekki. Umferð vöruflutningabifreiða að þunga yfir 8 tonn er nú bönnuð en trúlega er nauðsynlegt að banna alla umferð vöruflutningabifreiða.
Við þennan veg, nr. 36 samkv. korti á ja.is, þarf að fjölga góðum bílastæðum sem tengjast göngustígum s.s. að Skógarkoti. Þá þarf að loka tengingu þessa vegar við Vallaveg nr. 361 hjá Gjábakka til þessa að koma í veg fyrir hringakstur. Tillaga þar um mun liggja fyrir hjá Þingvallanefnd. Um þann veg frá vegamótum við Efrivallaveg nr. 362 ætti að takmarka sem mest alla bílaumferð og banna umferð stórra fólksflutningabifreiða. Oft mun það gerast að fólk gengur þá slóð með þær rennireiðar á hælunum.
Þann möguleika mætti athuga að koma upp leigu reiðhjóla og jafnvel rafskutla til þess að auðvelda fólki ferðir um þjóðgarðinn og næsta nágrenni.
Fleira ekki að sinni en í næstu grein hyggst ég beina sjónum að vatnasviði Þingvallavatns, gildi þess og verndun.
Sjá einnig fyrri grein í greinarflokki Björns Pálssonar I. Þingvellir – vatn og þjóðgarður.
Efri mynd: ÁDU bláa línan er meðaltal daglegrar bílaumferðar á ári. SDU rauða línan er meðaltal daglegrar bílaumferðar á sumri. VDU græna línan er meðaltal daglegrar bílaumferðar á vetri.
Neðri mynd: Neðra Stöplarit bílaumferðar í janúar árin 2012 t.v. og 2013 t.h. Mosfellsheiði blár stöpull og Lyngdalsheiði rauður stöpull.
Birt:
Tilvitnun:
Björn Pálsson „II. Þingvellir – vatn og þjóðgarður“, Náttúran.is: 18. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/18/ii-thingvellir-vatn-og-thjodgardur/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 20. apríl 2013