Reykjavík býður heimsins bestu Farfuglaheimili
Farfuglaheimilið Loft í Bankastræti og Fafuglaheimilið á Vesturgötu hlutu á dögunum viðurkenningu alþjóðasamtaka Farfuglaheimila fyrir að hafa verið valin bestu Farfuglaheimili í heimi árið 2014.
Það eru gestir heimilanna sem bókuðu þjónustu sína á bókunarvél samtakanna sem standa fyrir valinu.
Alls eru um 2500 Farfuglaheimili um allan heim bókanleg á vefnum og því er hér um einstakan árangur að ræða. Loftið lenti í fyrsta sæti og Vesturgatan fylgdi fast á eftir. Þetta er í fyrsta sinn sem tvö Farfuglaheimili frá sama landi komast á topp 3 listann yfir bestu Farfuglaheimili í heimi þó svo alltaf hafi þau verið ofarlega.
Auk þess fengu heimilin viðurkenningar fyrir góðan árangur í einstökum flokkum sem gestir gátu látið skoðun sína í ljós. Þessi flokkar eru vinalegasta Farfuglaheimilið, það þægilegasta og það mest umhverfisvæna.
Á þessu ári eru 20 ár síðan íslensk Farfuglaheimili fóru að vinna eftir sérstöku gæðakerfi og er þessi glæsilegi árangur m.a. afrakstur þess starfs. En vinningsheimilin hafa þó gengið mun lengra því bæði eru þau Svansvottuð og vinna samkvæmt HIQ, gæðakerfi alþjóðasamtaka Farfugla.
„Verðlaunin eru viðurkenning á að vel hafi tekist upp við hönnun og þjónustu á heimilunum en einnig til handa einstöku starfsfólki, sem gerir miklar faglegar kröfur til sín og nýtur þess að taka á móti gestum af alúð“ segir Sigríður Ólafsdóttir, rekstrarstjóri Farfuglaheimilanna í Reykjavík.
Farfuglar vilja þakka fyrir sig með því að bjóða öllum á veglega tónleikadagskrá Loftsins um næstu helgi. Dagskráin verður kynnt á www.hostel.is og á Facebook Loftsins: Loft Hostel.
Birt:
Tilvitnun:
Sigríður Ólafsdóttir „Reykjavík býður heimsins bestu Farfuglaheimili“, Náttúran.is: 17. febrúar 2015 URL: http://nature.is/d/2015/02/17/reykjavik-dur-heimsins-bestu-farfuglaheimili/ [Skoðað:22. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.