Landvernd fagnar því sérstaklega að náttúrvernd sé ein af sjö áhersluþáttum nýrrar ferðamálastefnu. Í stefnunni felst viðurkenning á því að náttúra landsins sé hornsteinn íslenskrar ferðaþjónustu og að náttúruvernd beri að efla. Í ljósi mikilvægis náttúruverndar fyrir ferðaþjónustuna telur Landvernd að fulltrúi náttúruverndarsamtaka ætti að eiga sæti í stjórn nýstofnaðrar stjórnstöðvar ferðamála, en með því aukist fagþekking og aðhald.

Ferðamálastefnan leggur meðal annars til að umsjá þjóðgarða, friðlýstra svæða og þjóðlendna verði verði á einni hendi innan stjórnkerfisins í stað þess að heyra undir þrjár ríkisstofnanir eins og segir í stefnunni. Þetta yrði til að  „tryggja skilvirka stjórnsýslu, tryggja að náttúruverndarsjónarmið njóti sín, skerpa á rekstrarforsendum, skapa sameiginlegt yfirbragð gagnvart gestum í náttúru Íslands og bæta upplifun ferðamanna“. Landvernd fagnar þessu sem fyrsta skrefi en spyr hvort ekki beri að ganga enn lengra í að sameina þá aðila sem fara með umsjá lands í ríkiseigu.

Stofnanirnar þrjár sem um ræðir eru Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarður og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum. Þessar þrjár stofnanir fara þó ekki með umsjón/vörslu alls lands í eigu ríkisins sem lauslega áætlað spannar um og yfir helming landsins. Landgræðsla ríkisins fer t.d. með umsjón landgræðslusvæða; Skógrækt ríkisins fer með umsjón þjóð- og verndarskóga; Umhverfisráðuneytið/Breiðafjarðarnefnd fer með friðun Breiðafjarðar; forsætisráðuneytið fer með umsjón þjóðlendna (ca. 30.000 km2); Minjastofnun Íslands fer með umsjón friðaðra fornminja, þ.m.t. gamalla þjóðleiða, verbúða og búsetulandslags og Fasteignir ríkissjóðs – Jarðaumsýslan með umsjón þjóðjarða og annarra ríkisjarða. Samtals eru þetta níu aðilar sem heyra undir þrjú ráðuneyti, auk Alþingis (sjá meðfylgjandi töflu).

Margar ofangreindra stofnana eru að vasast í sömu hlutum, svo sem að tryggja náttúru- og umhverfisvernd, skipuleggja umferð gesta og byggja innviði fyrir ferðamenn, leggja vegi og göngustíga, búa til fræðsluskilti og fræðsluefni– allar með ólíkum formerkjum (lógóum). Ljóst má vera að þetta verklag veldur miklum tvíverknaði og ruglingi meðal notenda og kemur í veg fyrir að hér byggist upp miðlæg þekking og samhæfing á sviði vörslu lands og eigna í eigu ríkisins. Alla þessa starfsemi ætti því skilyrðislaust að sameina.

Stjórnsýsla náttúruverndar hefur jafnan verið veik og sundruð á Íslandi. Það er líklega mikilvæg ástæða þess að málaflokkurinn hefur verið of utanveltu í kerfinu. Fyrstu náttúruverndarlög voru sett árið 1956 og Náttúruverndarráð, skipað embættismönnum (hagsmunaðilum) sett yfir náttúruvernd. Frá 1971 var Náttúruverndarráð kosið á fjölmennum náttúruverndarþingum. Árið 1997 var sérstök stofnun, Náttúruvernd ríkisins, sett á fót og starfaði hún til 2002 þegar hún var sameinuð Hollustuvernd ríkisins í Umhverfisstofnun (UST), sumir segja vegna andstöðu við byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Stærsta einstaka verkefni og framfaraskref á sviði náttúruverndar síðustu árin var stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs með sérlögum árið 2008. UST fer með almenn náttúruverndarmál, þ.e. undirbúning friðlýsinga og umsjón flestra náttúruverndarsvæða (svæðavernd), tegundavernd og fræðslu, en stofnunin sinnir afar víðfeðmu hlutverki og náttúruverndin hefur átt þar undir högg að sækja, m.a. vegna fjárskorts.

Birt:
7. október 2015
Höfundur:
Snorri Baldursson
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Snorri Baldursson „Fyrstu viðbrögð Landverndar við nýrri ferðamálastefnu“, Náttúran.is: 7. október 2015 URL: http://nature.is/d/2015/10/07/fyrstu-vidbrogd-landverndar-vid-nyrri-ferdamalaste/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: