Landvernd tekur undir orð formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands og fagnar afdráttarlausri yfirlýsingu forsætisráðherra á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um að Ísland hafi skuldbundið sig til að draga úr losun koltvísýrings um 40% fyrir árið 2030 miðað við árið 1990.

Landvernd treystir því að orð forsætisráðherra á leiðtogafundinum standi og að Ísland dragi úr losun sem þessu nemur en reyni ekki að semja sig frá þessu metnaðarfulla markmiði undir sameiginlegri regnhlíf Evrópusambandsins, eins og aðstoðarmaður hans og umhverfisráðherra hafa gefið í skyn.  

Landvernd bendir þó á að á sama tíma og forsætisráðherra lofar 40% samdrætti er ríkisstjórn hans leynt og ljóst að liðka fyrir og niðurgreiða uppbyggingu a.m.k. þriggja kísilvera hér á landi sem til samans munu losa vel yfir milljón tonn af koltvísýringi. Þar er um að ræða yfir 20% aukningu miðað við losun Íslands í dag, en hún er nú um 4,5 milljónir tonna á ársgrundvelli.

Losun frá stóriðju er vissulega í annarri skúffu en almenn losun frá t.d. samgöngum og sjávarútvegi, þ.e. í svokölluðu ETS viðskiptakerfi þar sem fyrirtæki fá úthlutað losunarheimildum og geta verslað með þær. En Landvernd bendir á þá augljósu staðreynd að um eitt og hið sama andrúmsloft er að ræða og að aukning koltvísýrings frá stóriðju er ekki síður skaðleg en sú sem kemur frá samgöngum eða öðrum mengunarvöldum.    

Landvernd telur því að um tvískinnung eða blekkingarleik sé að ræða varðandi stefnu ríkisstjórnarinnar í losunarmálum á meðan hún lýsir yfir sæmilega metnaðarfullum samdráttarmarkmiðum á alþjóðavettvangi en vinnur á sama tíma heima fyrir að uppbyggingu mjög mengandi stóriðju (PCC á Bakka, Thorsil og United Silicon í Helguvík). Ríkisstjórnin virðist þannig ætla að reyna að komast hjá því að taka af fullum heilindum þátt í lausn eins mesta vanda sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir, loftslagsbreytingum af manna völdum.

Birt:
29. september 2015
Höfundur:
Snorri Baldursson
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Snorri Baldursson „Ný stóriðja gerir lítið úr losunarmarkmiðum Íslands“, Náttúran.is: 29. september 2015 URL: http://nature.is/d/2015/09/29/ny-storidja-gerir-litid-ur-losunarmarkmidum-island/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: