Komið þið sælir kæru náttúruunnendur!

Gunnsteinn Ólafsson tónlistarmaður er einn níumenninganna sem seint á síðasta ári voru dæmdir fyrir mótmæli við vegalagningu í Gálgahrauni, í október 2013. Þessar vikurnar segir hann frá því hér í Grænvarpi Náttúran.is hvers vegna hann tók þátt í mótmælum við vegagerð gegnum hraunið, aðgerðunum, framkomu lögreglu, fangelsisvist, dómnum og áfrýjun til Evrópudómstólsins.

Nú segir hann okkur frá ljúgvitni gegn sér og hagræddum framburði.  Ægivaldi 19.greinar lögreglulaganna og litlum áhrifum Árósasamakomulagsins og hvernig er að þurfa að mæta fyrir dóm.

Útdráttur úr viðtalinu

Gálgahraun með áformuðum vegleiðum í gegnum hraunið.Að fá á sig ákæru og þurfa að mæta fyrir dóm tekur á, segir Gunnsteinn. Nóttina áður en ég átti að svara fyrir mig svaf ég ekki neitt því ég var að undirbúa málsvörnina. Við vorum með frábæra verjendur en réttarhöldin voru bara sjónarspil. Það var aldrei ætlunin að hlusta á okkur né taka tillit til málstaðar okkar. Tveir lögreglumenn vitnuðu gegn mér, annar mundi ekkert eftir handtökunni, bullaði bara og lýsti annari handtöku, hinn mundi eftir henni og sagði rétt frá. Í dómnum segir að báðir lögreglumennirnir hafi verið sammála. Þarna var fyrst borið ljúgvitni gegn mér og síðan hagræddi dómarinn framburðinum.

Það má ekki mótmæla lögreglunni og ekki  reyna að verja náttúruna, ef við reynum það aftur fáum við þyngri dóm var okkur sagt. Við ætlum að áfrýja og höfum því ekki farið í 8 daga fanglesi né borgað 100.000 krónu sekt eins og dómsorðið hljóðaði upp á. Til greina kemur að fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu sem prófmál varðandi náttúruvernd. Það er í skoðun. Í stjórnarskránni segir að hver maður eigi rétt á að vera með friðsamleg mótmæi. Allir nema dómarinn eru sammála um að mótmæli okkar hafi verið friðsamleg. Samkvæmt  dómnum virtum við ekki 19. grein lögreglulaga. Svo virðist sem lögreglan geti tekið völdin á Íslandi í skjóli þessarar greinar, þú átt að gegna lögreglunni, sama hvaða aðstæður koma upp. Ef lögreglustjóri segir „ég ræð yfir Íslandi“ þá áttu að hlýða samkvæmt 19. greininni, svo í raun er hér lögregluríki.

Ég held að flestir sem haldi í svona baráttu leggi sig fram einu sinni svo verða aðrir að taka við. Það skiptir máli að finna að þú sért ekki einn og aðrir fylgi á eftir. Mér finnst Guðmundarnir tveir (Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Guðmundur Hörður Guðmundsson) hjá Landvernd hafa staðið sig vel og vera mjög málefnalegir. Ég vona að almenningur vakni til vitundar um að við þurfum að vernda þetta land, vera vakandi og láta ekki svona bull henda aftur.

Lögreglur og grafa í Gálgahrauni. Ljósm. frá Hraunavinum.Sumum finnst landsvæði sem laða að ferðamenn skipta meira máli en t.d. Gálgahraun. Öll náttúra landsins skiptir máli og samkvæmt náttúruverndarlögum njóta eldhraun sérstakrar verndar. Það tókust á tvær lagagreinar en 19. grein lögreglulaga virðist alltaf ráða svo meira að segja stjórnarskráin víkur fyrir henni.

Varðandi Árósarsamninginn þá hefur hann ekki virkað hér á landi. Honum var ætlað að tryggja rétt náttúruverndarsamtaka til að láta umhverfismál til sín taka. Þegar við höfum sent inn fyrirspurninir, kvartanir eða kærur hafa mál okkar ekki verið tekin til efnislegrar skoðunar því okkur sagt að við eigum ekki aðild að málinu.
Hæstiréttur komst að því að samkomulagið væri réttilega innleitt hér, umhverfissamtök geti farið með kærumál sín stjórnsýsluleiðina en ekki fyrir dómstóla. Íslensk yfirvöld ákváðu að innleiða Árósarsamninginn þannig. Innleiðingin er því mismunandi eftir ríkjum á EES-svæðinu. ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) segir þetta réttan skilning hjá Hæstarétti. Við sjáum ekki að stjórnsýsluleiðin sé fær, okkur er enn alltaf sagt að við höfum ekki rétt til að skipta okkur af. Við neyðumst til þess að fara stjórnsýsluleiðina en ef hún ber ekki árangur verðum við bara að gera uppreisn, segir Gunnsteinn Ólafsson að lokum.

Steinunn Harðardóttir.

Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar styrkir þáttagerðina.

Hlusta á þáttinn.

Tengdar hjóðupptökur:

Gunnsteinn Ólafsson IV


Birt:
25. mars 2015
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Með náttúrunni – Gunnsteinn Ólafsson í eldlínunni - 4. þáttur“, Náttúran.is: 25. mars 2015 URL: http://nature.is/d/2015/03/22/med-natturunni-gunnsteinn-olafsson-i-eldlinunni-4-/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2015
breytt: 25. mars 2015

Skilaboð: