I. Þingvellir – vatn og þjóðgarður
Blámi og tærleiki Þingvallavatns í hættu!
Á málstefnu Náttúruverndarsamtaka Suður- og Suðvesturlands þann 3. apríl sl. voru flutt fróðleg erindi og um 100 áheyrendur voru mættir þegar flest var. Því miður sáu fjölmiðlar ekki ástæðu til mætingar né umfjöllunar um það sem þar kom fram. Því birtir undirritaður nokkrar greinar þar um hér á vef Náttúrunnar.
Hér verður reynt að bregða ljósi á meginþætti málstefnunnar og þau vandamál sem við okkur blasa. Það er skylda okkar núráðandi kynslóðar að skila Þingvallavatni og vatnasviði þess sem minnst sködduðu til afkomenda okkar. Viljum við ekki geta notið þar á vatnsbakka kyrrðarstunda með ástvinum okkar á björtum sumardögum og nóttum, horft á silunginn vaka og sjá fuglana flögra í birkikjarrinu? Tengjast jafnvel músarrindilsfjölskyldunni eins og Ólafur Jóhann Sigurðsson lætur brúðhjónin Pál Jónsson og Hildi Helgadóttur gera um miðja síðustu öld í niðurlagi bókar sinnar Drekar og smáfuglar!
Eftri mynd: Heiðursskjal heiðursgestar málstefnunnar, eldhugans og fræðimannsins Péturs M. Jónassonar. Skjalið gerði Ólafur Th. Ólafsson.
Neðri mynd: Pétur M. Jónasson ávarpar fundargesti. Ljósmynd: Ellert Grétarsson. Hann sagði frá áratuga baráttu sinni fyrir náttúruvernd bæði á Þingvalla- og Mývatnssvæðinu. Án árangurs reyndi hann að koma í veg fyrir gerð nýja vegarins frá Laugarvatni til Miðfells. Sú mikla umferð bifreiða, sem sá vegur leiðir yfir þjóðgarðinn norðan Þingvallavatns, er eitt af þeim vandamálum sem nú þarf að finna lausn á.
Í næstu grein mun greinarhöfundur Björn Pálsson fjalla um þann vanda og mögulegar úrbætur.
Birt:
Tilvitnun:
Björn Pálsson „I. Þingvellir – vatn og þjóðgarður “, Náttúran.is: 15. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/15/i-thingvellir-vatn-og-thjodgardur/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 16. apríl 2013