Breytt móttaka blandaðs úrgangs á endurvinnslustöðvum SORPU - Ekki Laumupokast!
Breyting hefur orðið á móttöku úrgangs í gámi 66 á endurvinnslustöðvum SORPU, sem er úrgangur til urðunar, pressanlegur.
Samkvæmt rannsókn á innihaldi þessa gáms kom í ljós að rúmlega 30% af efni í gámnum reyndist vera pappír, pappi, tau og klæði sem hæft er til endurvinnslu. Annað í gámnum sem ætti að fara í endurvinnslufarveg er plast, málmar og steinefni.
Frá byrjun febrúar verður lögð áhersla á að pappír, pappi, tau og klæði fari í endurvinnslufarveg í stað urðunar. Í framhaldi verður ekki lengur leyfilegt að henda svörtum ruslapokum í pressugáminn og aðeins tekið við úrgangi í glærum pokum. Glær poki auðveldar starfsmönnum að leiðbeina viðskiptavinum við flokkun og draga þannig úr úrgangi til urðunar. Hægt verður að fá stóra glæra poka gefins á endurvinnslustöðvum SORPU, eru þeir framleiddir hjá Odda og úr 100% endurunnu efni.
Pappír og föt allt of stór hluti af „ruslinu“
Á hverju ári er framkvæmd rannsókn á þeim úrgangi sem fer til urðunar hjá SORPU. Sýni eru m.a. tekin úr blönduðum úrgangi frá heimilum og hlutfall mismunandi efnistegunda metið. Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvar við getum náð betri árangri, í hvað úrgangsflokkum er hægt að auka endurvinnslu og hvar liggja tækifæri til að draga úr kostnaði samfélagsins vegna úrgangsmeðhöndlunar.
Aukið magn pappírs og pappa til endurvinnslu
Á undanförnum árum hefur umtalsverðum árangri verið náð í að minnka pappírsúrgang til urðunar. Pappírsefni hafa farið úr því að vera um 30% af innihaldi gráu heimilistunnunnar árið 2007 í að vera aðeins um 11% árið 2015. Bláa tunnan, sem nú stendur öllum íbúum á höfuðborgarsvæðinu til boða undir pappírsefni, er þar stærsti áhrifavaldurinn.
Á milli áranna 2014 og 2015 jókst endurvinnsla á pappírsefnum um rúm 5%. Enn fara þó tæplega 17 kg af pappírsefnum á hvern íbúa í gráu tunnuna árlega, svo tækifæri er til að gera töluvert betur og draga enn frekar úr sóun.
Minna magn fari í urðun frá endurvinnslustöðvum
Á endurvinnslustöðvum fer árlega fram greining á sýnum úr gámi nr. 66, sem er fyrir pressanlegan úrgang til urðunar. Þar er hlutfall pappírsefna enn hærra en í gráu heimilistunnunni, eða um 18%. Fatnaður og ýmiskonar vefnaðarvara er einnig stór hluti þess sem berst í gám nr. 66 á endurvinnslustöðvum, eða um 15%.
Markmið ársins 2016 er að draga úr urðun á vefnaðarvöru og pappírsefnum frá endurvinnslustöðvum. Urðun á þessum efnum felur í sér sóun á hráefnum, auk þess sem förgun þeirra kostar samfélagið meira en ef þau færu í endurvinnslu. Til þess að ná þessu markmiði hefur verkefnið „minna í urðun frá endurvinnslustöðvum“ verið sett af stað en það felur í sér innleiðingu glærra poka og að hætt verður að taka við vefnaðarvöru og pappírsefnum til urðunar.
Glærir pokar leiða til aukinnar endurvinnslu
Í því skyni að auðvelda starfsmönnum endurvinnslustöðva að leiðbeina við flokkun og auka endurnýtingu er mælst til þess að viðskiptavinir hætti notkun svartra plastpoka undir blandaðan úrgang og noti þess í stað glæra poka fyrir úrgang sem nauðsynlega þarf að vera í poka. SORPA mun í upphafi árs gefa viðskiptavinum endurvinnslustöðva 100% endurunninn glæran poka í kynningarskyni. Í framhaldinu sjá viðskiptavinir svo sjálfir um að útvega sér glæra poka.
Samfélagslegt verkefni
Vefnaðarvara og pappírsefni sem fóru til urðunar í gegnum gráu heimilistunnuna og í gám 66 á endurvinnslustöðvum árið 2015 voru samanlagt um 7000 tonn eða yfir 30 kg á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Á öllum endurvinnslustöðvum eru gámar frá Rauða krossi Íslands fyrir föt og hvers konar klæði. Rauði krossinn getur tekið við allri vefnaðarvöru, hvort sem um er að ræða heilan fatnað eða slitinn, handklæði, rúmföt eða annað þess háttar. Það sem ekki er hægt að endurnota fer í endurvinnslu og er þá hráefni í tuskur, teppi og fleira. Pappír og pappi sem flokkaður er til endurvinnslu fer til Svíþjóðar þar sem hann er hráefni í framleiðslu á dagblaðapappír, pappaumbúðum, bréfþurrkum og ýmsu nytsamlegu. Endurnýting þessara efna sparar orku, vatn og aðrar náttúrulegar auðlindir, auk þess sem dregið er úr losun gróðurhúsalofttegunda og mengandi efna. Samfélagsleg ábyrgð okkar allra liggur því í að flokka þessi efni og skila til endurnýtingar. Þau ættu með öðrum orðum aldrei að fara í „ruslið“.
Birt:
Tilvitnun:
SORPA bs „Breytt móttaka blandaðs úrgangs á endurvinnslustöðvum SORPU - Ekki Laumupokast!“, Náttúran.is: 15. febrúar 2016 URL: http://nature.is/d/2016/02/15/breytt-mottaka-blandads-urgangs-endurvinnslustodvu/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.