Erling Ólafsson skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands mun flytja erindið Hvað er að bögga okkur – Pöddupúlsinn tekinn á þjóðinni á Hrafnaþingi miðvikudaginn 22. apríl kl. 15.15.

Í erindinu verður fjallað um hvaða smádýr eru einna helst að bögga íslenska þjóð en svar við spurningunni má finna í gögnum sem haldið er til haga á Náttúrufræðistofnun Íslands. Þegar Erling Ólafsson kom til starfa í byrjun árs 1978 fór þess strax að gæta að pöddur voru umtalsvert áhyggjumál úti í samfélaginu. Fólk fór að sækja stofnunina heim með pöddur sínar í krukkum til að leita úrlausna á vandamálum sem það tengdi þeim. Vandamálin voru oft meint en stundum raunveruleg. Fljótlega var farið aða halda til haga upplýsingum um afgreiðslur pöddumála.

Lagðar eru til grundvallar gagnaskráningar 25 ára tímabils, 1989 til 2014, alls 16.381 færsla. Gerð verður grein fyrir þeim hvötum sem hafa dregið fólk til Náttúrufræðistofnunar með pöddur sínar. Gögnin verða skoðuð frá ýmsum sjónarhornum. Sýnt verður hvernig fyrirspurnir dreifast á sveitarfélög og landshluta, ár og mánuði. Algengustu tegundir verða kynntar, einnig allir ættbálkar smádýra sem koma við sögu og hvaða tegundir þeirra eru algengastar.

Fjöldi tegunda kemur við sögu. Sumar eru raunveruleg vandamál, aðrar saklausari. Margar þykja forvitnilegar og aðdáunarverðar og kemur fólk með slíkar til að fræðast. Einnig er ljóst að margir bera hlýhug til stofnunarinnar og leggja á sig ferðalög og fyrirhöfn til þess eins að færa forvitnilegar gjafir. Stofnunin stendur í þakkarskuld við margan velvildarmanninn.
Óhætt er að fullyrða að efni fyrirlestursins ætti að höfða til margra því hérlendis þykja pöddur í híbýlum almennt litlir aufúsugestir. Einnig hefur áhugi á smádýrum aukist verulega á undanförnum árum. Mikill fjöldi fólks liggur að baki þessu gagnasafni sem kynnt verður, ýmist með heimsóknum til Náttúrufræðistofnunar, fyrirspurnum í síma eða tölvupóstum.

Hrafnaþing er haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ, í Krummasölum á 3. hæð, kort


Birt:
21. apríl 2015
Tilvitnun:
Náttúrufræðistofnun Íslands - NÍ - Garðabæ „Hrafnaþing - Pöddupúlsinn tekinn á þjóðinni“, Náttúran.is: 21. apríl 2015 URL: http://nature.is/d/2015/04/21/hrafnathing-poddupulsinn-tekinn-thjodinni/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: