Áramótaspjall Náttúrunnar 2016
Nú á nýju ári er við hæfi að líta um öxl og skoða það sem áunnist hefur og það sem við getum gert betur.
Á sviði umhverfismála er það eflaust loftslagssamningurinn, samkomulag 195 þjóða um að takast á við vandann sem óhóflegur útblástur gróðurhúsalofttegunda og eyðing kolefnisbindandi gróðurlendis veldur. Markmiðið, að halda hækkun hitastigs innan við 2°C og helst innan við 1,5°C frá meðalviðmiði, er vissulega frábært og verði því náð má draga verulegu úr áhrifum loftslagsbreytinga.
Það þýðir þó ekki á nokkurn hátt að engar breytingar verði. VIð upplífum nú þegar miklar breytingar á veðurfari s.s. ofurlægðir og meðfylgjandi storma. En einnig breytingar á umhverfi eins og hvarf fiskistofna og tilkomu nýrra, hrun í fuglastofnum og margt annað sem vísar til yfirstandandi breytinga. Súrnun sjávar er eitthvað það alvarlegasta sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir. Hún getur valdið hruni lífríkis við landið og víðar. Hrun tegunda er nú þegar það mikið að vísindamenn tala um sjöttu tortíminguna. Tortímingu sem jafnast á við það þegar risaeðlurnar dóu út ásamt miklum meirihluta tegunda sem þá byggðu þessa jörð.
Samstaða þjóðanna á COP21 í París sýndi fram á grundvallar hugarfarsbreytingu og skilning á því að án samstöðu og samvinnu verður þessum markmiðum ekki náð. Hver þjóð verður að skilgreina sína leið að þessum markmiðum, hvert fyrirtæki og hvert heimili verða að taka höndum saman. Það er ljóst að árangri verður ekki náð án þess að draga úr þenslu og sóun. Sem aftur á móti gæti dregið úr hagvexti, en þann mælikvarða hafa stjórnendur þjóða og fyrirtækja hingað til einblínt á þótt hann sé verulega takmörkuð vísbending. Fleiri mælikvarðar eru til og mæla aðstæður og árangur betur en hagvöxtur.
Hvernig Ísland mun standa sig í þessari samstöðu þjóðanna verður að koma í ljós, en vissulega er ástæða til að efast um einurð stjórnvalda í þessu málefni. Málefni sem varðar hvorki meira né minna en líf eða dauða. Okkar sem þjóðar og okkar sem einstaklinga. Hér hefur um árabil verið logið að gestum og gangandi um hreinleika íslenskrar orkuframleiðslu en jarðvarmavirkjanir menga gríðarlega og vatnsaflsvirkjanir eyðileggja náttúruperlur sem gætu gefið fólki uppbyggiliega upplifun. Þetta verður að skoða og endurmeta á raunhæfan hátt, ekki síst vegna þess að ábati þjóðarbúsins af stóriðju er nú að verða lýðum ljós, en hann er einungis um 1% af þjóðartekjum. Spurningin er því hvort að fórnarkostnaðurinn sé ásættanlegur og til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir.
Hér á landi var um langt skeið unnið þverpólítískt starf undir merkjum Græna hagkerfisins. Til að vinna að markmiðum um eflingu græna hagkerfisins, sem samþykkt voru einróma á Alþingi, var sett til hliðar nokkurt fé en sitjandi forsætisráðherra tók þetta fé ófrjálsri hendi og gaf án umsókna til hinna og þessara en lítið sem ekkert rann til þeirra verka sem féð var ætlað til.
Ríkisendurskoðun gagnrýndi framkvæmdina harðlega en samt hefur enginn eftirmáli verið af gjörningnum. Þessar málalyktir gefa því miður ekki ástæðu til mikillar bjartsýni hvað varðar aðrar efndir samninga um jákvæðar gjörðir í umhverfislegu tilliti af hendi sitjandi ríkisstjórnar. Það er einungis hægt að vona að síðan þá hafi augu hinna ráðandi afla lukist upp og raunverulegur skilningur orðið á hinni brýnu þörf til athafna. Samningar í skúffum gera ekkert gagn. Sóknaráætlun ríkisstjórnar Íslands sem kynnt var fyrir Parísarfundinn þykir Náttúruverndarsamtökum Íslands þó í besta falli óljós og alls ekki ná nógu langt.
Niðurrif umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er til skammar á alþjóðavettvangi sem og fjársvelti þeirra stofnana sem undir það heyra. Vonandi lítur sá þáttur betur út á fjárlögum 2016 því annars er allt hjal um góð áform einskis virði.
En örlítið af starfsemi Náttúrunnar á árinu sem er að líða:
Íslendingar eru meðal mestu ofneyslusþjóða heims. Hér á sér stað gríðarleg sóun verðmæta og náttúruauðlinda með tækjakaupum og einkabílisma og flutningum varnings þvers og kruss um alla jörð.
Frá stofnun Náttúrunnar fyrir 8 árum síðan hefur okkar stefna verið að þróa íslenskt efni, texta og myndmál, kort og gagnagrunna um allt sem getur elft umhverfisvitund og bent á lausnir í daglega lífinu og hvatt fyrirtæki og stofnanir til að taka tillit til umhverfisins við hverja ákvarðanatöku. Við vorum mikið til ein í þessum bransa árum saman en nú hafa almennir miðlar tekið upp náttúruhanskann með okkur og því höfum við lagt minni áherslu á daglegan fréttaflutning eins og áður en þess þó meiri á þróun ýmissa tæknilausna til að einfalda öllum að taka þátt í því að minnka álagið á umhverfið og um leið sig sjálf.
Frá byrjun desember 2014 og fram í mars 2015 tókumst við á hendur ferðalag vítt og breytt um landið og heimsóttum forsvarsmenn 46 sveitarfélaga. Takmarkið var og er að öll sveitarfélög á landinu sjái sér hag í því að taka þátt í samstarfinu um Endurvinnslukortið þannig að allir, bæði íbúar og ferðamenn, innlendir og erlendir, hafi aðgang að ítarlegum og samræmdum upplýsingum um endurvinnslu- og endurnýtingarmöguleika á hverjum stað á landinu.
Í framhaldinu var Endurvinnslukortið endurhannað og vinna hófst við þróun Endurvinnslukorta sveitarfélaganna. Fimm sveitarfélög hafa nú þegar séð hag sinn í að vera með og hafa tengla inn á sín Endurvinnslukort af heimasíðum sínum. Tenglar inn á Endurvinnslukort sveitarfélaganna eru einnig neðst á Endurvinnslukortinu.
Fáum við til þess stuðning, munum við þróa nýtt Endurvinnsluapp á nýju ári. Sótt hefur verið um styrk til þess til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Húsið og umhverfið, einn fræðsluþáttur Náttúrunnar, hagnýtar upplýsingar í vef- og appútgáfum um flest það sem við notum á heimili, í vinnu eða umhverfi okkar var grunnurinn í sýningunni Sjálfbæra heimilið í Sesseljuhúsi að Sólheimum sl. sumar.
Nýtt app Grænt kort – Suður úr kom úr smiðju Náttúrunnar á árinu. Í tilefni útgáfunnar kom Wendy Brawer frumkvöðull Green Green Map System greenmap.org til landsins og hélt fyrirlestur um grænkortagerð í Sesseljuhúsi og í Listasafni Árnesinga.
Appið Grænt kort – Suður og fór síðan í almenna dreifingu í byrjun desember. Appið er á fimm tungumálum og er ókeypist til niðurhals og tekur fyrir menningu, hagkerfi og náttúru á Suðurlandi. Áður hefur Náttúran gefið út Græn kort í prent- og vefútgáfum natturan.is/gm og öppin HÚSIÐ og umhverfið og Endurvinnslukortið.
Ná í appið Grænt kort - Suður fyrir iOS.
Fáum við til þess stuðning, munum við á nýju ári þróa Grænt kort í app útgáfu fyrir allt landið. Sótt hefur verið til styrks til þess frá Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.
Að lokum viljum við benda á að starfsemi Náttúrunnar byggist á því að við fáum til þess stuðning því allt sem við gerum er til ókeypis afnota fyrir almenning og byggt á þeirri, að okkar mati augljósu staðreynd, að uppfræðsla sem á að ná árangri byggi á óháðri gagnaöflun, hugmyndaríkri og listrænni framsetningu og nútímalegri miðlun.
Gleðilegt nýtt ár!
Guðrún Tryggvadóttir og Einar Bergmundur.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Einar Bergmundur „Áramótaspjall Náttúrunnar 2016“, Náttúran.is: Dec. 31, 2015 URL: http://nature.is/d/2015/12/30/aramotakvedja-natturunnar-2016/ [Skoðað:Dec. 11, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Dec. 30, 2015
breytt: Jan. 1, 2016