Kind við Kjalveg. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Ný dýravelferðarlög tóku gildi á Íslandi á síðasti ári. Undanfarið hafa velferðarreglugerðir verið gefnar út koll af kolli en þær segja til um hvernig dýravelferðarlögin eru útfærð m.t.t. hverrar dýrategundar fyrir sig. Með útgáfu þessara reglna skapast heildarmynd af því hvernig hlúið skal að dýrum á Íslandi og hvernig því skuli framfylgt. Í tilefni af þessum tímamótum boðar Matvælastofnun, í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Landbúnaðarháskóla Íslands, Bændasamtök Íslands, Dýralæknafélag Íslands og Dýraverndarsamband Íslands, til ráðstefnu um nýju dýravelferðarlögin og reglugerðirnar mánudaginn 23. febrúar kl. 9-15 í Ásgarði á Hvanneyri.

Nýtt regluverk markar tímamót í sögu dýravelferðar á Íslandi. Markmið laganna „er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“ Á ráðstefnunni verður farið yfir helstu ákvæði laganna, framkvæmd þeirra og þýðingu fyrir dýr og dýraeigendur.

Ráðstefnugestum gefst m.a. kostur á að sitja málstofur um hverja dýrategund fyrir sig þar sem viðkomandi velferðarreglugerð verður til umræðu (alifuglar, geit- og sauðfé, hross, minkar, nautgripir og svín). Markmiðið er að upplýsa og hvetja til gagnvirkra umræðna til að ná fram sem flestum sjónarmiðum.

Ráðstefnan er haldin í Ásgarði (Ársal) á Hvanneyri mánudaginn 23. febrúar 2015 kl. 9:00-15:00. Ráðstefnan er opin öllum og er þátttakendum að kostnaðarlausu en hægt verður að fá veitingar gegn vægu verði í mötuneyti skólans. Skráning fer fram á netfanginu skraning@mast.is til 19. febrúar. Vinsamlega takið fram nafn, fyrirtæki/stofnun/samtök og netfang, ásamt þeirri málstofu sem þið viljið taka þátt í. Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast í ítarefninu hér að neðan. Ef þú lætur dýravelferð þig varða, ekki láta þá þennan viðburð framhjá þér fara.     

Ný lög um dýravelferð.
Ný lög um búfjáreftirlit.


Birt:
6. febrúar 2015
Höfundur:
Matvælastofnun
Tilvitnun:
Matvælastofnun „Tímamót í dýravelferð“, Náttúran.is: 6. febrúar 2015 URL: http://nature.is/d/2015/02/05/timamot-i-dyravelferd/ [Skoðað:2. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 5. febrúar 2015
breytt: 16. febrúar 2015

Skilaboð: