Tómas Knútsson tekur við styrknum frá HB Granda úr hendi Vilhjálms Vilhjálmssonar forstjóra. Ljósm. HB Grandi: Kristján Maack.Fjallað var um þau ánægjulegu tíðindi á Víkurfréttum í gær að HB Grandi styrki Bláa herinn um eina milljón króna. Nú þegar það undarlega hátterni stjórnvalda er ríkjandi að skera allan stuðning til umhverfisstarf niður eða alveg upp við nögl er það því sérstaklega ánægjulegt að einstök fyrirtæki skuli stíga fram og sýna samfélagslega ábyrgð með þessum hætti.

Tómas Knútsson forsprakki Bláa hersins veitti styrknum viðtöku og sagði við það tilefni að hann hefði unnið sem sjálfboðaliði við hreinsun hafsins í um tuttugu ár og væri hvergi nærri hættur. Næsta verkefni væri að semja við sveitarfélög landsins um sérstakan hreinsunardag á rusli og þá sérstaklega plasti vítt og breitt um landið. Fyrir hvert kíló af plasti sem hreinsað væri úr umhverfinu myndi Skógrækt ríkisins leggja fram eina trjáplöntu sem sveitarfélögin gætu plantað. Með þessu væri hægt að sameina hreinsun á rusli og bindingu gróðurhúsalofttegunda eins og koltvísýrings.

Náttúran óskar Tómasi og okkur öllum til hamingju með vitundarvakninguna sem á sér nú stað varðandi hreinsun strandlengjunnar og ábyrgð okkar allra þegar kemur til tiltektar í umhverfinu.

 

Birt:
5. nóvember 2015
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „HB Grandi styrkir Bláa herinn“, Náttúran.is: 5. nóvember 2015 URL: http://nature.is/d/2015/11/05/hb-grandi-styrkir-blaa-herinn/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: