Vindmillurnar í Þykkvabæ. Ljósm. Einar Bergmundur.Í Fréttablaðinu í dag er í forsíðufrétt fjallað um að verkefnisstjórn rammaáætlunar skuli fjalla um vindorkuver, og aðra óhefðbundna orkukosti, þvert á álit Orkustofnunar. Innan við 30 virkjunarkostir sem Orkustofnun sendi verkefnisstjórninni verða teknir til skoðunar.

Þar segir:

Þvert á það sem haldið hefur verið fram falla vindorkuver, og aðrir óhefðbundnir orkukostir undir lög um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun). Það er því ekki á hendi Orkustofnunar að gefa út virkjunarleyfi fyrir þessa virkjunarkosti, heldur ganga þeir allir til verkefnisstjórnar rammaáætlunar þar sem þeir verða metnir og þeim raðað í nýtingar-, bið- eða verndarflokk.

Þessi niðurstaða liggur fyrir samkvæmt heimildum Fréttablaðsins innan atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins. Ráðuneytið mun í framhaldinu gera Orkustofnun að senda verkefnisstjórninni vindorkukosti til umfjöllunar, en þeirra þekktastur eru hugmyndir Landsvirkjunar á

Hafinu við Búrfell. Þar áætlar fyrirtækið að reisa allt að 80 vindmyllur, en fyrir standa tvær vindmyllur sem reistar voru í tilraunaskyni.

Orkustofnun hefur til þessa haldið því fram að lög um rammaáætlun nái ekki yfir vindorkuver. Þetta kemur m.a. fram í minnisblaði sem Orkustofnun sendi ráðuneytinu í nóvember. Síðan hefur málið verið til skoðunar hjá lögfræðingum ráðuneytisins.

Á kynningarfundi verkefnisstjórnarinnar í gær kom fram að hvorki er tími né peningar til að fjalla um alla þá orkukosti sem Orkustofnun hefur sent til verkefnisstjórnarinnar. Þeir eru þegar 50 en verða um 90 þegar allt er talið.

Stefán Gíslason, formaður verkefnisstjórnarinnar, segir kostina sennilega verða innan við þrjátíu sem faghópar ná að skoða á þeim tíma sem er til stefnu, en aðeins rúmt ár er þangað til verkefnisstjórn skal leggja fram rökstuddar tillögur fyrir ráðherra. Þeir sem koma ekki til greina eru allt kostir sem þegar eru í verndar- og nýtingarflokki. Eins allir orkukostir sem Orkustofnun hefur mælt með að eigin frumkvæði.

Fyrir viku lagði meirihluti atvinnuveganefndar til að fjórir virkjunarkostir yrðu fluttir úr biðflokki í nýtingarflokk. Alþingi logaði í illindum heilan þingdag á eftir. Spurður hverju tillagan breyti fyrir vinnuna sem fram undan er næsta árið, svarar Stefán. „Nákvæmlega engu."

Birt:
30. janúar 2015
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, shá „Vindorka og aðrir óhefðbundnir orkukostir í rammaáætlun“, Náttúran.is: 30. janúar 2015 URL: http://nature.is/d/2015/01/30/vindorka-og-adrir-ohefdbundnir-orkukostir-i-rammaa/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: