Óskað eftir verkefnum frá varðliðum umhverfisins
Óskað er eftir verkefnum til þátttöku í hinni árlegu verkefnasamkeppni, Varðliðum umhverfisins. Þetta er í 9. sinn sem samkeppnin er haldin meðal grunnskólabarna í 5. til 10. bekk. Markmið keppninnar er að hvetja ungt fólk til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði.
Að verkefnasamkeppninni standa umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Landvernd og Náttúruskóli Reykjavíkur.
Skilafrestur verkefna er til 27. mars 2015 og þau skal senda umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík, merkt ,,Varðliðar umhverfisins”. Dómnefnd skipuð fulltrúum umhverfis- og auðlindarráðuneytisins, Landverndar og Náttúruskóla Reykjavíkur velur úr innsendum verkefnum og tilnefnir Varðliða umhverfisins.
Verkefnin mega vera af fjölbreyttum toga, t.d. ritgerðir, ljósmyndir, ljóð, veggspjöld, bæklingar, myndbönd og hljóðverk. Í stuttu máli er frjálst að skila inn verkefnum í hvaða formi sem er svo lengi sem þau eru sannarlega unnin af nemendunum sjálfum og umfjöllunarefni þeirra eru umhverfismál í víðum skilningi þess orðs.
Samkeppnin er kjörið tækifæri fyrir nemendur og kennara að koma á framfæri verkefnum sem þeir fyrrnefndu hafa þegar unnið í skólanum því ekki er skilyrði að verkefnin séu sérstaklega unnin fyrir samkeppnina.
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, útnefnir Varðliða umhverfisins við hátíðlega athöfn í tengslum við Dag umhverfisins, 25. apríl en auk þess fá varðliðarnir glaðning í formi upplifunar af einhverju tagi í samráði við skóla þeirra. Allir þátttakendur í verkefninu fá viðurkenningarskjal.
Í fyrra voru nemendur í Hvolsskóla útnefndir Varðliðar umhverfisins fyrir mælingar sem sjöundu bekkingar hafa gert á jökulsporði Sólheimajökuls frá árinu 2007 með hjálp GPS punkta.
Nánari upplýsingar um keppnina eru á heimasíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Óskað eftir verkefnum frá varðliðum umhverfisins“, Náttúran.is: 12. febrúar 2015 URL: http://nature.is/d/2015/02/12/oskad-eftir-verkefnum-fra-vardlidum-umhverfisins/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.