Frá MývatniUmhverfisstofnun veitti ekki leyfi fyrir tveimur hótelbyggingum á verndarsvæði Mývatns. Skolphreinsun hótelanna er einnig án leyfis Umhverfisstofnunar. Þá er frárennsli hótels skammt frá vatnsbakka Mývatns bæði í ósamræmi við skilmála deiliskipulags og reglugerðir um hreinsun frárennslis við vatnið. Starfsmannahúsum var bætt við annað hótelið í haust án leyfis Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun veitti ekki leyfi fyrir vinnubúðum fyrir 50 manns við þriðja hótelið, sem nú er í byggingu. Landvernd freistar þess nú með röð stjórnsýslumála að fá tekið á málum sem varða lífríki Mývatns og allan almenning, í ljósi sívaxandi þunga ferðamannastaums og aukins álags á verndarsvæðin í landinu. Mývatn ver sig ekki sjálft.

Komið hefur í ljós að frárennslismál nýrra hótela við Mývatn hafa verið í miklum ólestri. Áður var vitað að ekki hafði verið komið á búnaði fyrir tilskilda hreinsun skolps frá eldri hótelum og annarri ferðaþjónustu í Mývatnssveit, þrátt fyrir skýr stjórnvaldsfyrirmæli þar um. Hitt kom á óvart, að reglum hefði ekki verið framfylgt hin síðari misseri varðandi nýrri hótelbyggingar. Kunnara er en frá þurfi að segja að Mývatni er ógnað af síauknu flæði næringarefna af mannavöldum og skipaði umhverfisráðherra sérstaka nefnd s.l. sumar til að taka út stöðu mála.

Síðasta haust komst í hámæli er byggingarfulltrúi Skútustaðahrepps stöðvaði óleyfisbyggingu Fosshótels innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár í landi Grímsstaða skammt norðan Mývatns. Í ljós kom að búið var að reisa stærstan hluta hótelsins án nokkurs leyfis frá Umhverfisstofnun, sem sér um verndarsvæðið. Byggingarleyfi hafði ekki verið gefið út. Hótelrekandi hafði ekki tilkynnt Skipulagsstofnun um framkvæmdina svo hún gæti tekið ákvörðun um hvort hótelið þyrfti að fara í umhverfismat, svo sem honum bar lögum samkvæmt.

Í kjölfar máls Fosshótels og annars fyrirhugaðs hótels, Hótel Reykjahlíðar, sem einnig komst í hámæli og enduðu bæði í stjórnsýslukæru mismunandi aðila, kannaði Landvernd stöðu frárennslismála nýlegra hótela við Mývatn á breiðari grunni. Mikið er í húfi fyrir lífríki Mývatns og Laxár. Í ljós kom að víða var pottur brotinn. Stór hótel sem nýlega höfðu risið, studdust við takmörkuð leyfi og frárennslismál þeirra reyndust ekki hafa verið í samræmi við reglur. Á það m.a. við um viðbyggingu við Sel-hótel sem tekin var í notkun 2015 og þrjú starfsmannahús við Hótel Laxá, sem leyfð voru haustið 2016. Þar sem hér virðist vera um að ræða stærra vandamál sem teygir sig um verndarsvæðið og þar sem enn er knúið á um byggingu fleiri hótela á svæðinu er um fordæmismál að ræða. Vill Landvernd láta reyna á að tilskildum frárennslisbúnaði verði þegar komið fyrir við hótelin og að hann fái málsmeðferð þeirrar stofnunar sem fer með náttúruvernd á á verndarsvæðinu, þ.e. Umhverfisstofnunar.

Skútustaðahreppur freistar þess nú fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að koma sér undan því að fjallað verði efnislega um frárennslismál við þessi nýlegu hótel á verndarsvæðinu, með því að krefjast frávísunar á stjórnsýslukærum Landverndar. Sjónarmið Landverndar er að óháð því hvenær byggingarleyfi hreppsins kunna að hafa verið gefin út, voru framkvæmdir leyfðar án þess að Umhverfisstofnun hefði komið þar að. Leyfi Umhverfisstofnunar fyrir framkvæmdum við Sel-hótel og Hótel Laxá liggja ekki fyrir og lágu ekki fyrir við veitingu byggingarleyfa. Hótelrekendur tilkynntu heldur ekki skolphreinsibúnað til Skipulagsstofnunar til að fá úr því skorið hvort meta skyldi áhrif frárennslis á umhverfið. Síðasta leyfi byggingarfulltrúa var veitt nú í haust, eftir því sem best er vitað, en leyfin hafa aldrei verið birt almenningi.

Von Landverndar er að sveitarstjórnin geti litið málefnalega á úrlausnarefnið og vonandi komið frárennslismálum við hótelin og aðra ferðaþjónustu í þann farveg sem krafist er á verndarsvæðum. Það hlýtur að vera krafa almennings að hótelin sjálf greiði fyrir frárennsli frá starfsemi sinni, en ekki almenningur, í samræmi við greiðslureglu alþjóðlegs umhverfisréttar og íslensk náttúruverndarlög (Polluter Pays Principle). Landvernd sér ekki nein góð rök fyrir því að gæta ekki ítrustu reglna sem settar hafa verið til verndar lífríki Mývatns. Samtökin lýsa sig hinsvegar fús til málefnalegrar umræðu um það.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Skútustaðahreppur sjálfur á lítinn hlut í einu þessara hótela. Af sjálfu leiðir að snúið hlýtur að vera fyrir sveitarstjórnina að vera beggja megin borðs þegar ákvarðanir eru teknar um hvort framfylgja skuli reglum um skolphreinsikröfur við Mývatn, þegar veitt eru leyfi fyrir hótelbyggingu.

Reglurnar sem um ræðir mæla fyrir um hreinsun bæði fosfórs og köfnunarefnis úr frárennsli við Mývatn og Laxá nema hægt sé að sýna fram á að þessi næringarefni hafi ekki áhrif á næringarefnastig svæðisins.

Að mati Landverndar er síður en svo sjálfsagt mál að stunda mengandi starfsemi inni á verndarsvæðum og telja samtökin mun æskilegra að hún fari fram utan við eða í jaðri verndarsvæða. Hið minnsta þurfa ferðaþjónustuaðilar að sjá til þess að engin mengun berist í Mývatn og Laxá frá starfsemi þeirra. Landvernd mun ekki hvika frá varðstöðu sinni um lífríki Mývatns og mun leita allra lögmætra leiða í því efni. Vegna ástands skolpmála, óleyfisframkvæmda og skorts á mati á umhverfisáhrifum af starfsemi hótela í Mývatnssveit hafa samtökin í undirbúningi að tilkynna eftirlitsnefnd Ramsarsamningsins um þá hættu sem steðjar að lífríki vatnsins af þessum sökum. Ramsar-samningurinn er alþjóðlegur sáttmáli um vernd votlendissvæða sem Ísland er aðili að og er Mývatns- og Laxársvæðið á lista yfir þessi alþjóðlegu verndarsvæði.

Birt:
Feb. 23, 2017
Höfundur:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Mývatn njóti vafans – ekki hótelstarfsemi“, Náttúran.is: Feb. 23, 2017 URL: http://nature.is/d/2017/02/23/myvatn-njoti-vafans-ekki-hotelstarfsemi/ [Skoðað:Nov. 8, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: