Veikir umhverfisvernd á Ísland
Ákvörðun Skipulagsstofnunar er til þess fallin að veikja umhverfisvernd á Íslandi að mati Landverndar, en stofnunin álítur að Landvernd geti ekki farið fram á endurupptöku umhverfismats háspennulínu frá Kröflu að Bakka, og því verði krafa samtakanna frá í mars sl. ekki tekin fyrir efnislega. Landvernd heldur því fram að endurtaka þurfi umhverfismatið sem fram fór árið 2010 þar sem forsendur fyrir framkvæmdinni hafi gjörbreyst með tífalt minni orkuþörf á Bakka en áður var. Þar með þurfi að endurtaka umhverfismatið til að leita umhverfisvænni leiða við raforkuflutning, t.d. með lagningu jarðstrengja.
Umhverfisverndarsamtök sinna mikilvægu aðhaldshlutverki við stjórnvöld og fyrirtæki, þ.m.t. fyrirtæki sem láta vinna mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Með ákvörðun sinni dregur Skipulagsstofnun úr möguleikum umhverfisverndarsamtaka á að geta sinnt þessu hlutverki sínu. Í reynd neitar stofnunin Landvernd um efnislega afstöðu sína um hvort vinna ætti umhverfismatið aftur og því að leita umhverfisvænni leiða við flutning raforku á svæðinu.
Landvernd telur verulega annmarka á ákvörðun Skipulagsstofnunar. Í fyrsta lagi telur Landvernd vegið að rétti félagasamtaka sem tryggður sé í hinum alþjóðlega Árósasamningi og í öðru lagi lítur Skipulagsstofnun framhjá Hæstaréttardómi frá síðustu aldamótum sem kvað á um að aðili hafi hagsmuni af máli ef hann hefur látið sig málið varða með formlegum hætti á fyrri stigum máls. Í þessu tilfelli gerði Landvernd einmitt athugasemdir við upprunalegt umhverfismat og ætti því samkvæmt dómi Hæstaréttar að teljast hafa hagsmuna að gæta og geta farið fram á endurupptöku matsins.
Landvernd íhugar nú að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar. Ákvörðunina má finna á vefsíðu Landverndar: http://landvernd.is/Sidur/ID/6674/Veikir-umhverfisvernd-a-Island.
Birt:
Tilvitnun:
Guðmundur Ingi Guðbrandsson „Veikir umhverfisvernd á Ísland“, Náttúran.is: 14. september 2015 URL: http://nature.is/d/2015/09/14/veikir-umhverfisvernd-island/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.