„Norðurlönd hafa löngum gegnt og gegna áfram mikilvægu hlutverki í framsækinni stefnu í umhverfis- og loftslagsmálum. Brýnt er að okkur takist að nýta tækifæri okkar til samstarfs því þá heyrist rödd okkar betur í Evrópu og um heim allan,“ segir Tine Sundtoft. Fram á vor mun hún ræða við stjórnmálafólk og aðra stefnumótandi aðila á Norðurlöndum og alþjóðavettvangi.<br>Ljósmyndari  Heidi Orava

Tine Sundtoft, fyrrum loftslags- og umhverfisráðherra Noregs, hefur tekið að sér að vinna stefnumótandi úttekt á norrænu umhverfissamstarfi. Hún hefst þegar handa við að kanna ný sóknarfæri til áhrifa í samstarfi landanna í umhverfis- og loftslagsmálum.

Á undanförnum árum hefur Norræna ráðherranefndin staðið að stefnumótandi úttektum á samstarfi í heilbrigðismálum, vinnumálum og orkumálum. Nú er röðin komin að umhverfismálum. Verkinu á að ljúka með skýrslu sem inniheldur 10–15 raunhæfar og aðgerðamiðaðar tillögur að samstarfssviðum eða málefnum þar sem þróa má norrænt umhverfissamstarf á næstu 5 til 10 árum. Í tillögunum skal tekið tillit til skuldbindinga landanna vegna ESB-samstarfs og annars alþjóðasamstarfs.

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, segir hafa legið beint við að fá Tine Sundtoft til verksins:

„Tine Sundtoft þekkir umhverfismálin mjög vel. Reynsla hennar af öllum stigum, allt frá sveitarfélagsstigi til alþjóðasamstarfs, kemur að góðum notum þegar greina á framtíðartækifæri í norrænu samstarfi á þessu sviði.“

Vidar Helgesen, loftslags- og umhverfisráðherra Noregs og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfismál 2017, lýsir yfir ánægju sinni með að Tine Sundtoft hafi tekið að sér þetta afar brýna verkefni:

„Tine stóð sig frábærlega sem loftslags- og umhverfisráðherra og býr yfir mikilvægri reynslu af umhverfismálum heima fyrir og alþjóðlega. Hún sér málin úr nægilegri fjarlægð til að geta gefið ráð um hvernig auka megi áhrif Norðurlandasamstarfsins í umhverfismálum.“

Tine Sundtoft er fylkisstjóri í Vestur-Ögðum í Noregi, en í ráðherratíð sinni beitti hún sér af þrótti í samningaviðræðunum um loftslagsmál í aðdraganda Parísarsamkomulagsins:

„Við lifum á miklum umbrotatímum. Parísarsamkomulagið kveður á um að öll heimsbyggðin lágmarki losun, að öðrum kosti eyðileggjum við umhverfið og andrúmsloft jarðar. Það er mjög spennandi að fá kost á að taka þátt og hafa áhrif á starfið, nú þegar Parísarsamkomulagið er rétt gengið í gildi.“

„Í starfi mínu sem fylkisstjóri vinn ég einnig að því að hrinda breytingum í framkvæmd. Við þurfum hagnýta umhverfisstefnu þar sem allir aðilar í samfélaginu öðlast hlutverk, þar á meðal atvinnulífið sem gegnir lykilhlutverki í umskiptum til vistvæns samfélags.“

Tine Sundtoft leggur endanlegar tillögur sínar fyrir Norrænu ráðherranefndina á fyrsta ársfjórðungi 2018.

Tengiliðir
Heidi Orava
Sími +45 21 71 71 48
Netfang heor@norden.org

Satu Reijonen
Sími +45 33 96 02 00
Netfang sare@norden.org

Tine Sundtoft
Sími +47 95 02 02 65
Netfang tine.sundtoft@vaf.no

Birt:
Jan. 23, 2017
Tilvitnun:
Norræna ráðherranefndin „Tine Sundtoft kannar sóknarfæri í norrænu umhverfissamstarfi“, Náttúran.is: Jan. 23, 2017 URL: http://nature.is/d/2017/01/23/tine-sundtoft-kannar-soknarfaeri-i-norraenu-umhver/ [Skoðað:Dec. 9, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: