Vatnsveður og stormur
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vill vekja athygli á að búist er við tveimur kröppum lægðum upp að landinu frá föstudagsmorgni fram á laugardagskvöld. Spáð er suðaustan stormi eða roki á morgun (SA 20-25 m/s) en sunnan roki eða ofsaveðri á laugardag (S 25-30 m/s). Mikið vatnsveður fylgir þessum lægðum og hefur verið gefin út sérstök viðvörun þess efnis.
Miðað við þessa veðurspá verður lítið ferðaveður á landinu S- og V-verðu á morgun, bæði vegna veðurhæðar og úrkomu. Á laugardag er ekkert ferðaveður um allt land fram á kvöld.
Viðvörun
Búist er við stormi eða roki, meðalvindhraða 20-25 m/s, víða á landinu á morgun, föstudag. Útlit er fyrir ofsaveður um vestanvert landið á laugardag, en stormi eða roki austantil.
Varað er við mikilli úrkomu og leysingum á Suðaustur- og Suðurlandi á morgun, en um allt land á laugardag. Þar sem mikill nýlega fallinn snjór er víða um land má búast við vatnsflóðum, krapaflóðum og aurflóðum í þessum aðstæðum sem geta skapast á nokkurra ára fresti. Einnig ber að hafa í huga hættuna á votum snjóflóðum.
Veðurspáin fyrir morgundaginn, 13. mars er svohljóðandi:
Vaxandi suðaustanátt með morgninum, 18-25 m/s S- og V-til síðdegis, en 15-23 A-lands annað kvöld. Slydda og síðar rigning, þar af talsverð eða mikil um landið S-vert. Dregur úr vindi og úrkomu annað kvöld, fyrst fyrir vestan. Hlýnar seinni partinn, hiti 3 til 8 stig annað kvöld.
Athugasemdir veðurfræðings:
Í kvöld er búist við stormi (meðalvindur yfir 20 m/s) syðst, en víða um land á morgun. Búist er við mikilli úrkomu S- og SA-lands næstu tvo daga. Á laugardaginn er von á enn verra veðri á öllu landinu, frá laugardagsmorgni þar til síðdegis. Ferðalög á milli landshluta geta því verið varasöm.
Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Veðurstofunnar www.vedur.is
Birt:
Tilvitnun:
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra „Vatnsveður og stormur“, Náttúran.is: 12. mars 2015 URL: http://nature.is/d/2015/03/12/vatnsvedur-og-stormur/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.