Landvernd hefur lagt til breytingar á frumvarpi innanríkisráðherra um gjafsóknarákvæði einkamálalaga. Málið er á dagskrá Alþingis í dag. Frumvarp ráðherra útilokar með öllu möguleika umhverfisverndarsamtaka til gjafsóknar fyrir dómi. Á sama tíma dregur innanríkisráðherra úr hömlu að svara ítrekuðum fyrirspurnum Umboðsmanns Alþingis vegna neitunar ráðuneytisins á veita Landvernd gjafsókn í dómsmáli sem samtökin reka fyrir Hæstarétti. Að mati Landverndar eru tafir ráðuneytisins í beinum tengslum við þær breytingar á gjafsóknarákvæðum sem nú eru til umræðu á Alþingi og bendir allt til að vilji ráðuneytisins standi til þess að lagasetningu ljúki áður en Umboðsmanni verði svarað. Meirihluti allsherjarnefndar hefur lagt til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Í ítarlegum umsögnum Landverndar hafa samtökin rökstutt nauðsyn þess að halda inni heimild til að veita samtökum almennings gjafsókn þegar úrlausn mála hafa almenna þýðingu á sviði umhverfismála, líkt og var við lýði allt fram til ársins 2005. Sjónarmiðin voru kynnt innanríkisráðuneytinu í byrjun janúar á þessu ári og allsherjarnefnd Alþingis nú í haust. Með frumvarpi ráðherra er hinsvegar algerlega girt fyrir þessa gjafsóknarheimild. Að mati Landverndar mega lög ekki hafa slíkan fælingarmátt að aldrei reyni á umhverfisvernd fyrir dómi. Landvernd minnir á að í alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að er samtökum almennings falið mikilvægt hlutverk við vernd umhverfisins. Ekki er nægilegt að slík samtök hafi aðgang að stjórnsýslukærum við tilteknar aðstæður, heldur kann að koma til kasta dómstóla. Landvernd minnir í þessu sambandi á fullgildingu Íslands 2011 á Árósasamningi um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings og réttlátri málsmeðferð. Að mati Landverndar væri samþykkt frumvarpsins brot á þeim samningi og EES samningnum.

Álit meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar liggur nú fyrir. Landvernd fellst ekki á þá afgreiðslu, en hún er samhljóða athugasemdum innanríkisráðuneytis. Samþykkt frumvarps innanríkisráðherra myndi ekki aðeins gera umhverfisverndarsamtökum algerlega ókleift að fá gjafsókn fyrir dómi heldur eru tekjuviðmið fyrir gjafsókn til einstaklinga svo lág að jafnvel einstaklingar á atvinnuleysisbótum eru of tekjuháir til að fá gjafsókn, hvort sem málin hafa þýðingu fyrir almenning eða ekki. Við slíkar aðstæður er augljóst að fá eða engin mál fara til dómstóla þar sem umhverfisvernd er undir. Það getur ekki verið vilji Alþingis að samþykkja slíka löggjöf, þegar umhverfisvernd er undir.

Landvernd hvetur alþingismenn til að leggjast gegn samþykkt óbreytts frumvarps og krefur jafnframt innanríkisráðuneyti skýringa á þeim töfum sem orðið hafa við afgreiðslu erindis Umboðsmanns Alþingis í gjafsóknarmáli Landverndar.

Sjá tímalínu um málið hér að neðan:

Tímalína í gjafsóknarmáli Landverndar vegna stefnu á hendur Landsneti hf.
Unnið í janúar 2016 – GIG Landvernd.
Uppfært 19. september 2016.

2015
26. feb. Landvernd sækir um gjafsókn í dómsmáli sínu gegn Landsneti.
29. apr. Synjun innanríkisráðuneytis (INN) á gjafsóknarumsókn Landverndar.
11. jún.  Landvernd kvartar til umboðsmanns Alþingis vegna ákvörðunar INN
31. ág.  Umboðsmaður tekur málið upp og sendir INN erindi.
7. okt.   Bréf frá umboðsmanni um að frestur INN til andsvara hafi verið lengdur til 16. október 2015.
9. nóv.   Umboðsmaður ítrekar erindi sitt til INN.
16. des. INN birtir drög að frumvarpi til breytinga á gjafsóknarákvæðum einkamálalaga (eml). Breytingarnar myndu útiloka að félagasamtök eins og Landvernd fengju gjafsókn (Ath! Árósasamningurinn kveður á um að félagasamtök eigi að eiga greiðan og ekki of kostnaðarsama leið til að fá skorið úr um mál er varða umhverfisvernd).

2016
11. jan.  Landvernd sendir inn umsögn um frumvarpsdrög eml til INN.
11. jan.  Umboðsmaður ítrekar enn erindi sitt til INN.
21. jan.  Morgunblaðið fjallar um málið.
21. jan.  INNi tekur gjafsóknarbeiðni Landverndar til nýrrar meðferðar.
25. jan.  Umboðsmaður tilkynnir að hann hafi lokið athugun sinni þar sem INN hyggist taka málið upp að nýju.
3. mar.   INN hafnar á ný gjafsóknarumsókn Landverndar
4. apr.    Innanríkisráðherra leggur fram á Alþingi frumvarp um breytingar á gjafsóknarákvæðum.
22. apr.  Landvernd kvartar á nýjan leik til Umboðsmanns.
7. jún.    Umboðsmaður tekur málið upp og óskar eftir sjónarmiðum INN.
1. júl.     Frestur INN til að svara Umboðsmanni framlengdur til 20. ágúst.
23. ágú. Innanríkisráðherra mælir á Alþingi fyrir frumvarpi til breytinga á gjafsóknarákvæðum.
1. sep.   Landvernd sendir allsherjar - og menntamálanefnd Alþingis umsögn sína um frumvarp INN.
7. sep.   Umboðsmaður ítrekar erindi sitt til INN
8. sep.   Landvernd gerir grein fyrir afstöðu sinni til frumvarpsins á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.
15. sep. Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar skilar áliti sínu vegna frumvarps INN.
19. sep. Önnur umræða um frumvarp INN á dagskrá þingfundar Alþingis.

Birt:
19. september 2016
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Umboðsmaður Alþingis hunsaður og mælt fyrir lagabreytingu“, Náttúran.is: 19. september 2016 URL: http://nature.is/d/2016/09/19/umbodsmadur-althingis-hunsadur-og-maelt-fyrir-laga/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: