Skjáskot af vefsvæðinu.Landvernd hefur sett upp vefsvæði til að koma áskorunarbréfi á framfæri til þingmanna vegna hugmynda meirihluta atvinnuveganefndar um að færa fjórar virkjanahugmyndir úr biðflokki í virkjanaflokk (nýtingarflokk) rammaáætlunar.
Bréfið er svohljóðandi:

Kæri Alþingismaður!

Ég skora á þig að hafna nýtilkominni tillögu meirihluta atvinnuveganefndar um að færa fjórar virkjanahugmyndir úr biðflokki í virkjanaflokk (nýtingarflokk) rammaáætlunar. Tillaga meirihlutans er aðför að lýðræðislegum og faglegum vinnubrögðum sem Alþingi sjálft hefur sett lög og reglur um.

Með tillögunni er gengið þvert gegn anda laganna um rammaáætlun og dregið úr möguleikum á friði um virkjanamál hér á landi. Ef tillagan verður samþykkt þýðir það í raun að þingmenn geta lagt fram hvaða tillögu sem er án faglegrar umfjöllunar sérfræðinga rammaáætlunar. Er það sá ófriður sem þú vilt sjá í kringum virkjanamál á Íslandi?

Ég vil ekki láta geðþóttaákvarðanir ganga framar faglegum sjónarmiðum. Ég treysti því að þú, þingmaður góður, sért sammála mér um það og hafnir tillögu meirihluta atvinnuveganefndar þegar hún kemur til kasta Alþingis. Í húfi er fimmtán ára faglegt ferli rammaáætlunar og sátt um leikreglur hennar.

Virðingarfyllst

Skrifið undir áskorunina á vefsvæðinu http://askorun.landvernd.is/.

Birt:
27. janúar 2015
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Guðmundur Ingi Guðbrandsson „Áskorun til þingmanna“, Náttúran.is: 27. janúar 2015 URL: http://nature.is/d/2015/01/27/askorun-til-thingmanna/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: