Kindur á beit við Kjalveg. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands og Skógræktarfélag Íslands telja það grundvallaratriði að ríkisstuðningur við bændur í nýjum búvörusamningum verði skilyrtur við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og að komið verði í veg fyrir beit á örfoka landi.  Samtökin hafa sent landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, viðeigandi þingnefndum, og forystumönnum Bændasamtaka Íslands og Landssamtökum sauðfjárbænda áherslur sínar vegna samninganna (sjá hér).

Síðustu mánuði hafa fulltrúar bænda og ríkisins setið við samningaborðið vegna nýrra búvörusamninga, m.a. um starfsskilyrði sauðfjárframleiðslu á Íslandi. Rætt er um tíu ára samninga og þar með að skuldbinda ríkissjóð til a.m.k. 50 milljarða króna greiðslu til sauðfjárræktar á tímabilinu sé tekið mið af árlegum beinum stuðningi um þessar mundir.

Undirrituð samtök hafa fullan skilning á því að styðja þurfi við hinar dreifðu byggðir landsins til þess m.a. að tryggja byggð í sveitum þar sem sauðfjárrækt hefur verið undirstaða búsetu, varðveita fornnorrænt sauðfjárkyn og tryggja framboð á lambakjöti fyrir innanlandsmarkað. Samtökin leggja hinsvegar ríka áherslu á að skilyrða verði slíkan stuðning við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og tryggja framfylgd slíkrar stefnu. Algert lykilatriði er að gerður sé greinarmunur á landi sem er í góðu ástandi til beitar og landi sem þolir ekki beit. Styrkjakerfið þarfnast uppstokkunar í takti við hugmyndafræði um sjálfbæra landnýtingu og grænt hagkerfi. Sátt þarf að nást um að friða þá afrétti sem ekki þola beit, og um ný beitarviðmið sem tryggja vernd og styrkingu gróðurs og jarðvegs og efla ímynd landbúnaðarins á sama tíma. Í núgildandi samningi er vissulega ákvæði sem kveður á um sjálfbærni,  sbr: „1.3.   Að sauðfjárrækt sé stunduð í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og sjálfbæra landnýtingu.“ Þessu ákvæði þarf að framfylgja með virku eftirlits- og gæðastýringarkerfi.

Undirrituð samtök hafa sett fram nokkur grundvallaratriði sem þau beina til samningsaðila að líta til við lokagerð nýrra búvörusamninga. Nánar er fjallað um hvert atriði í meðfylgjandi viðhengi, en útdráttur þeirra er hér:

  1. Frumskilyrði fyrir ríkisstuðningi við sauðfjárrækt verði að nýting gróður- og jarðvegsauðlindarinnar standist kröfur um sjálfbæra landnýtingu. Beit á auðnum, rofsvæðum og illa förnum hálendissvæðum á gosbeltinu á ekki að njóta ríkisstuðnings.
  2. Auka þarf fjölbreytni atvinnutækifæra í byggðarlögum þar sem sjálfbær nýting afrétta er erfið eða ógerleg og beina ríkisstyrkjum til annars konar aðgerða til styrktar landsbyggðinni.
  3. Breyta þarf úreltri löggjöf á sviði skógræktar og landgræðslu þannig að hið opinbera geti brugðist við og komið í veg fyrir ósjálfbæra nýtingu. Þá þarf að breyta lögum þannig að vörsluskylda búfjár verði meginregla en lausaganga undantekning.
  4. Á sumum svæðum hefur gæðastýring stuðlað að ábyrgari landnýtingu. Þetta starf verður að styrkja til að tryggja að beit valdi ekki skaða á beitilöndum.
  5. Sátt þarf að nást um algera friðun verst förnu afréttanna og styrkjakerfið verður að tryggja hana.
  6. Huga þarf að alþjóðlegum samningum á sviði umhverfismála sem gera ráð fyrir að spornað sé gegn landeyðingu og illa farin vistkerfi endurheimt. Bændur spila þar lykilhlutverk sem þátttakendur í landbótaverkefnum.
  7. Á meðan kjötframleiðsla byggir á ósjálfbærri nýtingu á hluta landsins verður öll markaðssetning því marki brennd að gengið sé á gróðurauðlindina. Þannig orkar sannarlega tvímælis að kjöt af fé sem að hluta til er alið á svæðum sem ekki þola beit sé niðurgreitt til útflutnings.
  8. Samkvæmt forsetaúrskurði frá árinu 2012 skal umhverfis- og auðlindaráðuneytið fara með málefni sjálfbærrar þróunar, þ.m.t. ráðgjöf um nýtingu auðlinda. Ráðuneytið þarf að koma að gerð samninganna.
  9. Hinn alþjóðlegi Árósasamningur, sem Ísland er aðili að, á að tryggja aðkomu félagasamtaka að ákvarðanatöku er varðar umhverfismál. Samningsaðilar eru hvattir til að taka tillit til krafna undirritaðra samtaka.

Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands og Skógræktarfélag Íslands.

Birt:
8. febrúar 2016
Höfundur:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Búvörusamningar og náttúruvernd“, Náttúran.is: 8. febrúar 2016 URL: http://nature.is/d/2016/02/08/buvorusamningar-og-natturuvernd/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: