Landvernd kærir auglýsingar Norðuráls
Landvernd hefur kært til Neytendastofu auglýsingar Norðuráls sem lesnar hafa verið útvarpi og sjónvarpi yfir hátíðarnar og sambærilega en ítarlegri heilsíðuauglýsingu sem birtist í sérblaði Morgunblaðsins 31.10.15 Þar sem ísinn rymur (bls. 5) og e.t.v. víðar. Lesnu auglýsingarnar eru eitthvað á þessa leið: Það má endurvinna áldósir allt að hundrað sinnum. Álið okkar er einhver grænasti málmur í heimi. Norðurál.
Samtökin fara þess á leit að Neytendastofa hlutist til um að þessar auglýsingar verði stöðvaðar tafarlaust.
Rökstuðningur kæru:
Í nefndri auglýsingu í Mbl. og samlesnum auglýsingum á RÚV hafa verið settar fram ósannar, ófullnægjandi og villandi upplýsingar sem að mati samtakanna brjóta klárlega í bága við lög nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu (einkum 6., 9., 14. og 15. grein). ,
Í auglýsingum Norðuráls koma meðal annars fyrir eftirfarandi fullyrðingar sem samtökin gera athugasemdir við: “Málmur af norðurslóð” er röng eða í besta falli villandi fullyrðing. “Norðurál notar umhverfisvæna orku” er afar umdeild fullyrðing. Setningarnar “….málminn má endurvinna nánast endalaust” og “Það má endurvinna áldósir allt að hundrað sinnum” eru villandi í samhenginu. “Álið okkar…” er væntanlega með vísun í Norðurslóðir og Ísland (a.m.k. í heilsíðuauglýsingu) og er því villandi. “….er/sé einhver grænasti málmur í heimi” er ósönn fullyrðing.
Nánari rökstuðningur og útskýringar:
1. “Málmur af norðurslóð”.
Heilsíðuaglýsingin í Mbl. fjallar um álvinnslu Norðuráls. Ál (Al) er eitt algengasta frumefni Jarðarinnar. Hins vegar finnst það ekki í vinnanlegu magni nema í málmgrýtinu báxíti (bauxite) sem verður til við veðrun bergs í hitabeltisloftslagi. Báxít er unnið frekar í svokallað súrál sem er hráefni álveranna (sjá 5. lið). Árið 2011 flutti Norðurál inn tæplega 550.000 tonn af súráli, aðallega frá Texas, Jamaíku og Suður-Ameríku [1].
Fullyrðingin “Málmur af norðurslóð” er því röng. Þótt ál Norðuráls sé unnið úr súráli á Grundartanga er það allt upprunnið úr málmgrýti í hitabeltinu.
2. “Norðurál notar umhverfisvæna orku”
Þessi fullyrðing er í besta falli afar umdeilanleg. Íslensk raforka er unnin úr fallvötnum og jarðvarma eins og kunnugt er. Vatnsaflsvirkjanir krefjast oft mikilla umhverfisfórna, svo sem uppistöðulóna sem kaffæra gróðurlendi, stíflumannvirkja, raflína og upphækkaðara vega sem spilla landslagi og víðernum. Um umhverfisáhrif jarðvarmavirkjana þarf ekki að fjölyrða og ýmsir málsmetandi vísindamenn halda því fram að nýting háhita eins og hún hefur verið stunduð hér á landi sé í raun ágeng námuvinnsla [2].
Ekki er hægt að fullyrða frá hvaða virkjunum Landsvirkjunar Norðurál fær orku, en væntanlega að stórum hluta frá virkjunum á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Á því svæði eru m.a. annars Kvíslaveitulón, fimm talsins og samtals um 28 km2 að stærð. Kvíslaveitulón safna vatni úr upptakakvíslum Þjórsár sem ella mundu renna um Þjórsárver. Lónin og tilheyrandi stíflumannvirki hafa því spillt verðmætu votlendissvæði og eyðilagt umfangsmikil víðerni suðaustan Hofsjökuls, auk þess að draga úr rennsli fossa í efrihluta Þjórsár.
3. “…málminn má endurvinna nánast endalaust / Það má endurvinna hverja áldós allt að hundrað sinnum”
Það er rétt að ál er endurvinnanlegt. Hins vegar stundar Norðurál (eða önnur álver hér á landi) ekki endurvinnslu. Þau stunda frumvinnslu á áli úr súráli og hafa ekki sérstakan hag af endurvinnslu. Álbræðslur á borð við Norðurál hafa þvert á móti beinan hag af því að ál sé tekið út af markaðnum, sem sagt að það sé ekki endurunnið. Að því leyti eru þessar upplýsingar villandi og settar fram, að því er virðist, til að varpa huggulegu ljósi á fyrirtækið, sem ekki er innistæða fyrir.
Í BNA er ál urðað árlega sem nemur fjórföldum flugflota landsins og ársframleiðslu áls á Íslandi [3]. Með öðrum orðum, ef allar áldósir sem falla til í BNA væru endurnýttar hundrað sinnum, eins segir í auglýsingu Norðuráls, mætti loka álverum á Íslandi, miðað við núverandi framboð og eftirspurn áls í heiminum.
4. “Álið okkar…”
Hér getur lesandi heilsíðuauglýsingar auðveldlega fengið þá hugmynd, af því sem á undan kemur (vísan í norðurslóðir og Ísland), að með “okkar” sé átt við “okkur landsmenn”. Þetta er villandi og til þess gert, að því er virðist, að fá samúð almennings. Í fyrsta lagi er ál ekki íslenskur málmur (sjá 1. punkt). Í öðru lagi er Norðurál ekki (frekar en önnur álver á landinu) í eigu Íslendinga. Álverin nýta sér íslenska orku og íslenskt vinnuafl en samkvæmt nýlegum fréttum reyna a.m.k. sum þeirra að skuldsetja sig sem mest til að skilja hagnað eftir utan landsteinanna.
Íslendingar kaupa heldur ekki ál af Norðuráli, það er allt flutt út. Íslendingar eru því ekki neytendur Norðuráls nema í þeim skilningi að við sækjum þar vinnu og seljum orku til fyrirtækisins í gegnum opinbert orkufyrirtæki, Landsvirkjun. Norðurál stendur nú í erfiðum samningum við þetta sama fyrirtæki og hefur hag af því að fá samúð landsmanna til að bæta samningsstöðu sína.
5. “..sé einhver grænasti málmur í heimi”.
Þetta er alröng fullyrðing bæði í beinum og óbeinum skilningi og alvarleg blekking. Ál er ekki grænt heldur grátt eða silfurlitt. Það stenst heldur ekki skoðun að ál eða álvinnsla sé græn/hrein í þeim skilningi að framleiðsla þess sé umhverfisvæn, hvað þá að ál sé einhver umhverfisvænasti málmur í heimi.
Þvert á móti er álframleiðsla/álbræðsla gríðarlega orkufrekur iðnaður, einn allra orkufrekasti iðnaður sem um getur í heiminum. Álframleiðsla er enn fremur afar vatnsfrek og landfrek og frumvinnsla á báxíti og súráli, hráefni álverksmiðjanna, hefur gríðarleg umhverfisáhrif í þeim löndum þar sem það er unnið.
Miklar báxítnámur finnast í Ástralíu, Brasilíu, Kína, Indónesíu, Jamaíka, Rússlandi og Súrinam [4]. Margar þessara náma eru á landi sem þakið er hitabeltisskógi. Eðli málsins samkvæmt er þessum skógum eytt við vinnsluna [5]. Úr báxíti er unnið súrál í ferli sem nefnist Bayer ferli [6]. Í þessu ferli verður til hættulegur úrgangur, svokallaður rauður leir, sem er viðurkenndur umhverfisvandi vegna lútaráhrifa [7]. Árlega verða til um 77 milljónir tonna af rauðum leir við vinnslu súráls (sama heimild). Í fersku minni er umhverfisslysið í Kolontár í Ungverjalandi í október 2010 þegar um það bil ein milljón rúmmetra af rauðum leir flæddi úr þró og varð 10 manns að bana og mengaði stórt landsvæði [8].
Síðasti hlekkurinn í framleiðslukeðju áls, sjálf álbræðslan eins og stunduð er í álveri Norðuráls á Grundartanga, er líka langt frá því að vera umhverfisvæn. Álver Norðuráls losar um 500.000 tonn af koltvísýringi árlega og umtalsvert magn brennisteinssambanda og flúors sem bændur á þynningarsvæði álversins hafa haft miklar áhyggjur af að spilli heilsu búfjár [9].
Norðurál þarf að flytja inn yfir hálfa milljón tonna af súráli á hverju ári (sjá 1. lið). Leiðin sem flutningaskipin sigla, með tilheyrandi olíunotkun, er 6.000–9.000 km eftir framleiðslulandi. Mun skárri (umhverfisvænni) kostur væri að staðsetja álbræðslurnar í Mið- og Suður-Ameríku en á Íslandi; fyrr nefndu landsvæðin eru einnig rík af vatnsorku.
Í heilsíðuauglýsingu Norðuráls er vísað til þess að ál sé léttur málmur og að með notkun þess megi létta farartæki (og væntanlega draga úr orkunotkun) og bæta umbúðir. Fullyrðingin er rétt eins langt og hún nær en önnur efni geta gengt sambærilegu hlutverki eins og t.d. magnesíum, koltrefjar til að létta farartæki og gler í umbúðir.
Þegar allt ferli álvinnslu er skoðað er því fjarri sanni að unnt sé að fullyrða að ál sé “einhver grænasti málmur í heimi”.
Virðingarfyllst,
f. hönd Landverndar
Snorri Baldursson, formaður Landverndar.
[1] Guðrún Kristín Einarsdóttir 2012. Aðfanga- og afurðagreining á iðnaðarsvæði á Grundartanga, bls. 12. Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
[2] Stefán Arnórsson (ártal óþekkt). Eðli jarðhita – nýting og umhverfisáhrif; http://www.ramma.is/media/gogn/StefArn-Landvernd.pdf.
[3] Sjá t.d. http://www.mrra.net/wp-content/uploads/Why-Recycle.pdf.
[4] Sjá t.d.: https://en.wikipedia.org/wiki/Aluminium.
[5] Sjá t.d. myndir sem kalla má fram á Google með leitarorðunum “bauxite mining“.
[6] Sjá t.d.: http://en.wikipedia.org/wiki/Bayer_process.
[7] Sjá t.d.: https://en.wikipedia.org/wiki/Red_mud.
[8] David Gura, NPR. 5. október 2010. Toxic Red Sludge Spill From Hungarian Aluminum Plant 'An Ecological Disaster'.
[9] Sjá t.d. bréf Ragheiðar Þorgrímsdóttur, bónda á Kúludalsá, til Umhverfisstofnunar, dags 16. október 2015, birt á heimasíðunni: http://www.namshestar.is.
Birt:
Tilvitnun:
Snorri Baldursson „Landvernd kærir auglýsingar Norðuráls“, Náttúran.is: 30. desember 2015 URL: http://nature.is/d/2015/12/30/landvernd-kaerir-auglysingar-nordurals/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.