Býfluga á fífli. Ljósm. Einar Bergmundur.Hlýnun í lofthjúpi jarðar er ástæða þess að stofnar býflugna hrynja í Evrópu og Norður-Ameríku. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem birtist nýlega í vísindatímaritinu Science.

Með hækkandi hitastigi hafa norðuramerískar og evrópskar býflugur fært sig norðar á bóginn. Nyrðri jaðar heimkynna býflugnanna hefur þó ekki þokast norðar, heldur dreifast nú býflugurnar á þrengra svæði en nokkru sinni fyrr.

Rannsóknarhópurinn sem stendur að fræðigreininni hefur kannað fækkun í býflugnastofnum en býflugur gegna mikilvægu hlutverki í frjóvgun og viðgangi fjölmargra blómategunda. Rannsakendur lögðu til grundvallar yfir 400.000 mælingar á stofnstærð og dreifingu býflugnategunda í Norður-Ameríku og Evrópu á árabilinu 1975-2010. Í ljós kom að hvorki notkun skordýraeiturs né breytingar í landnýtingu og ræktun höfðu teljandi áhrif á býflugurnar, heldur er hnattrænni hlýnun um að kenna.

Í forsvari fyrir hópinn er Jeremy Kerr sem rannsakar líffræðilegan fjölbreytileika og starfar við háskólann í Ottawa í Kanada. Lesa má umfjöllun tímaritsins Science hér.

Birt:
10. júlí 2015
Höfundur:
Rúv
Tilvitnun:
Rúv „Býflugur í kreppu vegna hlýnunar“, Náttúran.is: 10. júlí 2015 URL: http://nature.is/d/2015/07/10/byflugur-i-kreppu-vegna-hlynunar/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: