Veðurstofan hefur sent frá sér fárviðrisspá fyrir morgundaginn og hvetjum við alla að taka þá spá alvarlega og fylgjast vel með veðri og færð www.vedur.is og www.vegagerdin.is. Langt suður í hafi er nú lægð í myndun. Hún dýpkar með eindæmum hratt í nótt og er þrýstingi í miðju hennar spáð 944 mb seint annað kvöld og á hún þá að vera stödd suður af Reykjanesi. Á þeirri stundu verður 1020 mb hæðarhryggur skammt N af Scoresbysundi á austurströnd Grænlands og heldur hann á móti lægðinni. Saman valda þessi tvö veðrakerfi vindstyrk af styrk ofsaveðurs eða fárviðris yfir Íslandi. 

Stutt spá fyrir landið mánudaginn 7. desember
Hvessir á morgun og dregur úr frosti, fyrst sunnantil. Austan 20-25 og snjókoma sunnanlands eftir hádegi. Víða ofsaveður eða fárviðri á landinu um kvöldið, 25-35 m/s með slyddu eða snjókomu. Hiti um frostmark annað kvöld, en 0 til 5 stig sunnan heiða.

Viðvörun
Spáð er ofsaveðri eða fárviðri á landinu síðdegis á morgun og annað kvöld, fyrst S-lands.

Nánar um útlitið:
Fárviðrið skellur á sunnanvert landið eftir kl. 15 á morgun. Eftir kl. 19 má búast við ofsaveðri eða fárviðri um allt land. Með fylgir úrkoma og verður hún á formi snjókomu og því má búast við glórulausum byl. Búast má við miklu úrkomumagni um landið austanvert. Seint annað kvöld er útlit fyrir að það hlýni nægilega sunnantil á landinu til að úrkoma verði á formi slyddu eða rigningar. 

Til að setja væntanlegt veður í samhengi skal bent á að spáin fyrirv morgundaginn hljóðar uppá miklu verra veður en voru núna í vikunni sem er að líða (þriðjudag, föstudag, laugardag). Fylgist með frekari fréttum á www.facebook.com/almannavarnir

Ofsaveður eru 11 gömul vindstig (skali Beaufort) og er þá meðalvindhraði meiri en 28 m/s. Fárviðri eru 12 gömul vindstig og er þá meðalvindhraði meiri en 32 m/s. Sjá fróðleiksgrein (“Nöfn vindstiga og greining veðurhæðar”):
http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/1098


 Spá fyrir meðalvindhraða kl. 21 mánudaginn 7. desember. Rauðir, gulbrúnir og bleikir litir tákna hættulegasta vindinn. Vindaspá þessi er reiknuð af Veðurstofu Íslands með Harmonie veðurlíkaninu. Spáin uppfærist fjórum sinnum á sólarhring og má alltaf sjá nýjustu kortin á slóðinni:
http://www.vedur.is/vedur/spar/thattaspar/#teg=vindur

Birt:
6. desember 2015
Tilvitnun:
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra „Ofsaveðri spáð á morgun“, Náttúran.is: 6. desember 2015 URL: http://nature.is/d/2015/12/06/ofsavedri-spad-morgun/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: