Hluti af fósturjörðinni, mosi og ljónslappi. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Á fundi ríkisstjórnarinnar þ. 1. október 2010 var ákveðið að 16. september, fæðingardagur Ómars Ragnarssonar, yrði haldinn hátíðlegur sem „dagur íslenskrar náttúru“. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra lagði fram tillögu þess efnis. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar var viðurkenningu á framlagi Ómars til náttúruverndar og almenningsfræðslu um mikilvægi íslenskrar náttúru sem og allra þeirra sem lagt hafa sitt af mörkum til að efla fræðslu um íslenska nátttúru.

Dagur íslenskrar náttúru var síðan haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti þ. 16. september 2011.

Mér finnst mikilvægt að fólk muni eftir því að dagur íslenskrar náttúru er ekki bara til að flagga fallegum myndum af höfuðdjásni okkar, náttúrunni sjálfri heldur er hann til að minna okkur á að við erum fyrst og fremst gæslumenn hennar og verðum að vernda hana fyrir ágangi pólitískra afla sem hirða aðeins um notin en skilja ekki að við erum aðeins hér í stuttan tíma og berum mikla ábyrgð á að skila náttúrunni óskaddaðri til næstu kynslóða.

Ríkisstjórnin sem nú situr við völd hefur ekki staðið sig vel í þessum efnum, því leyfi ég mér að halda fram og falleg orð á tillidögum bæta þar engu um. Fjárframlög til náttúruverndar væru til skammar hvaða lýðræðisríki sem er og pólitískar ákvarðanir sem hafa með náttúruna að gera eru oftar en ekki hrikalega skammsýnar og litaðar af flokkspólitískri refskák. Rammaáætlun hundsuð og nú var umhverfisráðherra að vísa henni til atvinnuveganefndar frá umhverfisnefnd, sem lýsir áherslum ráðherra vel. Ríkisstjórnin leitar nú leiða til að hundsa náttúruverndaráætlun og vill setja lög vegna úrskurðar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem setti bann á lagningu loftlína frá Kröflu að Bakka. Græna hagkerfinu var auðvitað stungið undir stól af fv. forsætisráðherra, eða réttar sagt, útdeild til vina og vandamanna án umsókna. Allt upp á sömu bókina lært á þeim bæ og mikið fagnaðarefni að við fáum tækifæri til að losa okkur við þessa óstjórn í kosningum í næsta mánuði. Þjóðin er orðin þroskaðari en svo að hún sætti sig við þessi afdalavinnubrögð lengur. Íslendingar elska náttúruna í raun og veru. Það hafa skoðankannanir og báðir þjóðfundirnir leitt í ljós svo ekki verður um villst.

Náttúran.is fagnar degi íslenskrar náttúru með því að halda áfram starfsemi, þrátt fyrir að ráðuneyti umhverfisins og ráðuneyti ferðamála hafi ákveðið að styðja ekki við starfsemi okkar og þrátt fyrir að erfitt sé að fá framámenn ferðamála til að skilja að við séum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að auka vægi sjálfbærni í ferðamennsku, einmitt það sem kallað er eftir úr öllum áttum og gríðarleg þörf er á en fátt er gert í nema að efna til einnar ráðstefnunnar á fætur annarri og draga málin á langin.

Til hamingju með dag íslenskrar náttúru elsku þjóð og Ómar, til hamingju með afmælið !


    Tengdir viðburðir

  • Dagur íslenskrar náttúru

    Staðsetning
    Óstaðsett
    Hefst
    Föstudagur 16. september 2016 00:00
    Lýkur
    Föstudagur 16. september 2016 23:59
Birt:
15. september 2016
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Til hamingju með dag íslenskrar náttúru“, Náttúran.is: 15. september 2016 URL: http://nature.is/d/2016/09/15/til-hamingju-med-dag-islenskrar-natturu/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: