Ferlill hrunsins niður fjallshlíðinaIngólfsfjall austanvert er einna þekktast fyrir stórgrýtisurð sunnarlega á Biskupstungnabrautinni hvar inn á milli bjarganna stendur lítill sumarbústaður sem kaldhæðnir leiðsögumenn segja trúgjörnum ferðamönnum að maður einn hafi gefið tengdamóður sinni. Betri heimildir herma reyndar að vissulega sé eigandi hússins tengdamóðir en hafi sjálf fest kaup á húsinu. 

Þótt björgin sem umkringja bústaðinn séu flest búin að liggja þarna um nokkurt skeið og safni mosa og skófum þá má sjá nokkur nýrri. Sum þeirra eiga ferðalag sitt og áfangastað jarðskjálftum 2000 og 2008 að þakka. Þá féllu allnokkur björg og stórgrýti og smærra grjót úr fjallinu bæði að austan og vestan. 

Sárið í bergstálinuEn það þarf ekki umbrot til. Á vorin fellur oft úr fjallinu í kjölfar leysinga, sama getur gerst í miklum vatnsveðrum og á haustin þegar frost sprengir raka í sprungum. Víða í klettabeltinu má sjá sár þar sem bergið er ljósara og óveðrað eftir að steinar eða björg hafa fallið. Fjallið er víðast hvað bratt á þessum slóðum og grjótið fellur með miklum hraða og látum. Stundum splundrast stærri steinar og hendast í ýmsar áttir. 

Eitt slíkt, af sæmilegri stærð féll nýverið í landi Alviðru rétt ofan við skógrækarreit sem er við upplýsingastæði sem mörgum er kunnugt. Hér fylgja nokkrar myndir sem Einar Bergmundur tók af þessu nýlega hruni. Sumir steinarnir á stærð við smájeppa og aðrir minni sem skoppað hafa inn í miðja skógræktina og endað ekki svo ýkja langt frá þjóðveginum.

Stærsti molinn, rétt ofan við skóginnÞað er því vert að benda göngufólki á þessa hættu, en í Alviðru eru vinsælar leiðir til gögnu og þar er leið upp á Ingólfsfjall. Sú leið er á nokkuð tryggara svæði en hlíðarnar sunnar sem liggja undir miklu, háu og sprungnu klettabelti. 

Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra varaði í dag við að margt benti til þess að spenna væri að safnast upp á SV horninu sem gæti losnað í skálfta af stærð á borð við skjálftana 2000 og 2008 eða allt að 6,5 stig.

Grjót sem fallið hefur inn í skóginn, önnur smærri er nær veginum

Birt:
June 19, 2015
Höfundur:
Einar Bergmundur
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Tröllin spila keilu“, Náttúran.is: June 19, 2015 URL: http://nature.is/d/2015/06/19/trollin-spila-keilu/ [Skoðað:Jan. 20, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: