Náttúran.is á 8 ára tilvistarafmæli
Í dag, á Degi umhverfisins 2015 fagnar Náttúran.is átta ára afmæli sínu en vefurinn var opnaður af þáverandi umhverfisráðherra Jónínu Bjartmars við athöfn Dags umhverfisins að Kjarvalsstöðum þ. 25. apríl árið 2007. Þá þegar hafði beinn undirbúningur staðið frá janúar 2004 þegar Guðrún Tryggvadóttir fór á Brautargengisnámskeið til að gera viðskiptaáætlun fyrir umhverfisvef sem hafði þá þegar verið að sveima um á hugmyndasviðinu í tvö ár.
Náttúran.is lausnamiðuð upplýsingaveita og fréttamiðill fyrir allt sem tengist náttúru og umhverfi á einhvern hátt. Fyrir stofnun vefsins hafði gríðarleg þörf myndast fyrir baráttumiðil sem bæri fyrst og fremst hag náttúrunnar og umhverfisins fyrir brjósti, væri talsmaður umhverfisins. Því hlutverki hefur vefurinn sinnt dag frá degi í 8 ár og birt um 13 þúsund greinar um málefni tengd umhverfinu auk þess að þróa ýmis stafræn tól og tæki til að upplýsa og fræða almenning um umhverfismál.
Ljóst er að vefurinn hefur haft gríðarleg áhrif á samfélagið á Íslandi og fært umhverfismál úr skúmaskotum og upp á svið. Hvatning til minni losunar gróðurhúsalofttegunda er það sem að allt snýst um án þess að verið sé sífellt að segja það beinum orðum enda eru neikvæð skilaboð ekki það sem hvetur fólk til sparsamra og skynsamlegra aðgerða heldur hvatning og lausnir.
Lausnir okkar eru fjölmargar, t.d. Græna kortið, Húsið í vef- og app-útgáfum (iOS og Android), Endurvinnslukortið í vef- og app-útgáfu (iOS), Grænvarp og fréttir, Endurvinnslukort sveitarfélaganna er nýjasta þróun okkar en nú þegar hafa fjögur sveitarfélög fengið sitt eigið Endurvinnslukort þróað fyrir sitt svæði, þ.e. Djúpavogshreppur, Breiðdalshreppur, Dalabyggð og Hveragerðisbær. Við stefnum að því að öll sveitarfélög landsins taki þátt og geri upplýsingar um sín svæði aðgengileg á samræmdan hátt í gegnum Endurvinnslukortið.
Náttúran.is mun halda áfram að standa vaktina og ekki gefa neitt eftir þegar kemur að baráttunni um verndun náttúrunnar og ástundun umhverfisuppfræðslu til Íslendinga jafnt sem erlendra ferðamanna. Í þróun eru nokkrir nýir liðir sem við munum kynna þegar þeir verða tilbúnir.
Til hamingju með afmælið!
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Náttúran.is á 8 ára tilvistarafmæli“, Náttúran.is: 25. apríl 2015 URL: http://nature.is/d/2015/04/24/natturan-8-ara-tilvistarafmaeli/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 24. apríl 2015
breytt: 25. apríl 2015