Verðlaunagripurinn Jarðarberið eftir Finn Arnar Arnarson. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Dómnefnd hefur tilnefnt þrjá til fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem veitt verða á Degi íslenskrar náttúru, miðvikudaginn 16. september næstkomandi.

Tilnefnd til verðlaunanna eru Hallgrímur Indriðason, fréttamaður á RÚV, Iceland Review og þáttaröðin „Lífríkið í sjónum við Ísland“.  Rökstuðningur dómnefndar fyrir valinu er eftirfarandi:

Hallgrímur Indriðason, fréttamaður á RÚV, sem gerði hápólitísku deiluefni um virkjanakosti í Þjórsá ítarleg og góð skil í sjónvarpsfréttum 17. maí sl. Þar nálgaðist hann viðfangsefnið úr mismunandi áttum, gerði andstæðum sjónarmiðum jafnhátt undir höfði og nýtti margs konar möguleika sjónvarps í því skyni að upplýsa áhorfendur um áhrif umræddra kosta á náttúruna með skýrum og hlutlægum hætti. Fréttaskýringar um þjóðmál, þar sem nýttir eru mismunandi eiginleikar myndmiðilsins til að koma upplýsingum betur á framfæri, mættu að ósekju sjást oftar í sjónvarpi hér á landi.

Iceland Review, sem sagði frá eldgosinu í Holuhrauni í fjölda vandaðra og upplýsandi greina og með ljósmyndum sem komu hrikafegurð eldsumbrotanna og áhrifum þeirra á viðkvæma náttúru vel til skila við erlenda og innlenda lesendur. Iceland Review leitaði víða fanga við fréttaöflun og fjallaði um ýmis sjónarhorn sem síður sáust í dagblöðum og ljósvakamiðlum þótt framvindu gossins væri einnig fylgt eftir með hefðbundnum hætti. Umfjöllunin birtist í prentaðri útgáfu blaðsins sem og í hátt í 300 greinum á vef tímaritsins, ávallt á lipru og læsilegu máli.  

Þáttaröðin „Lífríkið í sjónum við Ísland“, sem tekin var til sýningar á sjónvarpsstöðinni N4, og er röð stuttra þátta ætluð til vekja athygli á fjölbreyttu náttúrulífi neðansjávar. Þáttagerðin er metnaðarfull, myndataka undir yfirborði sjávar og þulartexti spila vel saman, og þættirnir höfða jafnt til eldri aldurshópa sem yngri. Raunar hafa þeir vakið athygli langt út fyrir landsteinana. Erlendur Bogason, Heiðar Þór Valtýsson, Húni Húnfjörð og Pétur Halldórsson hafa í sameiningu unnið fróðlega og skemmtilega sjónvarpsþætti um lífríki í einstakri náttúru, allt frá smæstu lífverum til þeirra stærstu, sem að öðrum kosti væri flestum hulinn heimur.

Verðlaunagripinn, Jarðarberið, hannaði Finnur Arnar Arnarson.

Í dómnefnd sitja Þór Jónsson formaður, Árni Gunnarsson og Snæfríður Ingadóttir.


    Tengdir viðburðir

  • Dagur íslenskrar náttúru

    Staðsetning
    Óstaðsett
    Hefst
    Miðvikudagur 16. september 2015 00:00
    Lýkur
    Miðvikudagur 16. september 2015 23:59
Birt:
14. september 2015
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Tilnefningar til fjölmiðlaverðlauna á Degi íslenskrar náttúru“, Náttúran.is: 14. september 2015 URL: http://nature.is/d/2015/09/14/tilnefningar-til-fjolmidlaverdlauna-degi-islenskra/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: