Plastmengun á sjávarströnd.Sameinuðu þjóðirnar og Samtök  fyrirtækja í sjávarútvegi  taka höndum saman um umræður og sýningu kvikmyndar um plastmengun í sjónum.

70 milljónum plastpoka er hent hér á landi á hverju ári og má gera ráð fyrir að verulegur hluti þeirra lendi fyrr eða síðar í sjónum. Að meðaltali er hver plastpoki notaður einu sinni  í 25 mínútur en það getur tekið allt að fimm hundruð ár fyrir plastið að brotna algjörlega niður.

Plastmengun í sjónum er efni klukkustundarlangrar heimildarmyndar, Plaststrendur (Plastic shores) sem verður sýnd í Bíó Paradís á alþjóðlegum degi hafsins, 8. júní klukkan átta,  og er aðgangur ókeypis. Umræður verða á eftir myndinni með þátttöku meðal Egils Helgasonar, sjónvarpsmanns, Hrannar Ólínu Jörundsdóttur, doktors í umhverfisefnafræði og verkefnisstjóra hjá MATÍS, Karenar Kjartansdóttur, upplýsingafulltrúa Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Árna Snævarr, upplýsingafulltrúa Sameinuðu þjóðanna.

Umhverfisspjöll af völdum plastmengunar eru gríðarleg. Við Norðursjó finnst plast  í maga 94% fugla. Búast má við að í höfunum sé nú um eitt kíló af plasti fyrir hver þrjú kíló af fiski og óumflýjanlega mun eitthvað af þessu enda á okkar diski. Plastagnir geta fundið sér leið inn í vefi líkamans.

Í landsáætlun um meðhöndlun úrgangs á Íslandi fyrir árin 2013–2024  kemur fram að ætla megi að um 70 milljónum plastpoka sé fleygt á hverju ári hér á landi en það eru um 1.120 tonn og  til þess að framleiða þennan fjölda poka þarf um 2.240 tonn af olíu. En plast virðir hvorki landamæri né lögsögu ríkja og okkur stafar ekki síður hætta af plastmengun annara ríkja en okkar eigin. Talið er að árlega endi átta milljarðar plastpoka í ruslinu í Evrópu sem hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir lífríkið. Hafstraumar hafa smalað plastögnum úr plastpokum og ýmsu öðru í gríðarstóra fláka sem hringsnúast á Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi.

Evrópuþingið hefur nýverið samþykkt harðar aðgerðir sem miða að því að minnka notkun þunnra plastpoka sem valda mestri mengun, ýmist með banni eða álagningu gjalda. Bergþóra Njála Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Umhverfisráðuneytisins segir að þetta falli undir málefnasvið EES samningsins og því muni breytingar á þessari löggjöf hafa áhrif hér heima en útfærslan er í höndum einstakra ríkja.

UNRIC, Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) standa að sýningu myndarinnar og er aðgangur sem fyrr segir ókeypis.


Birt:
5. júní 2015
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Eitt kíló af plasti fyrir þrjú kíló af fiski“, Náttúran.is: 5. júní 2015 URL: http://nature.is/d/2015/06/05/eitt-kilo-af-plasti-fyrir-thrju-kilo-af-fiski/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: