Dagur íslenskrar náttúru nálgast
Undirbúningur vegna Dags íslenskrar náttúru, sem haldinn er hátíðlegur 16. september ár hvert, stendur nú sem hæst. Upplýsingar um viðburði, verkefni og uppákomur sem efnt er til í tilefni dagsins má senda á umhverfis- og auðlindaráðuneytið og verða þær þá birtar á heimasíðu dagsins á vef ráðuneytisins.
Þetta er í fimmta sinn sem dagurinn er haldinn hátíðlegur og hafa æ fleiri stofnanir, félagasamtök, sveitarfélög, skólar, fyrirtæki og einstaklingar haft daginn í huga í sinni starfsemi. Líkt og áður efnir umhverfis- og auðlindaráðherra til hátíðarsamkomu þar sem fjölmiðlaverðlaun ráðuneytisins og Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti verða afhent.
Að þessu sinni beinir umhverfis- og auðlindaráðuneytið athyglinni sérstaklega að þeim stöðum og fyrirbærum í íslenskri náttúru sem hver og einn hefur hvað mest dálæti á. Öll eigum við okkar óskastaði, hvort sem það er tjörn í túnfætinum heima, lundur í íslenskum skógi, fjall sem býður einstakt útsýni, friðlýst svæði, þjóðgarður eða leynistaður sem geymir ljúfar minningar og leyndarmál. Hver sem staðurinn er þá endurspeglar hann þá staðreynd að íslensk náttúra er órjúfanlegur hluti sjálfsmyndar okkar Íslendinga.
Í tengslum við Dag íslenskrar náttúru er hvatt til þess að fólk deili sögum og jafnvel myndum sem tengjast óskastöðum og eftirlætisfyrirbærum þeirra í íslenskri náttúru. Notast verður við myllumerkin #stadurinnminn og #DÍN á samfélagsmiðlum í því sambandi. Þar skipta staðsetningar staða eða náttúrufyrirbæra ekki höfuðmáli heldur getur frásögn eða mynd af ónefndum stað þjónað sama tilgangi, sem er að beina sjónum að því hversu margbreytileg íslensk náttúra er og hversu fjölbreytt upplifun okkar er á því sem hún hefur fram að bjóða.
Upplýsingar um viðburði má senda á netfangið bergthora.njala@uar.is. Verður þeirra þá getið á heimasíðu Dags íslenskrar náttúru á www.uar.is
-
Dagur íslenskrar náttúru
Tengdir viðburðir
Birt:
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Dagur íslenskrar náttúru nálgast“, Náttúran.is: 2. september 2015 URL: http://nature.is/d/2015/09/02/dagur-islenskrar-natturu-nalgast/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.